Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Árni Svanur Daníelsson

Á kirkjan eftir að eipa?

Ég sat við eldhúsborðið í morgun, nýbúinn að fara yfir Facebook síðu kirkjunnar, sötraði kaffið mitt og las Moggann. Á netinu, að sjálfsögðu í pdf-útgáfu því á krepputímum er pappírinn sparaður og netið notað í staðinn. Það er heilmikið fjallað um Facebook í Mogganum í dag. Frambjóðendur eru farnir að nota samskiptavefinn mikið og svo eru auglýsendur í æ ríkari mæli farnir að nýta sér þennan vettvang.

Frétt um Facebook í MblÍ Mogga dagsins er einmitt fjallað um nýja auglýsingu símafyrirtækisins Vodafone. Þar er þekktur grínisti, Pétur Jóhann, í „hlutverki Lykla-Péturs sem býður guðhræddum sálum símnotenda í himnaríki … Vodafone.“ Og svo kemur „pönsjlænið“ í lokin: „Kirkjan á eftir að eipa.“

Yfir hverju?

Hér er símafyrirtækið að gera það sem gert hefur verið lengi — og í raun að útfæra sjálft leikritið um Lykla-Pétur: Það reynir að segja eitthvað um sig sjálft með því að tengjast þekktum fyrirbærum úr menningarsögunni. Slíkar tengingar geta tekist vel eða illa. Hér og í þessu tilviki óttast ég að tengingin geti verið hálf-misheppnuð. Ekki vegna þess að þarna sé fjallað um eitthvað sem mörgum er heilagt heldur vegna þess að það er „eitthvað-svo-2007“ að gefa í skyn að grunngildi og/eða grunnstofnanir séu styrkt eða jafnvel eignuð stórfyrirtækjum. Og þannig er mögulegt að skilja auglýsinguna — hvort sem það var nú ætlun fyrirtækisins eður ei.

Kirkjan eipar ekki yfir auglýsingum þótt kirkjunnar fólk geti haft á þeim skoðun. Kirkjan eipar frekar yfir ranglæti, yfir mismunun, yfir kúgun. Sérstaklega á föstunni.

Það er aftur á móti er sjálfsagt að geta þess í samhengi áðurnefndar auglýsingar og þessa greinastúfs að himnaríkivist – þessa heims og annars – er að skilningi kirkjunnar gjöf sem er þegin í trú. Himnaríkið sem kirkjan boðar krefst ekki áskriftar eins og himnaríki símafyrirtækisins. Og þannig er reyndar líka með þjónustu kirkjunnar sem veitt er um allt land: Hún er endurgjaldslaus og öllum opin.

Yfir því þarf enginn að eipa.

Ps. Fyrir þá sem ekki eru kunnugir sögninni „eipa“ þá mun hún skilgreind eitthvað á þessa leið í Íslenskri orðabók: „að tapa sér, ruglast.“ Í þessum pistli er hún notuð í fyrrnefndu merkingunni.

Um höfundinn6 viðbrögð við “Á kirkjan eftir að eipa?”

 1. Þorkell skrifar:

  Mjög góð grein. Oft gleymist þessi sýn sem þú leggur hér fram hjá kristnum einnig og því þörf áminning fyrir alla.

 2. Matti skrifar:

  Láttu ekki svona Árni Svanur, ríkiskirkjan “eipar” reglulega. Þurfum við virkilega að telja upp dæmi?

  Það er aftur á móti er sjálfsagt að geta þess í samhengi áðurnefndar auglýsingar og þessa greinastúfs að himnaríkivist – þessa heims og annars – er að skilningi kirkjunnar gjöf sem er þegin í trú. Himnaríkið sem kirkjan boðar krefst ekki áskriftar eins og himnaríki símafyrirtækisins.

  Nú segir þú ósatt.

  Hvað þarf fólk að gera til að hljóta himnaríkisvist samkvæmt þeim kenningum sem kirkjan þín starfar eftir?

  Það er ekki “gjöf” ef þú þarft að gefa eitthvað í staðin og það vill svo skemmtilega til að samkvæmt Lúther snýst þetta einmitt um “áskrift”. Fólk þarf að trúa til að fá aðgang.

 3. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Það er alveg rétt að trúin skiptir máli í þessu sambandi, en ég er ekki sammála þér að það sé hægt að jafna henni við „áskrift“ eins og þú gerir.

  Ef við höldum áfram með símalíkinguna (sem er að vísu ófullkomin) þá má segja að munurinn geti verið hliðstæður við það að hringja og taka á móti hringingu. Þegar ég hringi í annan greiði ég fyrir símtalið. Þegar ég tek á móti símtali greiði ég ekkert fyrir það.

  Orðin „gjöf sem er þegin í trú“ mætti sjá sem hliðstæðu við það síðarnefnda.

 4. Helgi Briem skrifar:

  Mér finnst krafan um að trúa einhverju sem ekki er satt og getur aldrei og gæti aldrei verið satt vera býsna harkaleg gjaldtaka.

 5. Matti skrifar:

  Nei, þetta gengur ekki upp hjá Árna. Himnaríkisvist er ekki “gjöf” þar sem fólk fær hana ekki nema það uppfylli ákveðin skilyrði. Skilyrði sem m.a. krefjast fórna. Ekki eipa Árni, en líking þín gekk einfaldlega ekki upp.

 6. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Líkingin gengur upp, en það gildir um hana eins og allar aðrar líkingar að maður þarf að hafa það í huga að þær eru bara líkingar.

  Það mætti vissulega vinna með síma-/símafyrirtækis-/áskriftarlíkingu eins og þið félagarnir gerið og velta því fyrir sér hvort sjá megi hliðstæðu milli áskriftar og trúar. Spyrja hvað trúin sé og hvað hún sé ekki.

  En þessi pistill fjallar ekki um það.

  Hitt er svo annað mál og því skal ekki leynt að gjöfinni fylgir ákveðið skilyrði: Þú þarft að taka á móti henni. Það reynist sumum erfitt en öðrum auðveldara.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4325.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar