Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigurjón Árni Eyjólfsson

Guð og mammón III: Að nota fé í stað þess að þjóna því

Nískan er afleiðing rangrar afstöðu mannsins til peninga. Samkvæmt Lúther á maðurinn ekki að þjóna þessum veika guði, heldur að nota hann. Lúther tengir þjónustuhugtakið við fyrsta boðorðið. Samkvæmt því líður Guð ekki að maðurinn lúti öðrum guðum, en honum. Rétt þjónusta felst í að tilbiðja Guð einan af fúsleika og í kærleika. Forsenda hennar er að greint sé á milli Guðs og gjafa hans. Gjafir Guðs hjálpa, en hjálpin er takmörkuð takmarkað. Það gildir sérstaklega við um auðævin. Þegar á móti blæs veitir mammón ekki skjól, heldur krefst allra krafta og getu mannsins til að vernda sig í hjálparleysi sínu. Þá rennur oft upp fyrir manninum nauðsyn þess að byggja traust sitt á þeim Guði sem gefur „okkur fé, eignir, ávexti og allt sem við þörfnumst.“ Þegar maðurinn kemst þannig til sjálfs sín, þá hefur hann skilið hvert er vægi og hlutverk peninga. Hann viðurkennir að Guð líður ekki skurðgoð sér við hlið, sama hvaða nafni sem þau nefnast.

Rétt umgengni við peninga
Hvernig á þá maðurinn að umgangast fé og eignir? Maðurinn á að byggja traust sitt á Guði. Það er hann sem endanlega tryggir og skilgreinir persónu, sjálfskilning og þar með líf mannsins í heild. Maðurinn á aftur á móti að þjóna náunganum í kærleika með þeim verkum og í því starfi sem honum er falið. Hér verður maðurinn bæði að tryggja umgjörð samfélagsins og velferð þeirra sem honum er trúað fyrir eins og maka, börnum, fjölskyldu, o.s.frv. Það á að nota fé og eignir til þessa verks. Og það er gert með þeirri samfélagsþjónustu sem ríkisvaldið veitir og er tryggð með sköttum sem maðurinn greiðir af því fé sem hann á afgangs.

Notkun peninga eru þannig sett skýr mörk. Þá ber að nota til að sinna þeim sem maðurinn ber ábyrgð á. Náungi mannsins stendur honum hvergi eins nærri og í þeim sem hann deilir lífi sínu með eins og t.d. í maka, börnum, fjölskyldu o.s.frv. En náungakærleikurinn snýr einnig að samfélaginu og framlag mannsins er tryggt með innheimtu skatta sem tryggja eiga þá þjónustu sem ríkisvaldinu er falið að sinna. Skatturinn á að tryggja að mammón sé notaður á réttan máta.

Velgengni
Fyrir fagnaðarerindið verður maðurinn meðvitaður um stöðu sína í lífskerfi Guðs. Hann skynjar heiminn sem sköpun Guðs og sem samverkamaður Guðs tekur hann þátt í að viðhalda henni. Lúther vísar aftur til orða Jesú um fugla himinsins og liljur vallarins sem flytja Guðs orð: „Hafðu ekki áhyggjur […] láttu mig um áhyggjurnar, því þær tilheyra embætti mínu. Ég er faðir ykkar og ég kem miklu til leiðar með umhyggju minni, en þið komið engu til leiðar með áhyggjum ykkar.“ Það sem maðurinn reynir eða verður fyrir, leitast hann „við að sigrast á með þolinmæði og í trú.“

Hér er auðvelt að tengja við blessun Guðs annað hugtak sem er mikið notað, velgengni. Það er oft notað í tengslum við fé og eignir. En velgengni er einnig líka eitthvað sem hægt er að tengja við einkalífið, fjölskyldu, börn, trú, áhugamál o.s.frv. Fjölbreytileiki mannlegs lífs hefur mikið að gera með blessun. Fólk þarf oft aðeins að ljúka upp augunum til að koma auga á veruleika hennar. Allt stendur og fellur með réttu sjónarhorni, m.a. sjónarmiði trúarinnar sem byggir traust sitt á orði fagnaðarerindisins. Það gerir manninum mögulegt að virða heiminn og líf sitt sem sköpun Guðs. Þannig getur maðurinn sem barn Guðs greint blessun hans mitt í hversdagsleika sínum. Í því samhengi má einnig sjá fé og eignir. Þau ber að virða sem gjafir Guðs og eins og allar gjafir hans ber að virða þær og nota.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3776.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar