Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Karl Sigurbjörnsson

Heilög Lúsía

Heilög Lúsía bjó í Sýrakúsu á Sikiley og dó þar píslarvættisdauða árið 304, í ofsóknum Diókletianusar keisara gegn kristnum mönnum. Sem unglingur hafði hún afráðið að helga líf sitt Jesú Kristi einum. Þess vegna hafnaði hún bónorði manns sem í hefndarskyni kærði hana fyrir að vera kristin. Keisarinn dæmdi hana til lífstíðardvalar í hóruhúsi. Á undursamlegan hátt bjargaðist hún úr þeim stað. Síðar var hún dæmd til dauða á báli, en hún bjargaðist einnig úr þeirri kvöl, en var þá stungin til bana með sverði.

Sögurnar um heilaga Lúsíu eru þekktar allt frá 5. öld og hún var í miklum metum í kirkjunni. Til marks um það þá er hún ein fárra kvenna sem nefndar eru í dýrlingatali kirkjunnar þegar á 7. öld. Messudagur hennar er 13. desember – á myrkasta tíma ársins. Dagurinn er haldinn sem ljósahátíð, sérstaklega í Svíþjóð og í seinni tíð víðar á Norðurlöndum. Tengingin við ljósið er vegna nafns hennar sem dregið er af latneska orðinu Lux, sem merkir ljós.

Samkvæmt hefðinni gengur Lúsía fremst, klædd hvítum kyrtli og ber krans með logandi kertum á höfði. Það er meyjarkransinn, sem minnir á að heilög Lúsía gaf líf sitt Guði sem brúður Krists. Hún vildi frekar deyja en að rjúfa það heit. Í Svíþjóð er það siður að á morgni Lúsíudagsins kemur ung stúlka klædd sem Lúsía með ljósakransinn á höfði og færir heimilisfólkinu morgunverð. Byggir það á helgisögn um að heilög Lúsía hafi borið mat til kristins fólks sem faldi sig í katakombunum fyrir ofsækjendum keisarans. „Santa Lucia“ er söngur sem Svíar syngja henni til heiðurs við sikileyskt þjóðlag, eins baka þeir sérstakt Lúsíubrauð með saffrani, sem þykir ómissandi á þessum degi.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4098.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar