Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Yrsa Þórðardóttir

Í fótspor fiskimannsins

Um jólin var komið að mér að sjá bíómyndina sem gengið hafði manna í millum í Digraneskirkju, og er í eigu organistans okkar, Kjartans Sigurjónssonar. Þetta er stórmyndin Í fótspor fiskimannsins, um prestinn og andófsmanninn Kiril Lakota, leikinn af Anthony Quinn, sem leystur er úr haldi, fær hæli í Vatíkaninu og verður þar páfi.

Í fótspor fiskimannsins Mikill er fögnuður allra áhorfenda þegar hann í lok myndarinnar gerir það sem aldrei mun gerast, hann tekur niður kórónuna og býður fram allan veraldlegan auð þessarar alþjóðlegu samsteypu, kaþólsku kirkjunnar, til að vinna gegn hungrinu í heiminum og misskiptingu auðs. Hitt tókst honum ekki, eða vildi kannski ekki gera, að fá leyfi til að séra Telemond fengi að birta bækurnar sínar tíu, sem kúríunni þóttu fullar trúvillu.

Ég sá um daginn á netinu að Eugen Drewermann, prestur og sálgreinir í Þýskalandi, gekk úr kaþólsku kirkjunni á 65 ára afmælisdaginn sinn, 20. júní 2005. Þá var hann að vísu búinn að gefa út margar og þykkar bækur við enga hrifningu kirkjustjórnarinnar, en Ratzinger kardínáli var búinn að klaga hann og smátt og smátt var búið að meina honum að prédika, kenna og messa. Kirkjan missti Drewermann, Ratzinger var gerður að páfa sem ég tel engar líkur á að svipti sig tignarklæðum svo að fólk megi lifa af hungur, eyðni, vanvisku og angist.

Drewermann er ötull talsmaður virðingar okkar við sköpunina, að við slátrum ekkidýrum á þann hátt og í þeim mæli sem við gerum, að við sýnum aðgát í nærveru allra sálna, dýra og manna. Hann fann það snemma út í sínu prestsembætti að öll hans kunnátta gerði honum ekki kleift að sinna sálgæslu sem skyldi, svo að hann fór í sálgreiningu. Ég ráðlegg öllum að lesa ritskýringarbækur hans, hvernig hann les Grimmsævintýrin og finnur út almennan sannleik um þroskasögu fólks, um það hvernig við þolum að hugsa um hið illa og ógnvænlega, angist, þrá og það sem ekki má. Hægt er að afla sér upplýsinga um hann og verk hans á Wikipedia, bæði á þýsku og ensku.

Við í Digraneskirkju höfðum í haust námskeiðið Lifandi steinar þar sem ég varð vitni að því þegar fullorðið fólk, sem ekki kallar allt ömmu sína, fékk í hendur alveg nýtt tæki í sinni þroskasögu: að fletta upp í Biblíunni á eigin spýtur. Í anda siðbótar hvet ég okkur öll til að hlúa að Orðinu með því að þjálfa þennan eiginleika hjá öllum aldursflokkum, að stuðla að því að fólk finni milliliðalaust aðgang að orðinu og finnist það frjálst til að túlka það og íhuga. Eins og Drewermann og fleiri sálgreinar, trúum við því að Orðið leysi, frelsi, gleðji og byggi upp. Af eigin reynslu sem prestur og sálgreinir veit ég að orð Biblíunnar eiga sífellt nýjan aðgang að óvitund fólks þegar það í gleði hjarta síns fær að taka því sem ævintýri, nýrri, óvæntri sögu, einhverju sem fær hjartað til að slá, sálina til að komast við og lífið til að öðlast nýjan tilgang.

Ég vona að við rötum í fótspor fiskimannsins, afskrýðumst veraldlegri tign og brettum upp ermar til að brauðfæða heiminn og hugga lýð Guðs í þeim vanda sem nú steðjar að.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4394.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar