Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Ragnheiður Karítas Pétursdóttir

Í sorgarferli ofbeldis

… Ég finn einungis hryllinginn og óttann. Eitthvað hefur gripið inn í örlög mín, eitthvað sem drepur mig. Ég er hrædd, ég finn ekki fyrir neinu öðru. … allt er eins og í fjarlægð, eins og ég horfi á særðan líkama minn úr fjarlægð, … Guð minn góður! Hvert get ég farið? Hvað get ég gert?

Þetta segir Elena Stoyanova í bók sinni Dagbók óttans (2002) Orð Elenu eru sem töluð út úr hjörtum þeirra fjölmörgu kvenna sem búa við heimilisofbeldi, skelfing, doði, ráðleysi og ákall um hjálp. Ljóst er að ofbeldi getur ógnað lífi fórnarlambsins og ein árás getur skilið á milli lífs og dauða.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur valið 25. nóvember sem baráttudag gegn kynbundnu ofbeldi.

Konur sem búa við ofbeldi missa oft sjálfsmynd sína, hæfileikann til að treysta og sjálfstraustið. Þeim finnst veröldin ranglát og Guð jafnvel líka. Félagslega upplifa þær einangrun og hætt er við að þær missi mikilvægar hugsjónir og tilfinningar, svo sem trú, von, kærleika, og glati gildum eða verðmætum, svo sem sakleysi, góðvild, gleði, ást, tengslum, nánd og hreinleika.

Ef til vill er hið góða sem við öll berum innra með okkur minn eigin tilbúningur; ef til vill er ég bara kjáni; með slæma dómgreind sem ekki skilur neitt. Getur verið að hann hafi rétt fyrir sér og þekki mig betur? Guð minn góður, þú einn getur hjálpað mér!

Þetta ákall Elenu er lýsandi fyrir konu sem hefur orðið fyrir slíkum missi. Efinn sem býr í brjósti hennar og skert sjálfsmynd eru augljós.

Samkvæmt kristinni hugsun eru allir menn jafnir og bera jafna virðingu sem grundvölluð er á sköpun mannsins í Guðs mynd. Holdtekja Krists bendir til þess sama. Kross Krists bendir og til jafnræðis manna en þar er sami dómur boðaður öllum mönnum og sama náð.

Í leit að svari við þjáningum mannsins hefur verið bent til syndafallsins sem á sér rót í óhlýðni við boðorð Guðs og leiddi til ástands sem erfst hefur frá einni kynslóð til annarrar. Með dauða sínum friðþægði Kristur fyrir þær syndir mannsins en þó er þjáningin órjúfanlegur hluti mannlegs lífs. Kristin trú boðar þó ekki refsandi og dæmandi Guð sem leggur þjáningar á manninn heldur Guð sem maðurinn getur leitað til eftir styrk og huggun. Þannig er Guð þátttakandi í harmi mannsins en ekki hlutlaus.

Viktor Frankl (1984) segir að ef engin leið er til að komast hjá þjáningunni beri maðurinn þó ábyrgð á viðbrögðum sínum við henni. Í raun er það á valdi hvers og eins að ákvarða til hvers þjáningin leiðir og þannig á ábyrgð hvers manns að gefa lífi sínu merkingu. Mikilvægt er þó að hafa í huga að leit að tilgangi með þjáningunni á ekkert skylt við sjálfspyntingu heldur er um að ræða viðbrögð við óhjákvæmilegum örlögum og sorg

Sorgin er tilfinning sem maðurinn finnur fyrir þegar eitthvað mikilvægt hverfur úr lífi hans. Hún er viðbrögð við missi sem þegar hefur orðið eða missi sem vofir yfir.

Fórnarlömb ofbeldis upplifa margs konar missi, missi vona og drauma, andlegrar og líkamlegrar heilsu og velferðar. Þau missa sjálfsvirðingu og hugarró.

Oft verður hjálparleysi fórnarlamba ofbeldis algjört, sjálfsvirðingin hverfur, ótti umlykur allt, sektarkennd og skömm verða alltumlykjandi.

Þau upplifa allar þær tilfinningar sem fylgja missi: ótta, sorg, reiði, örvæntingu, gremju, höfnun, uppgjöf, fyrirstöðu, meðaumkun, þrá, sigurvissu og hjálparleysi. Algengasta tilfinningin er óttinn.

Það er óhætt að segja að fórnarlömb ofbeldis fari í gegnum hefðbundin stig sorgarferils. Stig sorgarferilsins vara mismunandi lengi og eru sveiflukennd birtingarmynd tilfinninga sem stöðugt koma og fara. Fórnarlömbin sveiflast á milli samþykkis og afneitunar, skilnings og vantrúar. Þegar sá sem þjáningunni veldur er sá hinn sami og stendur fórnarlömbunum næst tilfinningalega eykst þjáning þeirra.

Ef maðurinn verður fyrir sorg af völdum sjúkdóma eða dauða er sorg hans almennt viðurkennd af samfélaginu og honum gefið rými til að syrgja. Hann nýtur stuðnings vina og vandamanna og samhygðar samfélagsins.

Þannig er því ekki farið með fórnarlömb ofbeldis. Þegar konur yfirgefa ofbeldissambönd eru skilaboðin gjarnan þau að ekki sé þörf á því að syrgja. Fórnarlömbin sjálf líta jafnvel svo á að þau hafi ekki rétt til að syrgja. Þannig fara þau á mis við huggun og samhygð og þar sem tilfinningar eru ekki viðurkenndar er hætt við að sorg þeirra lendi í sjálfheldu.

Til þess að sorg fórnarlamba ofbeldis lendi ekki í sjálfheldu er mikilvægt að þau viðurkenni raunveruleikann, afneiti ekki missi sínum og þeirri þýðingu sem hann hefur. Mikilvægt er að ekki sé gert lítið úr missinum og minningum, góðum sem slæmum jafnvel afneitað.

Styrkur kristinnar sálgæslu liggur einmitt í að mæta manneskjunni þar sem hún er stödd, með virðingu fyrir henni og reynslu hennar. Veita samfylgd og hlustun í Krists stað. Í þeim aðstæðum eru hvorki fórnarlömb né gerendur fordæmd. Bæði eru sköpuð í mynd Guðs, þó ofbeldishegðunina sem slíka sé ekki hægt að viðurkenna því að hver maður ber ávallt ábyrgð á hegðun sinni.

Í Ritningunni eru fjölmargar myndir sem sýna að Guð ætlar engum að búa við kúgun og þjáningu, myndir af frelsaranum sem tók á sig þjáningar mannkyns og dvelur með hinum þjáðu í þjáningunni. Myndin af Job, sem reis upp og andmælti þjáningum sínum, talar til að mynda inn í aðstæður ofbeldis og kúgunar. Loks er það hlutverk hins líðandi þjóns Drottins að styrkja hina mæddu (Jes 50:4) og felur það í sér huggun og boð um réttlæti.

Biblíulegar myndir af boðandi kirkju sem miðpunkti lækningar, frelsunar, vaxtar og kraftar styrkir einnig kristna sálgæslu, myndir af samfélagi sem er umhyggjusamt og sameinað í sáttmála við Guð, samfélagi sem er læknandi með það að markmiði að hlúa að kærleikanum til Guðs og náungans.

Um höfundinn3 viðbrögð við “Í sorgarferli ofbeldis”

 1. Helga Björk Magn. Grétudóttir skrifar:

  Ragnheiður Karítas!

  Þetta er athyglisverð bók. Hjartanlega til hamingju með hana.

  Ég hef mikla trú á bæn og sálgæslu til uppbyggingar fólks, í kjölfar ýmis konar ofbeldis.

  Hvernig sérðu Þjóðkirkjuna koma á móts við þolendur ofbeldis?

  Með bestu kveðjum,

  Helga Björk

 2. Helga Björk Magn. Grétudóttir skrifar:

  Ragnheiður Karítas!

  Þetta er athyglisverð bók. Hjartanlega til hamingju með hana.

  Ég hef mikla trú á bæn og sálgæslu til uppbyggingar fólks, í kjölfar ýmis konar ofbeldis.

  Hvernig sérðu Þjóðkirkjuna koma á móts við þolendur ofbeldis?

  Með bestu kveðjum,

  Helga Björk

 3. Irma Sjöfn Óskarsdóttir skrifar:

  Takk fyrir frábæran pistil!. Þetta með sorgarferlið er svo nauðsynlegt að minna á sbr.
  ” Þegar konur yfirgefa ofbeldissambönd eru skilaboðin gjarnan þau að ekki sé þörf á því að syrgja.”. Sannarlega þarfur pistill, skilmerkilegur og góður

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4093.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar