Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Bjarni Karlsson

Biskupinn og allt hans hyski

Það er merkileg upplifun að tilheyra stétt sem nefnd er hyski í leiðara dagblaðs eins og raun varð á í Fréttablaðinu í gær. Í framhaldi af þeirri nafnbót langar okkur að koma að nokkrum orðum.

Nú gerist það að allar stofnanir og kerfi samfélags okkar standa undir gagnrýnu ljósi. Íslenskt þjóðfélag er að ganga í gegnum óhjákvæmilega sjálfsskoðun þar sem snúa þarf við öllum steinum í fjöru menningar okkar, endurmeta gildi og samhæfa göngulag þjóðarinnar upp á nýtt. Í því ferli gildir það jafnt um Þjóðkirkjuna sem aðrar grunnstoðir samfélags okkar að meta þarf stöðu hennar og hlutverk.

Ríkið er samstarfsvettvangur almennings þar sem vaka skal yfir almannaheill. Þegar veraldlegt samfélag og yfirvöld taka afstöðu til trúfélaga og þess rýmis sem þau skulu hafa á almannavettvangi á fyrst og síðast að spyrja að einu. Spyrja skal hvort viðkomandi trúfélög efli félagsauð. Félagsauður er mælanleg gæði. Hann varðar trúnaðinn í samskiptum fólks og þær væntingar sem við berum hvert til annars. Þegar menn telja sig hafa ástæðu til að treysta náunga sínum og finnst að óhætt sé að reiða sig á kerfi og stofnanir samfélags síns þá heitir það félagsauður. Hið veraldlega hlutverk allra trúarbragða er að auka félagsauð og ríkið verður að gera þá kröfu til skráðra trúfélaga að starf þeirra leggist á árar í þágu almannaheilla.

Kristin kirkja er ekki til sjálfrar sín vegna. Hún lifir og starfar í þágu þess samfélags sem hún þjónar. Samfélagið á allan rétt að vísa kirkjunni út, kjósi það að gera það. Kirkja Jesú frá Nasaret áskilur sér engan rétt en bendir í sífellu á þann rétt sem allir menn eiga. Á tungutaki Biblíunnar heitir sá réttur Guðsbarnaréttur en í daglegu tali notum við hugtakið mannréttindi til að lýsa sömu vitneskju.

Við megum ekki gleyma því að gera vissan greinarmun þegar við tölum um kirkju Krists í einu orðinu og Þjóðkirkju Íslands í hinu. Þjóðkirkjan er, eins og allar kirkjudeildir, mannleg stofnun sem sett er til að þjóna kristninni, þjóna kirkju Jesú. Þjóðkirkjan þarf aðhald frá samfélaginu og samfélagið þarf líka aðhald frá Þjóðkirkjunni, svo framarlega sem Þjóðkirkjan stendur sig í stykkinu. Á hverjum tíma verður samfélagið að dæma um kirkjuna, hvort hún sé til gagns eða ekki. Gagnvart kirkjunni á hið veraldlega samfélag allan rétt og kirkjan gæti ekki sótt rétt sinn af hörku, jafnvel þótt hún ætti hann að lögum. Kirkja sem lögsækti samfélag sitt væri eins og foreldri sem lögsækir börn sín. Samt stendur kirkjan ekki undir dómi manna og sækir ekki tilverurétt sinn til veraldarinnar. Hún trúir því að hún sé sett af Guði, send af Guði. Þessi trú er líka tilfinning. Rétt eins og foreldrar trúa og finna að þeir eru handa börnum sínum en börnin eru ekki handa þeim. Þess vegna syngjum við sálma í kirkjunni sem segja m.a.: „Kirkjan er oss kristnum móðir…“ Þessi vitund er hluti af sjálfsvitund kirkjunnar á öllum öldum.

Það má og það verður að gagnrýna Þjóðkirkjuna. Enginn einn getur talað fyrir hennar hönd. Þjóðkirkjan er samfélag hún er samvitund. Hún er eins og aldrað foreldri sem veit að það getur ekki og má ekki segja fullveðja börnum sínum fyrir verkum. Þegar þau velja að koma til hennar þá gera þau það á forsendum barnaréttarins, mannréttindanna. Við (eldhús)borð Kirkjunnar eigum við öll sama rétt og þar kemur enginn til að kenna öðrum. Kirkjan vill ekki og má ekki hafa völd, hún kann bara að biðja og blessa, óska góðs og vona hið besta. Hvert orð sem fellur inni í helgidóminum, hvort sem þar tala opinberir kennimenn eða aðrir, verður að vega og meta. Gagnrýna. Enginn á síðasta orðið í kirkjunni, enginn nema Jesús Kristur. Þetta er m.a. það sem átt er við þegar sagt er: „Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju,…“ Hagsmunir kristinnar kirkju á hverjum tíma eru þeir einir að fá að vera til staðar fyrir fólk. Form þeirrar nærveru er í sjálfu sér aukaatriði. Þjóðkirkjufyrirkomulagið hefur lengi reynst vel og átt drjúgan þátt í því að viðhalda félagsauði í landi okkar. En það er ekki gallalaust. Það felur m.a. í sér þá hættu að starf kirkjunnar birtist fólki í mynd einhverskonar forræðishyggju eða þröngvunar. Kostirnir liggja í því að jöfnuður og samhljómur skapast í þeirri mikilvægu þjónustu sem trúarstofnunin veitir og allur almenningur finnur sig heima í öruggu og sanngjörnu andrúmslofti… ef Þjóðkirkjan stendur sig í stykkinu.

Við þurfum öll að standa okkur í stykkinu hvort sem það eru trúfélög, menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir, fiskvinnslufyrirtæki, löggæslan, Veðurstofan, fjölmiðlar eða hverjar aðrar stofnanir samfélagsins sem njóta krafta okkar. Okkur ber öllum að vanda okkur. Sem einstaklingar og sem fagmenn berum við sameiginlega ábyrgð á félagsauði þjóðarinnar og megum ekki falla í þá gryfju að brjóta hann niður í átökum og stælum. Leiðarar dagblaðanna gegna mikilvægu hlutverki í því að vera öruggur og sanngjarn vettvangur þar sem trúnaði er ekki brugðið við almenning heldur vandlega gætt að rökum í hverju máli og almenn kurteisi viðhöfð.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Biskupinn og allt hans hyski”

 1. Torfi Stefánsson skrifar:

  Sæl veri þið hjónin.
  Það er gott að sjá að þið fyllið ekki þann hópinn sem hneykslast á Páli Baldvini loksins þegar hann þorir að munda pennann og skrifa gagnrýnar greinar.
  Annars má benda á það að orðið hyski þarf alls ekki að hafa neikvæða vísun. Hyski þýðir upphaflega (og einfaldlega) sambýlisfólk eða hjú, svo segja má með réttu að prestarnir séu hyski biskupsins.
  Hins vegar get ég ekki orða bundist vegna þagnar íslensku þjóðkirkjunnar varðandi fjöldamorð Ísraela á Palestínumönnum á Gaza.
  Öðru vísi fer Norska kirkjan að. Nú í kvöld (8. janúar) stendur til mikill mótmælafundur í Tromsö í Norður-Noregi þar sem hjálparstarf Norsku kirkjunnar stendur að ásamt Miðbæjarstarfi kirkjunnar og fleiri kirkjulegum aðilum. Þar er prófasturinn í Tromsö einn af aðalræðumönnum.

  Hér heima heyrist hins vegar ekki múkk frá íslensku kirkjunni og svo sem ekki heldur frá öðrum stofnunum og félagasamtökum sem ættu eðli síns vega að bregðast við svo stórfelldum mannréttindabrotum sem þeim sem þar fara fram.

  Er ekki kominn tími til að kirkjan fari að vera það sem henni er ætlað að vera; málsvari þess veika og ofsótta, og láta heyra í sér svo um munar?

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4034.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar