Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Benedikt Jóhannsson

Foreldrar og börn

Oft er vitnað í Halldór Laxness þegar hann lætur Álfgrím segja í upphafi Brekkukotsannáls:
“Vitur maður hefur sagt að næst því að missa móður sína sé fátt hollara ungum börnum en að missa föður sinn. “

Oft er tilvitnun þar með lokið, en sögumaður heldur áfram:

“Þó því fari fjarri að ég taki undir þessi orð að öllu leyti, þá sæti síst á mér að fara að bera á móti þeim, beint…..En hversu sem mönnum kann að þykja um þessa skoðun, þá kom það nú sumsé í minn hlut að standa uppi utan foreldri hér í heimi. Ég vil ekki kalla það lán mitt, slíkt væri of djúpt tekið í árinni. En óhapp get ég ekki kallað það, að minnsta kosti að því að mig sjálfan varðar; og það var af því að því að ég eignaðist afa og ömmu. “ (bls.5)

Álfgrímur var sem sagt fóstraður hjá fólki sem gerðust foreldrar hans og það varð hans gæfa eftir missi foreldra sinna. Sagan lýsir því síðan á hugljúfan hátt hvernig “afi hans og amma” eru alltaf til staðar fyrir Álfgrím, þó þau láti ekki mikið með hann og séu kannski ekki beint að sinna honum. En í sögunni skynjar maður hægláta, vökula og kærleiksríka, já allt að því guðdómlega nærveru Björns í Brekkukoti og ömmunnar, sem gerðust foreldrar hans.

Halldór lætur Álfgrím m.a. segja

“..en hvort sem ég var nú að skemmta mér í kálgarðinum, á hlaðinu eða í húsasundinu, var afi minn alltaf einhversstaðar nær á þöglan alviskufullan hátt .. það var eins og að liggja við stjóra, sálin átti í honum það öryggi sem hún girntist.” (Bls. 10-11).

Kærleiksrík nærvera foreldra eins og hér er lýst, umhyggja þeirra fyrir börnum sínum og sú tengslamyndun sem fylgir í kjölfarið milli barns og foreldris, er og verður grunnurinn að traustu og góðu uppeldi. Við öruggar aðstæður af þessu tagi skapast djúp öryggiskennd og traust hjá barninu, ásamt tiltrú á öðru fólki og lífinu sjálfu. Þessi persónulega tenging við foreldrana leggur grunninn að andlegu heilbrigði og þroska barnsins. Barn sem getur treyst á foreldra sína er fúsara til að hlíta forsjá þeirra og tekur þá sér til fyrirmyndar. Það tileinkar sér m.a gildismat og skoðanir foreldranna og þeir verða þannig stór hluti af samvisku barnsins. Vonandi er það flest af því góða, en eitt af viðfangsefnum unglinga og ungs fólks er að velja meðvitað hvað það vill gera að sínu og hvað síður. Þetta er líka klassískt viðfangsefni í sálfræðilegri meðferð. Ef að foreldrarnir hafa á einhvern hátt brugðist getur engu að síður verið mikilvægt að finna og varðveita það góða sem þeir höfðu fram að færa. Drykkfellt foreldri getur til dæmis verið umhyggjusamt og gefandi þegar það er ekki undir áhrifum.

Á síðari árum hafa ýmsar kannanir verið gerðar á uppeldisháttum og aðlögun barna. Öllum þessum könnunum ber saman um mikilvægi samveru foreldra með börnum sínum. Í könnun sem gerð var á vegum Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur 2003 komu þannig fram mjög sterk tengsl milli samtals og samveru foreldranna við börnin og líðanar barnanna. Íslenskar rannsóknir á unglingum í 9-10 bekk hafa líka sýnt að drykkja er allt 4 sinnum tíðari hjá unglingum sem sjaldan eru með foreldrum sínum um helgar miðað við þá unglinga sem oft eru með foreldrum sínum. Bandarískar rannsóknir hafa einnig fundið að unglingar sem borða yfirleitt kvöldmat með foreldrum sínum nota mun síður fíkniefni og gengur betur í skóla. Sjálf samveran með foreldrunum hefur þannig afgerandi forvarnargildi.

Rannsóknir Sigrún Aðalbjarnardóttir prófessors við H.Í. á uppeldisháttum og aðlögun barna benda einnig til þess að góð blanda af ást og aga af hálfu foreldranna (leiðandi uppeldishættir) veiti góða vörn gegn drykkju, reykingum og eiturlyfjaneyslu á unglingsárum. Rannsókn Rúnars Vilhjálmssonar við H.Í bendir einnig til þess að leiðandi uppeldishættir veiti vörn gegn kvíða, þunglyndi og reiðihegðun.

Foreldrar eru sem sagt afar mikilvægir börnum sínum. Það er því einatt áhyggjuefni ef annað eða báðir foreldrar geta af einhverjum orsökum illa rækt foreldrahlutverk sitt, svo sem vegna alvarlegra veikinda eða óreglu. Ef ung börn eiga ekki lengur skjól og skjöld í foreldrum sínum þurfa aðrir að hlaupa í skarðið, en spurningin er hverjir? Oft er farsælast ef nánir ættingjar geta hlaupið í skarðið. Ef opinberir aðilar þurfa að grípa inn vandast hins vegar málið. Það sýnir meðal annars sú umræða sem verið hefur í fjölmiðlum um uppeldisstofnanir fyrri tíma og skaðleg áhrif þeirra á alla vega sum börn sem þar voru vistuð.

Þá komum við aftur að upphafi Brekkukotsannáls. Það varð gæfa Álfgríms að hann eignaðist góða foreldra í stað þeirra sem hann missti. Opinber stofnun getur aldrei komið í stað foreldra. Það geta aðeins persónur gert, sem eru tilbúnar að taka barnið að sér og tengjast því kærleiksböndum.
Í samfélagi nútímans vinna oftast báðir foreldrar fjarri heimili og eru því minna til staðar fyrir börn sín en áður var. Oft er talað um kapphlaupið við tímann og stressið sem hrjáir foreldra nútímans, þó lífsbaráttan sjálf hafi verið erfiðari hér áður fyrr. Einnig eru farnar að heyrast áhyggjuraddir af heildags vistun sífellt yngri barna á leikskólum, þar sem tíð skipti eru á starfsfólki. Til að koma til móts við þarfir yngstu barnanna og foreldra þeirra hefur foreldraorlofið veið lengt. Hins vegar bar á því að fólk hafi nýtti sér kjarabætur góðærisins til að vinna heldur minna og eyða meiri tíma með börnunum. Svo virðist sem kjarabótunumhafi verið eytt í efnislegri og forengilegri gæði.

Reyndar er farið að bera á því að fyrirtæki og vinnustaðir kynni sig sem fjölskylduvæna og með sveigjanlegan vinnutíma. Ákjósanlegt væri að foreldrar gætu haft sveigjanleika í vinnu til að skiptast á um að koma fyrr heim til ungra barna sinna, ásamt því að foreldrarnir gætu báðir verið í eitthvað skertu starfshlutfalli meðan börnin eru lítil. Hins vegar er líka spurning hvernig sveigjanlegur vinnutími er útfærður í raun. Dæmi eru um að sveigjanleikinn sé einkum til hagsbóta fyrir fyrirtækið, sem þá fer fram á meira vinnuframlag á annatímum í rekstrinum. Það er tæplega fjölskylduvænt.

Af framansögðu má vera ljóst að þrátt fyrir kaldhæðnisleg orð nóbelsskáldsins um hvað sé börnum hollt, þá eru foreldrar mjög mikilvægir börnum. Og það sem meira er, foreldrar fylgja börnum sínum alla tíð í krafti þess sem börnin lærðu af þeim og gerðu að sínu, líka á fullorðins árum. Þannig berst hinn félagslegi arfur frá kynslóð til kynslóðar.

En ef foreldrar þurfa að vera börnum sínum skjöldur og skjól og byggja þannig hjá þeim öryggiskennd og trú á lífið og tilveruna, hvar geta þá foreldrarnir sótt sitt skjól og sitt öryggi, jafnvel eftir að þeirra eigin foreldrar eru fallnir frá? Væntanlega í mannlegt samfélag sem einkennist af mannúð, réttlæti og nauðsynlegri hagsæld. En er það nóg? Hvað með andlega þáttinn? Hvar sækja foreldrarnir styrk í því mótlæti sem óhjákvæmilega verður á vegi þeirra? Á hverju byggja foreldrarnir það trúnaðartraust sem þau miðla áfram til barna sinna?

Hér kemur að þætti trúar, hvaða nöfnum sem hún kann að heita og hvaða form sem hún kann að taka. Hvort sem um er að ræða hefðbundin trúarbrögð, framfaratrú í krafti vísinda og tækni, trú á ákveðið þjóðskipulag, eða eitthvað annað. Reyndar hygg ég að enn kenni flestir íslenskir foreldrar börnum sínum bænir. Varla er tilviljun að í leit kristinna manna að öryggi ávarpa þeir guð sinn sem föður, samanber bænina “Faðir vor”. Ég hef það reyndar eftir fróðum manni að á móðurmáli Krists hafi orðið faðir verð samheiti yfir foreldra, svo við gætum kannski allt eins sagt “Foreldrar vorir..”
Ein stærsta stund lífs míns er þegar ég varð sjálfur faðir. Þá var faðir minn löngu fallinn frá. Hann annaðist mig talsvert þegar ég var lítill og mín fyrsta minning er um að hann var að hugga mig, en ég altekinn að yfirþyrmandi kláða vegna exems. Þegar ég fór svo að annast eigin börn skynjaði ég návist hans oft á tíðum mjög sterkt og þá urðu eftirfarandi hendingar til:

Þó að þú sért farinn
og líkaminn grafinn
ertu samt hjá mér
þegar ég geri
það sem ég lærði af þér.
Þegar ég nýt fegurðar náttúrunnar,
hlúi að jurt eða dýri
og þegar ég bý
börnin mín í svefninn
eins og þú gerðir við mig.
Þá ertu hér
í mér…
Fram í fingurgóma
Finn ég anda þinn enduróma.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3472.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar