Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Karl Sigurbjörnsson

Myndum öflugan bænahring um landið okkar

Samkirkjulegri bænaviku fyrir einingu kristninnar lýkur á morgun, sunnudaginn, 25. janúar. Guðspjall dagsins samkvæmt textaröð Þjóðkirkjunnar er Lúk 17.5-10: „Auk oss trú!“ Ég vil ítreka hvatningu mína til presta að bjóða sérstaklega til fyrirbænar fyrir íslensku þjóðinni í messum þessa dags. Köllum fólk saman og myndum öflugan bænahring um landið okkar á erfiðum tímum!

Hafi grundvallartraust beðið hnekki í íslensku samfélagi, eins og oft er sagt, þá er það alvarlegt og brýnt að allt gott fólk taki höndum saman um að endurreisa það. Ekkert samfélag stenst án trausts. En það er ekki blint traust, það er traust sem byggir á trú, sem er glöggskyggn á hið góða og fús til að greiða því veg. Trú sem starfar í auðmýkt og kærleika.

Við höfum verið svo lánsöm Íslendingar, við höfum hrósað okkur af öruggu samfélagi, samhug og samstöðu, þar sem menn geta treyst náunganum og grunnstoðum samfélagsins. Guð gefi að svo verði áfram í okkar góða landi. Leggjum okkar hlut að mörkum þess. Og biðjum fyrir heill landsins. Biðjum um styrk, þrek og visku þeim sem við köllum til að veita málum okkar forystu.

Biðjum fyrir forsætisráðherra í veikindum hans, að Guð lækni hann. Biðjum eins fyrir utanríkisráðherra um skjótan bata.

Og minnumst þeirra fjölmörgu sem erum kvíðin og áhyggjufull, reið og sorgmædd. Biðjum um æðruleysi, vit og kjark til að takast á við voða og vanda allan sem að steðjar.

Áköllum Guð og biðjum: Auk oss trú!

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2884.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar