Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigfús Kristjánsson

Fjársjóðskistan, hvað geymir hún?

Við settumst niður feðginin síðasta sunnudagskvöld. Við Guðrún höfðum farið um morguninn í barnastarfshátíð sunnudagaskóla í Reykjavíkurprófastsdæmi Eystra. Hún hafði sannarlega skemmt sér vel á hátíðinni sem að þessu sinni var haldin í Grafarvogskirkju. Þar var sérstakur gestur Björgvin Franz sem þessa daganna stjórnar stundinni okkar. Fyrir mörg börn eins og hana Guðrúnu sem er fjögurra ára er hann frægastur í heimi, ásamt hugsanlega íþróttaálfinum og Sollu stirðu.

BarnaguðsþjónustaUm kvöldið gafst svo tækifæri til að ræða stuttlega um hátíðina og sunnudagaskólann sem við sækjum saman eins oft og við getum. Það stóð ekki á svari þegar ég spurði hvað væri skemmtilegast í sunnudagaskólanum. Vissulega voru söngvarnir skemmtilegir og þá sérstaklega hreyfisöngvarnir. En mest er þó spennandi á hverjum sunnudegi að sjá hvað kemur upp úr fjársjóðskistunni. Síðast var það auðvitað Björgvin Franz sem að spratt upp úr kistunni sem hann hafði dúsað í nokkuð lengi eftir smá ófarir með töfrasprota. Hann var sannarlega í miklu stuði enda sannur fjársjóður sem mætti honum þegar hann birtist fyrir framan fulla kirkju af börnum.

Oftast er það þó fyrirferðaminna sem kemur upp úr kistunni og tengist gjarnan biblíusögu dagsins. Oft er líka eitt ritningavers sem slæðist með þegar eitthvað óvænt kemur upp úr kistunni. Þá er það gjarnan hið góða vers úr Markúsarguðspjalli: „Því hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera.“ Fjársjóður kistunnar endurspeglar oft þetta vers og vísar til einhvers sem við metum mikils og þá gjarnan einhvers tengt sambandi okkar við Guð og hvert annað.

Fjársjóður er eitthvað sem gerir okkur að ríkari einstaklingum. Hann viljum við því líklega flest eiga. Hitt er annað mál hvort við njótum hans í raun þegar við eignumst hann. Það er svo margt sem að grípur athygli okkar og eyðir tíma okkar. Stundum er eins og við gleymum að verja tíma til að styrkja sambandið við þá sem standa okkur næst. Líklega er okkar stærsti fjársjóður falinn í góðum tengslum við Guð og menn. Það eru þau tengsl sem gera góðar stundir góðar og innihaldsríkar, og erfiðar stundir bærilegar. Við þekkjum það flest hvernig gleðistundir okkar og sigrar verða ekki eftirminnilegar nema við getum deilt þeim með öðrum. Eins er fátt betra í mótlæti en að geta deilt byrðunum með öðrum. Líklega hittir höfundur 90. Davíðssálms naglann á höfuðið þegar hann segir: Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta. Við ættum að nýta þann tíma sem okkur er gefinn til að ávaxta okkar raunverulega fjársjóð. Það er því ekki ólíklegt að fjársjóður okkar Guðrúnar sé tíminn sem við eigum saman í Sunnudagaskólanum þegar við syngjum saman og bíðum spennt eftir að sjá hvað kemur upp úr kistunni þann daginn.

Þegar við vorum búin að sitja smá stund feðginin og rifja upp nokkur skemmtileg atvik úr sunnudagaskólanum horfði Guðrún á pabba sinn og sagði: Pabbi, hvað verður í kistunni næsta sunnudag? Já, svaraði pabbi án þess að svara spurningunni og sagði: Ætli við verðum ekki bara að bíða og sjá.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2645.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar