Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigrún Óskarsdóttir

Jólagleði og jólasorg

Aðventan er gengin í garð með tilheyrandi auglýsingum og hvatningu um að fara af stað, hlaupa og kaupa. Þó er eitthvað öðruvísi en í fyrra. Við finnum það öll, komumst ekki hjá því að sjá og finna að hér hefur orðið breyting. Þeir erfiðleikar í efnahagslífinu sem skullu af þunga á þjóðinni okkar í haust hafa með einhverjum hætti áhrif á okkur öll. Það er allt svolítið lágstemmdara. Fólk hefur minna á milli handanna, hópur fólks hefur nú þegar misst vinnuna og enn fleiri munu því miður fylgja samkvæmt spám um nánustu framtíð.

Okkur er brugðið, sem þjóð, sem fjölskyldum og sem einstaklingum. Það er sárt að heyra um heilu fjölskyldurnar sem eru að fara illa útúr atvinnuleysinu, fyrirvinnur heimilanna, fullfrískt fólk bíður milli vonar og ótta, eldra fólk sem er að missa sparnaðinn sinn. Kvíði og óróleiki eru óhjákvæmilegir fylgifiskar þessa ástands. En þátt fyrir kreppu, reiði og ólgu í samfélaginu minnir umhverfið okkur á hátíðina sem framundan er, hátíðina sem löngum hefur verið tengd við ljós og frið. Líklega finnum við sterkar en ella hvað við þurfum á slíkri hátíð að halda.

Umgjörð aðventu og jóla er gleði, fegurð og friður. Hvernig mætum við þessum tíma þegar okkar raunveruleiki er sorg, söknuður og kvíði?

Lífið er fallegt, lífið er erfitt, lífið er á stundum svo óendanlega sársaukafullt. Það að elska, þykja vænt um einhvern er ávísun á sorg þegar viðkomandi er ekki lengur til staðar. Líf án sorgar þýðir líf þar sem enginn hefur markað varanleg spor. En ef við höfum elskað, þótt undurvænt um einhvern þýðir sorgin missir og söknuð. Tíminn læknar ekki sár en getur hjálpað okkur að lifa með missinum. Missir og sorg verða oft enn sárari á aðventu og jólum, þessum tíma sem oft nýtist til þess að styrkja fjölskylduböndin og rifja upp hefðirnar. Jólin snerta við okkur, hugurinn reikar til baka og leitar uppi bæði erfiða og gleðiríka tíma. Það er sárt, óendanlega sárt að hafa autt sæti við jólaborðið.

Ef þú ert í sorg, finnur þig í dimmum dal er eðlilegt að tíminn framundan kalli fram kvíða og depurð. Það er mikilvægt að setja orð á þá líðan. Finndu einhvern sem þú treystir, fjölskyldumeðlim, vin, vinnufélaga eða nýttu þér þjónustu djáknans þíns eða prestsins, heimilislæknis eða sálfræðings. Tjáðu þig um líðan þína og upplifun.

Samvera um aðventu og jól í skugga áfalla og missis er í Árbæjarkirkju þriðjudaginn 2. desember kl. 20. Þú ert velkomin.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4364.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar