Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Árni Svanur Daníelsson

Kreppufrí

„Kannski maður ætti að útbúa kreppulaust rými heima,“ hrökk upp úr viðmælanda mínum í spjalli á netinu um daginn. Hún hélt áfram: „Nafna mín nefndi þetta og hafði eftir vinkonu sinni sem tók frá pláss á heimilinu þar sem bannað er að lesa blöðin, bannað að hlusta og horfa á fréttir. Bannað að tala um kreppuna.“

Engin dagblöð. Engar útvarpsfréttir. Engar sjónvarpsfréttir. Og ekkert krepputal.

Okkur er það líklega öllum ljóst að það eru ekki rétt viðbrögð við núverandi þjóðfélagsástandi að loka eyrum og augum. Hunsa fréttir og hunsa umræðuna. Við þurfum að bregðast við, huga að fjármálum, gera áætlanir um framtíðina, endurskoða ýmislegt, mótmæla, láta í okkur heyra.

En kannski þurfum við ekki að hlusta og horfa á alla fréttatímana, lesa öll blöðin, fylgjast með á vísi.is og mbl.is á klukkutíma fresti. Það gæti jafnvel verið gott að taka sér smá frí – daglega eða í það minnsta vikulega – og hugsa um eitthvað allt annað.

Kannski er þetta ekki bara gagnlegt heldur nauðsynlegt.

Hvernig gæti svona athvarf litið út?

Við getum til dæmis ákveðið að þegar fjölskyldan sest niður við eldhúsborðið til kvöldverðar (og við svona aðstæður eru svo sannarlega mikilvægt að taka þann tíma frá) verði slökkt á útvarpi og sjónvarpi. Við getum ákveðið að hefja máltíðina með stuttri borðbæn og að umræðuefnið verði eitthvað annað en kreppan og ástandið. Það má skipta um gír eftir matinn, en taka þennan tíma og þetta rými frá.

Það sama getum við gert við annan tíma fjölskyldunnar. Tekið frá, helgað, lagað að þörfum fjölskyldumeðlima.

Við getum líka ákveðið að taka tíma í vikunni og fara í kirkju til að gera hið sama. Sótt árdegismessur á miðvikudögum í Hallgrímskirkju, Taizé-messur eða kvöldkirkjuna á fimmtudögum í Háteigskirkju og Dómkirkjunni, fyrirbænamessur eða hádegisbænir sem eru í kirkjum víða um land. Ákveðið að líta við í einhverri af kirkjum landsins sem eru opnar alla daga.

Það er gott að sitja í kirkjunni um stund, kyrra huga og sál, gera bæn sína.

Slíkar stundir – slíkt athvarf – geta gefið okkur kraft til að mæta nýjum degi og erfiðum aðstæðum, þær geta stuðlað að bættum samskiptum og gefið nýja framtíðarvon.

Nú er krepputíð. En nú er líka tíð til að huga að sér og sínum nánustu og að þessum grunnþörfum.

Gleymum því ekki og gleymum ekki hvert öðru í þessum ólgusjó.

Tökum okkur reglulega kreppufrí á aðventunni.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Kreppufrí”

 1. Axel Árnason skrifar:

  Svo virðist sem aðeins erlendir fjölmiðlar lýsi almennilega það sem gerist á Íslandi. Hvorki Mbl. né RÚV lýsa því sem finna má um ástandið á Íslandi. Það eru því ekki aðeins bankarnir og
  ríkisstjórnin sem vinna gegn þjóðinni heldur einnig fjölmiðlarnir sem reyna að gera lítið úr ástandinu. Þjóðin verður að taka höndum saman og senda þá alla í endurhæfingu og endurheimta peningana sem þeir hafa stolið og komið fyrir erlendis. Það þarf að tryggja virkt lýðræðislegt eftirlit með öllum helstu stofnunum samfélagsins: Bankarnir, fjölmiðlar, réttarkerfið, stjórnsýslan. Við getum ekki farið í frí frá kreppu.

 2. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Þakka þér fyrir innleggið Axel.

  Markmið mitt er að minna á mikilvægi þess að týna sér ekki algjörlega í umhugsun um þetta ástand og í áhyggjum sem spretta upp úr því. Að láta hverjum degi nægja sína þjáningu.

  Eins og kemur skýrt fram hér að ofan vil ég ekki gera lítið úr alvarleika ástandsins og því síður er það tilgangurinn að hvetja fólk til að hugsa ekki um sitt. Við þurfum að bregðast við, huga að fjármálum, gera áætlanir um framtíðina, endurskoða ýmislegt, mótmæla, láta í okkur heyra … Berjast fyrir réttlætinu.

  En ég held líka að við megum ekki gleyma ekki hinni andlegu næringu og að það sé full ástæða til að standa vörð um góðar samverustundir með okkar nánustu.

  Á það vildi ég minna.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4135.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar