Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

G8 hópurinn

Sáttaleið — Um forsendur fyrirgefningarinnar

G8 hópurinn

Atburðir síðustu mánaða hafa sýnt að ranglæti hefur viðgengist á Íslandi. Um það ranglæti höfum við fjallað í tveimur greinum á þessum vettvangi að undanförnu. Einstaklingar og stofnanir hafa valdið eða stuðlað að óréttlæti. Hvernig eigum við, þjóðin, að bregðast við? Nornaveiðar hafa aldrei gefist vel, opinberar hýðingar sökudólga eru ekki heppileg leið til að bæta fyrir brot eða efla heill, hvorki þjóðar né einstaklinga. Ættum við þá bara að fyrirgefa, gleyma fortíðinni og snúa okkur svo að verkum okkar hvert í sínu lagi? Nei, róttækari viðbragða er þörf.

Tími sáttargjörðar og sannleika

Nú er kominn sá tími að mikilvægt er að byrja að huga að leiðum uppbyggingar og sáttar í samfélagi okkar. Mörg dæmi úr sögunni vísa okkur veginn. Eitt hið besta kemur frá Suður Afríku. Á tíunda áratug síðustu aldar var mikil vinna lögð í að þróa sáttar- og fyrirgefningarferli eftir langt tímabil aðskilnaðarstefnu milli hvítra og svartra. Svartur minnihluti hafði verið beittur stórfelldu ranglæti sem gera varð upp þegar aðskilnaðarstefnunni lauk. Skörp skil þurftu að verða þegar stigið var af braut ranglætis yfir á veg réttlætis. Áhersla var lögð á sannleikann: Að allur sannleikurinn yrði sagður.

Það er vissulega munur á því ranglæti sem framið var í Suður Afríku í tíð aðskilnaðarstefnunnar og þess ranglætis sem afhjúpað hefur verið í íslensku samfélagi. Viðbrögð við félagslegu ranglæti hljóta þó ætíð að vera lík enda er tilgangurinn sá sami: Að byggja upp réttlátt samfélag.

Að segja sannleikann er undanfari þess að hægt sé að taka næsta skref í sáttaferli. Þetta var gert í Suður Afríku. Miklum tíma var varið í að leyfa fórnarlömbum kúgunar og ofbeldis að stíga fram og segja sögu sína frammi fyrir kúgurum sínum svo verk þeirra yrðu opinber og öllum kunnug. Þau sem sannanlega höfðu átt mestan þátt í hinu rangláta kerfi aðskilnaðarstefnunnar voru látin sæta ábyrgð og sum sóttir til saka. Áhersla var lögð á að engin sáttargjörð gæti orðið fyrr en allur sannleikurinn hefði verið leiddur í ljós.

Fyrirgefning eða sátt

En hvað merkir sáttargjörð? Merkir hún það sama og að fyrirgefa? Nei, sáttargjörð er annað en fyrirgefning. Fyrirgefning getur verið einhliða. Sáttargjörð er hins vegar alltaf gagnkvæm. Við getum fyrirgefið þeim sem vita ekki af því að þau hafi gert eitthvað á hlut okkar eða viðurkenna ekki sök sína. Við getum fyrirgefið látnu foreldri eða einhverjum sem hefur skaðað okkur á lífsleiðinni, án þess að viðkomandi komi þar að. Oft er þrýst á einhliða fyrirgefningu þegar einstaklingar eiga í hlut: Þolendur ranglætis eru þá hvattir til að gleyma og halda ótrauðir áfram, sleppa reiði eða haturshugsunum, frelsa sjálfa sig undan hremmingum erfiðra tilfinninga og losna þar með úr kreppu sinni. Stundum getur þesskonar afstaða og ferli hjálpað en mikilvægt er að slík fyrirgefning felur ekki í sér að við afsökum, réttlætum eða viðurkennum framkomu þess sem beitt hefur okkur ranglæti.

Sinnaskipti og leið sátta

Þær aðstæður sem nú ríkja í íslensku samfélagi eru þess eðlis að við hvetjum ekki til fyrirgefningar fólks. Við viljum gerast boðberar sáttargjörðar fremur en fyrirgefningar. Við hvetjum til sáttarferlis þar sem upphafið markast af því að sannleikurinn verði leiddur í ljós líkt og gert var í Suður Afríku og þeir kallaðir til ábyrgðar sem hana bera. Við leggjum til að opinber sáttanefnd taki til starfa og þar fái sannleikur að hljóma. Flett verði ofan af kerfisbundnu ranglæti og þeim sem báru ábyrgð á því.

Við köllum eftir sinnaskiptum. Í því felst að meintir gerendur breyti bæði hugarfari sínu og gerðum. Sinnaskipti felast í siðvæðingu viðskiptalífsins þar sem eigendur og stjórnendur fjármálafyrirtækja sjá náunga sinn í því fólki sem byggt hefur upp það samfélag og þá velferð sem kom undir þá fótunum. Náungakærleikur og samábyrgð er grundvöllur sannrar velferðar. Við erum sköpuð til þess að þjóna hvert öðru og bera sameiginlega ábyrgð. Þessi viska er samviska og í henni felst krafan um sinnaskipti. Við köllum eftir virkri sátt í samfélagi okkar. Sú sátt getur ekki orðið nema sinnaskipti verði hjá einstaklingum og þjóð. Sinnaskipti eru viðsnúningur þegar iðrun er heil og yfirbót sönn. Krafan um iðrun og yfirbót beinist að gerendum og ekki þolendum ranglætis. Meginkrafan er sú að þau sem bera ábyrgð bæti fyrir brot sín. Ef þau hafa brotið gegn lögum eiga þau að taka út refsingu. Það er ekki hefndarhugur sem býr að baki heldur þvert á móti virðing við hina brotlegu: Þeim er sýnd virðing þegar komið er fram við þau eins og skynsemisverur sem beri ábyrgð á gerðum sínum, geti gengist við þeim og tekið afleiðingum þeirra.

Verða að biðjast afsökunar

Sáttargjörð er annað og flóknara ferli en einhliða fyrirgefning. Sáttargjörð felur í sér að allir sem hlut eiga að máli taki þátt í að bregðast við og bæta úr þeim aðstæðum sem upp eru komnar. Í því má alls ekki beita yfirvarpsaðgerðum heldur verða heilindi að ráða för. Í þessu ferli er beiðni um afsökun óhjákvæmileg. Það er lágmarkskrafa í sáttarferlinu. Í okkar dæmi hér á landi verða stjórnvöld, eftirlitsstofnanir, eigendur og stjórnendur bankanna, fjölmiðlar og ýmsar sérfræðingastéttir að biðjast afsökunar á því að hafa brugðist trausti almennings. Þeir sem hafa skotið undan fé eiga auðvitað að skila því. Einnig getur komið að því að einhverjir biðji um fyrirgefningu. Skilyrði þess að hægt sé að veita hana er að iðrun og yfirbót sé bæði huglæg og efnisleg, komi fram í afstöðu, orðum og bótagerðum. Að því skilyrði uppfylltu er möguleiki á því að fyrirgefning verði veitt.

Fyrirgefningar getur enginn krafist af öðrum. Fyrirgefningin er þó það viðmið sem við ættum öll að stefna að. Að henni fenginni getum við gengið saman til móts við sameiginlega framtíð. Fyrirgefning er æskileg en er þó enn sem komið er fjarlægt heilbrigðismarkmið fyrir þjóð sem orðið hefur fyrir ranglæti. Til að vinna að því hvetjum við til að farin verði sáttaleið, sannleikurinn sagður, flett verði ofan af ranglætinu, fólki gefið færi á að gangast við mennsku sinni og brotum og hafi möguleika til bóta. Tíminn er kominn.

Anna Sigríður Pálsdóttir
Arnfríður Guðmundsdóttir
Baldur Kristjánsson
Hjalti Hugason
Pétur Pétursson
Sigrún Óskarsdóttir
Sigurður Árni Þórðarson
Sólveig Anna Bóasdóttir

Um höfundinn8 viðbrögð við “Sáttaleið — Um forsendur fyrirgefningarinnar”

 1. Rómverji skrifar:

  Hjálpræðið er hér:

  http://eyjan.is/silfuregils/2009/03/08/joly-hittir-radherra-og-rannsakendur/

  Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.

 2. Páll Bragi Kristjónsson skrifar:

  Fordómafull og upphafin hræsni, grunnhyggni ÁN hjartalags. Gengur út yfir þjófabálk samlíkinging við aðskilnaðarstefnu.

 3. Valsól skrifar:

  Sáttagjörð getur ekki farið fram fyrr en einhver hefur verið dreginn til ábyrgðar. Það er ótrúlegt en satt að það virðast vera einhver öfl í samfélaginu sem vill að við bara horfum til framtíðar og látum eins og ekkert sé. Það er auðvelt fyrir fólk að segja að nú sé tími sátta runninn upp, en einhvern vegin fæ ég aulahroll við að lesa þetta. Eva Joly heimsfrægur rannsóknardómari var hjá Agli í Silfrinu í dag og sagði að það yrði að rannsaka þetta alveg niður í kjölinn. Hún sagði að nú dyggðu engin vettlingatök, nú yrði að fara koma fram við þessa menn eins og þá glæpamenn sem þeir eru. Gera húsleitir o. s. frv. Svo komið þið og segið að við eigum að fara út í einhvern leikaraskap, eitthvað svona jaddi jari ja. Alveg með ólíkindum hverju fólki dettur í hug að taka upp á. Við hin erum kannski atvinnulaus við það að missa húsnæðið ofan af börnunum okkar og þið komið með svona uppástungu. Ef maður brýst inn í húsið þitt og stelur þar öllu steini léttara, þá fær hann dóm fyrir og þarf að sitja í fangelsi. Öllum þykir það vera hið eðlilegasta mál. En ef einhver rænir heila þjóð, þá virðist eiga setja einhverjar allt aðrar leikreglur, bara fyrirgefa allt saman. Ég segi nei! Ég er svo aftur til í að fyrirgefa eftir að þessir einstaklingar hafa borgað sínar skuldir og skyldur til samfélagsins aftur, en glætan að þessir menn eigi að sleppa bara fyrir einhvern good will. Við erum með lög og ætlumst til þess að allir fari eftir þeim, ef fólk misstígur sig á þeirri leið og brýtur reglurnar, þá verður það bara að taka afleiðingunum. Ef við ætlum að fara fyrirgefa sumum fyrir afbrot sín og öðrum ekki, þá myndast bara kaos og samfélagsstúktúrinn hrynur.

 4. sh skrifar:

  Haldið þið það virkilega að það sé bara noóg að biðjast afökunar og þá sé allt gott og blessað allir sem eru sekir komi bara og segi ég er sekur og nú er ég búinn að því, nú getið þið fyrirgefið mér. Þetta er fólk sem telur sig ekki hafa gert neitt rangt kvernig atlið þið að fara að því að láta fólk biðjast afsökunar sem hefur ekki gert neitt rangt, það er kanski hægt með pinntingum.Þetta er fólk sem hefur látið greipar sópa um hirslur almennings til að fjármagna flottræfilshátt og sýndarmensku. Það væri nær að þið prestastéttin færuð að taka meiri þátt í að hjálpa þeim sem lakast kjörin hafa með því til dæmis að skera niður kosnað við prestaköll,þið gætuð oppnað súpueldhús í safnaðaheimilunum fyrir það fólk sem þyrfti á því að halda. Það læðist að manni sá grunur að slíkt sé fyrir neðan virðingu ykkar,ég fullyrði samt ekkert.

 5. Margrét skrifar:

  Hér getur ekki orðið sátt fyrr en þeir seku gjalda synda sinna.
  Auga fyrir auga ætti við hérna en því miður verður því ekki viðkomið. Það er hins vegar alveg ljóst að stærsti hluti þjóðarinnar er öskureiður og sú reiði eykst frekar en hitt.
  Það verður hægt að tala um fyrirgefningu þegar BÚIÐ er að segja okkur sannleikann og DÆMA í málinu - EKKI FYRR.

  Ekki nóg með það að heilu fjölskyldurnar hafa misst aleiguna en ég veit að börnin okkar vilja og ætla um leið og færi gefst að fara héðan. Eina fjölskyldu þekki ég þar sem amman var nýbúin að láta “plata” sig af bankastarfsmanni sem hringdi í hana og sagði ófært að hún geymdi alla peninga sína í sömu körfu - það væri beinlínis hættulegt. Ráðlagði hann sambland af 100% öruggum sjóðum og rest í hlutabréfum bankans. Þessi kona á ekkert í dag! Sonur hennar og tengdadóttir með 4 börn keyptu 3ja herbergja íbúð fyrir 8 árum með 40% útborgun í seðlum og rest í verðtryggðu láni. Á undaförnum 8 árum hefur lánið hækkað um 45% !!! og afborganir um 100% !!. Nú hafa þau bæði misst vinnuna og sjá fram á að gamla konan missi íbúðina og þau taki hana til sín á heimilið. Elsta dóttirinn neitar að búa á þessu landi lengur og er 17 ára gömul, farin til Ítalíu með fleiri 17 - 18 ára krökkum, búin að fá vinnu á börum! Þau mega þakka fyrir að hún kemur ekki ólétt heim ef hún þá kemur yfirhöfuð heim.
  Haldið þið að fyrirgefning sé þessu fólki sem sér fram á að verða á götunni með 3 börn fljótlega, sé efst í huga?
  Komið niður á jörðina - hér verður engin sátt eða fyrirgefning fyrr en búið að bæta fólki þetta þjóðarrán.
  Skuldaklafinn sem lagður hefur verið á okkur og ekki síst komandi kynslóðir sér til þess að þessi þjófnaður verður geyndur en ekki gleymdur um ókomin ár. Það mun taka margar kynslóðir fyrir þjóðina að fyrirgefa þetta. Svo mikið er víst

 6. Irma Sjöfn Óskarsdóttir skrifar:

  Takk fyrir greinarnar ykkar. Sáttargjörð er einmitt það sem veitir von..ekki einhliða..ekki spurning um að gleyma heldur er :
  “Skilyrði þess að hægt sé að veita hana er að iðrun og yfirbót sé bæði huglæg og efnisleg, komi fram í afstöðu, orðum og bótagerðum.”

 7. Haraldur Ólafsson skrifar:

  Mikilvægt framlag til knýjandi umræðu. Eva Joly lýsir því hvernig rannsókn hinna gífurlegu spillingarmála sem hún rannsakaði í Frakklandi, mála þar sem æðstu stjórnmálamenn og forystumenn í atvinnulífi komu við sögu, og hlutu margir dóm fyrir alvarleg efnahagsbrot, voru gerðir að píslarvottum í fjölmiðlum og rannsakendum brotanna bornar á brýn annarlegar hvatir við meðferð málanna og jafnvel lögbrot. Þetta mun gerast hér, og er kannski þegar farið að brydda á slíkum viðbrögðum.Átakanlegast er þó hve máttlausar og jfnvel átakanlegar eru tilraunir frambjóðenda til að breiða yfir þá staðreynd að það voru stefnumál flokka sem réðu miklu um hvernig fór.

 8. Páll Bragi Kristjónsson skrifar:

  ………virði Harald Ólafsson einna mest allra manna. Hinsvegar ekki sanngjörn hjá honum “pillan”.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 7166.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar