Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristján Valur Ingólfsson

Jósef

Umhugsun um jólatextana hefur að þessu sinni oftar en ekki leitt hugann að Jósef.

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. (Lúk. 2.1-5)

Þegar vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. Þar dvöldust þau þangað til Heródes var allur,( Mt. 2.13-14a)

Í fyrstu fimm versunum í jólaguðspjallinu eru María og Jósef enn á leiðinni til Betlehem. Ferðin sækist seint og hægt er farið. Jósef gengur við hlið asnans eða á undan honum, en María fær að sitja asnann.

Jósef leitar á hugann þessi jólin í ríkara mæli en oft áður. Venjulega er hann hálfvegis eða alveg í skugganum. Það er ómaklegt. Við tölum um Maríu sem fyrirmynd kirkjunnar og vegsömum hana með réttu sem hina æðstu meðal kvenna, móður Guðs á jörð, en það vill gleymast að Jósef hefur líka sitt fyrirmyndarhlutverk. Hann er eiginlega hinn fyrsti meðal kristinna manna. Hinn fyrsti trúaði kristni maður, þótt hann væri auðvitað fyrst og fremst góður gyðingur allan tímann.

Jósef er líka sá sem fyrst er freistað. Í myndverkum austurkirkjunnar, íkononum, þar sem fæðingin er sýnd í fjárhúshellinum, er Jósef sýndur útifyrir á tali við ókunna persónu, oft heldur dökkleita og skuggalega yfirlitum.

Þar er kominn óvinurinn sjálfur. Freistarinn. Hann er að læða því inn hjá Jósef að þetta sé allt saman blekking og vitleysa. Takmark óvinarins er að láta Jósef bregðast barninu og móður þess á ögurstundu.

Þú átt ekki þetta barn, segir freistarinn, þú hefur engar skyldur við það og þér ber í raun, að hafna móðurinni sem hefur haft þig að fífli. Hver trúir því að þetta barn sé eitthvað meira sonur Guðs en að öll börn eru börn skaparans? Þetta er hann að segja.

Og það næsta sem við sjáum til óvinarins er í barnamorðunum í Betlehem, þegar tryggja átti að Jesúbarninu yrði tortýmt.

Jesús er fæddur inn í hræðilegan og hættulegan heim.

Jósef svíkur ekki. Hann stendur vörð um barnið og móður þess. Hann hlustar ekki á óvininn. Og hann rís upp um miðja nótt og tekur þau með sér til Egyptalands, og bjargar þannig Guðs syni frá morðóðum útsendrurum Heródesar.

Jósef er fyrirmynd sérhvers þess sem trúir. Hann er fyrirmynd þess sem tekur við barninu í jötunni sem Guðs syni, hversu undarlegt sem það virðist og hversu einbeittar sem raddirnar eru sem segja okkur að trúa því ekki sem sagt er um hann.

Rödd óvinarins er ekki þögnuð: Hvernig getur þú verið svona vitlaus að trúa því að þetta sé satt? Að sjálfur Guð sé á jörðu sem umkomulaust barn, algjörlega ofurselt duttlungum mannanna og grimmd þeirra? Hvernig getur hann sem á ráð á öllu, og hefur vald yfir öllu, gefið sig í hendur þeirra sem kannski kunna ekki að bregðast rétt við?

Guð treystir okkur eins og Jósef. Guð treystir á okkur eins og Jósef. Hann treystir því að við stöndum vörð um Jesúbarnið í jötunni, sem er þar nákvæmlega jafn umkomulaust og hjálparþurfi eins og hvert annað barn og þó er hann sjálft hjálpræðið, hið eina heimsins hjálparráð. Guð með oss. Við jötu hans verðum við vitni að undri: Allri elsku Guðs í litlu barni. Gjöf Guðs til allra heimsins barna. Það er jólagjöfin sanna og eina.

Við ætlum þangað til að þiggja þá gjöf, svo við getum borið elsku hans út til annarra. Fyrst til þeirra sem við elskum hvort sem er og svo til þeirra sem enginn elskar, nema Guð. Um leið og við reynum að veita barninu skjól, stöndum við sjálf í skjóli hans. Það er ekki hann sem er bjargarlaus án okkar, heldur við án hans.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2852.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar