Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Hörður Áskelsson

Söngur í veröld sem var og er

Síðustu dagar hafa kallað fram minningar um veröld sem var á Íslandi, þegar veðurfarið markaði enn árstíðirnar. Flæðandi birta yfir snjóhvíta jörð, tindrar á kristalla, marr í spori, álftahópur á spegilsléttu hafi og fjallahringur í töfraljóma. Sköpunarverkið í sinni fegurstu mynd.

Flest virðist nú breytt í veröld hruninna gilda. Sorg og reiði þyngja hugann. Neikvæðni og svartsýni byrgja sýn, þrátt fyrir hækkandi sól og röð af veðursælum dögum.

Hvar er að finna hjálp, hjálp til að opna sálarljórann fyrir birtunni, sem sannarlega mætir okkur í sköpunarverkinu þessa dagana? Örvilnuð leitum við svara. Við tölum um gildi, gömul og ný, sem þurfi að endurskoða. Það er talað um gamla Ísland og nýja Ísland, mörgum finnst sem gamla landið okkar, eins og það var áður en hrunadans útrásarinnar hófst, hafi verið góður staður til að búa á. Bent er á leiðir til að endurheimta þetta góða land. Víst eru ýmis hjálparráð í boði.

Ég vil benda á hjálparleið, sem stendur öllum til boða endurgjaldslaust. Það er opið hús í kirkjum landsins á hverjum sunnudegi. Þar er boðið til veislu fyrir alla. Á borðum er innihaldsrík næring fyrir sálina, bæn, huggun, fræðsla, samfélag og söngur. Í söngnum er fólginn sameiningarkraftur og styrking sem á sér fáar hliðstæður.

Öllum sem mæta til messu er boðið að taka þátt í söngnum, engar forkröfur eru um söngkunnáttu. Þeir sem ekki vilja syngja geta notið þess að hlusta á kórsöng og annan tónlistarflutning, sem jafnan er til staðar í messunni. Messan er mótsstaður fyrir alla sem eru í þörf fyrir samfélag, sálgæslu og söng.

Við allar kirkjur eru starfræktir kórar, barnakórar, kirkjukórar og kammerkórar. Þar gefst fólki á öllum aldri tækifæri að taka þátt í uppbyggilegu tómstundastarfi, sem gefur þátttakendum mikla gleði og flytur boðskap gilda sem ekki hafa breyst, gilda sem voru, eru og verða dýrmæt okkur lifandi manneskjum, hvernig sem veröldin snýst.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2991.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar