Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldór Gunnarsson

Verum bjartsýn

Það er kvöld í margvíslegum skilningi. Sólin er að setjast í austri í fjarlægð og fegurð. Rauðglóandi litur, flæðir um himinhvolfið og tengist hinum bláa lit fjarlægðarinnar, sem nær til jarðarinnar og umhverfisins, til augnanna og þaðan inn til sálarinnar og hugsunarinnar. Og síðan hvað?

Gleði, fyrir að hafa þegið daginn, tekið á móti fegurð, fengið að njóta fjölskyldu og vina og þess að eiga heima á Íslandi, með hreinleika sínum, rennandi vatni, gróðurmold, góðum veðurskilyrðum og fegurð.

Þetta er tilfinning hugsunar og móttöku í andartaki stundarinnar, en það er meira en það. Hverju skilaði dagurinn í starfi og reynslu, uppgjöri við fortíð og skipulagningu gagnvart framtíð, ásamt því að lifa stundina sem er að líða hjá?

Gagnvart þessari hugsun, virðist allt svo óskiljanlegt í heimi rökfræði og stærðfræði. Lífeðlisfræði gæti ef til vill komið til hjálpar, sem segir að maðurinn sé skapaður í líkama, sem sé samansettur af örsmáum frumum, sem raði sér í hópa og myndi mismunandi vefi. Allar þessar frumur séu eins byggðar upp með hnattlaga kjarna, fryminu í kring og frumuhýði. Í fryminu snúist örsmáar eindir í kring um kjarnann, nákvæmlega eins og jörðin kring um sólina, í sömu stærðarhlutföllum og með sama hraða miðað við stærð. Meira að segja allt efni sem auga okkar greinir og höndin getur þreifað á, býr yfir sama sköpunarlögmáli einda í frymi sem snúast utan um kjarnann, þannig að allt efni sem við greinum sé þannig á hreyfingu.

En hver er þá munurinn milli hreyfingar eindanna, jarðarinnar, sólarinnar og okkar? Er það ekki sú hreyfing, sem við ákveðum með hugsun okkar, hreyfingu líkamans og orðum. Og nákvæmlega þarna eru hin miklu skil milli hins ósýnilega og sýnilega, hins eilífa og áþreifanlega, sem við getum ekki nálgast frekar, því það er okkur óskiljanlegt eins og trúarvissan um sköpun Guðs og handleiðslu og framhald lífs okkar að þessari jarðvist lokinni.

Hugsunin, sem líkist rafmagninu og er óskiljanlegur kraftur, er allt í senn, sköpun, tenging og móttaka við lífið. Svo stórfenglegt í nálægð okkar og jafnframt einnig óskiljanlegt í fjarlægð sólar og stjarna, sem vitna um önnur sólkerfi og víddir án enda.

Hvað erum við menn frammi fyrir þessu óskiljanlega í sköpun Guðs með frjálsan vilja hugsunar til að framkvæma?

Við erum stödd frammi fyrir nýjum degi í sögu okkar og þjóðarinnar. Að takast á við ný viðfangsefni með jákvæðu hugarfari, staðráðin í að leita nýrra tækifæra og umfram allt að verja sjálfstæði okkar sjálfra og landsins okkar. Leita jafnvægis við umhverfi og samfélag, ásamt því að byggja okkur upp með jákvæðri hugsun gagnvart tækifærunum, sem Guð hefur gefið okkur í sköpun sinni.

Verum bjartsýn og styrkjum hugsun okkar á jákvæðan hátt með bæn til Drottins Guðs, sem bænheyrir og leiðir. Með því eignumst við morgunn nýs dags.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2939.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar