Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigurjón Árni Eyjólfsson

Guð og mammón II: Traust

Fyrir hvað stendur mammón og hvað gerir hann við þjóna sína? Í predikun eftir Lúthers er að finna eftirfarandi skilgreiningu. „Mammón þýðir fé, peningar eða auður sem maður þarfnast ekki, heldur geymir sem sjóð. Mammón er eiginlega það fé og auður, sem maður á sem varasjóð.“ Orðið mammón þýðir sem sé auðævi eða það sem maðurinn á eftir, þegar fullnægt hefur verið því sem hann og fjölskylda hans þarfnast. Þennan afgang á maðurinn að nota fyrir þá sem eru þurfandi. „Mammón þýðir eiginlega það sem maður á eftir af næringu, sem hægt er að nota til að hjálpa öðrum með, án þess að þurfa sjálfur að líða skort.“

Samkvæmt Lúther er mammón samheiti fyrir afgang, fyrir eitthvað sem má leggja til hliðar eða það sem maðurinn þarfnast ekki nauðsynlega. Lúther útfærir þetta nánar og greinir á milli tveggja merkinga; annars vegar mammón og hins vegar hinn óréttláti mammón.

Hugtakið mammón er úr hebresku og þýðir ríkidómur eða tímanlegur auður, eða eins og áður er sagt það sem, „einhver á afgangs og getur notað til að hjálpa öðrum með án þess að líða sjálfur af því skaða.“ Lúther vísar til rótarhugtaks í hebresku sem þýðir magn eða stór hrúga. Mammón má því setja að jöfnu við ríkidæmi. En auðævi sem slík hafa ekki í sér fólgin siðferðilegan mælikvarða. Siðferðilegt vægi sitt fá þau fyrst í umgengni mannsins við þau. Ef við orðum það svo, þá er mammón hjálparvana guð, hann hefur engan kraft í sér og er algjörlega háður þjónum sínum. Í samskiptum mannsins við mammón er maðurinn því veiki hlekkurinn. Allt stendur og fellur með afstöðu mannsins til hans eða auðs síns. Í þessu sambandi tekur Lúther fyrir samband mammóns og nískunnar.

Í annan stað kallast mammón hinn rangláti mammón. Hann er ekki ranglátur „vegna þess að fé er aflað á rangan máta eða með okri […] heldur kallast hann ranglátur, vegna þess að hann er notaður ranglega […] Auður verður rangur vegna þess að fólk notar hann illa og beitir ranglega.“ Eins og áður er sagt er mammón veikur og hjálparþurfi sem guð. Hann er berskjaldaður fyrir misnotkun, það er ráðist að honum úr öllum áttum m.a. af verðbólgu og rangar fjárfestingar éta hann upp. Og margir reyna eins og bankar að komast yfir hann. Samkvæmt Lúther eru mölur og ryðið sem talað er um í Mt 6.19 ekki endilega einstaklingar heldur spillt fjármálakerfi. Hann segir:

„Mölur og opinberir þjófar eru […] fjárglæframenn við hirðina, sem geta tæmt búr og pyngju furstans og að lokum svipt hann öllu sem hann á. Þetta gera þeir líka við borgarana, þeir brjótast ekki inn hús þeirra, heldur mergsjúga þá á hulinn máta með okri og annars staðar sem því er viðkomið […] því hvað annað er ótraustur ráðgjafi við hirðina eða embættismaður en slíkt ryð og mölur. Hann þjónar engum. Hann étur upp fé og eignir furstans, einfaldlega vegna þess að eitthvað er til staðar.“

Níska og græðgi

Mammón, í skilningi auðs, lokkar marga að. Maður sem er í þjónustu hans hefur því nóg að gera. Hann þarf t.d. að eyða svefnlausum nóttum yfir fréttum úr kauphöllinni í stöðugri leit að nýjum möguleikum til að ávaxta fé sitt. Í þessu samhengi segir Lúther að kristnir einstaklingar verði að forðast tvennt, „ranga kenningu og nísku.“ Lúther vitnar hér í fyrra Tímóteusarbréf „Fégirndin er rót alls ills. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum“ (1Tím 6.10). Ef maðurinn bindur trú sína við auðævi sín, munu áhyggjurnar og óttinn ræna hann svefni og lífi. Það sem heldur honum þá vakandi er nískan. Hún breytir manninum þar sem ást hans á „krónunni er þess eðlis að hann álítur hana vera sinn drottinn, sem hann tilbiður og lofar, eins og allir aurapúkar gera. Ást hans er það mikil að hann lætur frekar fátækan mann deyja hungurdauða, áður en hann finnur hvöt í hjarta til að gefa honum eitthvað.“ Áhyggjur mannsins snúast hér ekki um náungann, heldur um eigið fé. Ást hans kemur fram í ábyrgðarleysi gagnvart neyð náungans. Í stað þakklætis fyrir gjafir Guðs, ríkir í hjartanu vanþakklæti og hræðsla um eigin hag. „Fé er hjarta hans: það er ef hann á peninga, þá eru þeir honum huggun og gleði, sem sé guð hans. Aftur á móti ef hann hefur ekkert þá er það honum dauði, þar er ekkert hjarta, engin gleði né huggun.“

Á hæla nískunnar fylgir græðgin og maðurinn verður óseðjandi. Hann vill ætíð meira og fljúga hærra. „Ef Guð hefur gefið honum fallegt hús, þá vill hann höll. Eigi hann höll vill hann þorp o.s.frv. Hann verður aldrei ánægður […] Ef það væri ekki nísku og stolti fyrir að fara hefðum við öll nóg. Áhyggjur, deilur og níð væru þá ekki meðal manna.“ Nískan gerir manninn blindan á eigin þarfir og náungans. Lúther vísar til sögunnar um Midras konung í Frígíu, til að draga þetta fram. Allt sem Midras snerti varð að gulli og það var hans bölvun. Sama afstaða kemur fram en undir öfugum formerkjum hjá þeim sem hafna jarðneskum gæðum. Þeir sjá hvorki neyð né stöðu annarra. Samkvæmt Lúther er Diógónes heimspekingur gott dæmi um slíka afstöðu. Sá sagði við Alexander mikla „þegar hann stóð fyrir tunnuopinu sem hann bjó í, að hann skyggði á sólina.“ Og Lúther heldur áfram: „úr þessum hræsnurum verða uppskrúfaðir hrokagikkir. Þeir álíta sig jafnvel geta litið niður á konunga og keisara. Þeir segjast ekki sækjast eftir heiðri, en eru sjúkir í hann. Þeir vilja að allur heimurinn tilbiðji þá vegna heilagleika þeirra.“

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3834.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar