Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Þorgrímur Daníelsson

Dauðasyndirnar sjö (fimm?)

Einn helsti kostur þess að vera prestur eru sóknarbörnin sem vita að það er hægt að tala við prestinn.

Fyrir nokkru vék sér að mér sóknarbarn og spurði: “Hverjar eru dauðasyndirnar sjö?” Sóknarbarnið virtist í nokkru uppnámi og stafaði a.m.k. alls ekki frá sér þeirri hljóðlátu, djúpu, grundvallargleði, sem er aðalsmerki kristinns manns og hver sóknarprestur leitast við að glæða í brjóstum sóknarbarna sinna. Mér datt helst í hug að sálarró sóknarbarnsins hefði beðið skaða af efnahagslægðinni.

Annars kom spurningin flatt upp á mig. Sjálfur hef ég ekki haft mikinn áhuga á syndafræðum. Ég varð að viðurkenna að ég gæti ekki talið þessar syndir upp. Minnti þó að græðgi og reyði væu þarna á meðal, gott ef ekki hroki og öfund líka.

Sóknarbarnið spurði hvort kirkjan seldi ekki fyrirgefningu – og hvað slíkt kostaði. Ég svaraði sem satt er að það hefði nú einmitt verið upphafið að baráttu Lúthers gamla að fyrirgefningu væri ekki hægt að kaupa fyrir peninga. Fyrirgefningin kostaði eiginlega alltaf það sama: - Nefnilega iðrun – snúa frá villu síns vegar sem leiddi til yfirbótar – sem sé að reyna að bæta fyrir brot sitt. Þetta þótti sóknarbarninu athyglisverð kenning.

Annars lofaði ég að fara heim og lesa mig svolíðið til um þetta. Sóknarbarnið lét gott heita, enda umburðarlynt og ræddi við mig efnahagsmál drjúggóða stund, en á þessum málum hafði sóknarbarnið sterkar skoðanir sem virtust einhvernvegin tengja dauðasyndirnar við efnahagsástandið – eða öfugt.

Ég las mig svo til um dauðasyndirnar sjö. Þær eru hvergi beinlínis taldar upp í biblíunni, en byggja á gamalli kirkjuhefð. Lútheranar (sem vildu einungis byggja á biblíunni) hafa ekki gert mikið með þær, en Rómvesk-Kaþólskir heldur meira. Þeir skipta syndum í tvo flokka, (i) minniháttar syndir og (ii) dauðasyndir eða höfuðsyndir, sem eyðileggja og bregnla sálarlífið með svo alvarlegum hætti að þær læknast einungis með sakramennti skriftanna og sannri iðrun og yfirbót syndarans. Andstæð hverri höfuðsynd er höfuðdyggð, sem menn ættu (eftir kenningu Kaþólskra) að temja sér.

Dauðasyndirnar sjö ásamt andstæðum höfuðdyggðum eru:
1. Losti – Hreinlífi
2. Matgræðgi – Hófsemi
3. Græðgi – Gjafmildi
4. Leti – Árvekni
5. Reiði – Þolinmæði
6. Öfund – Náungakærleikur
7. Dramb – Hógværð.

Ég hygg að flestir Lútheranar gætu verið sammála Kaþólskum varðandi syndir 3-7. Græðgi, leti, reyði, öfund og dramb geta eyðileagt og brenglað sálarlífið á mjög alvarlegan hátt. Ég hygg hins vegar að Lúther sjálfur hafi haft verulegar efasemdir varðandi bæði losta og matgræðgi. Má í því sambandi benda á vísu hans, sem hljóðar svo í þýðingu Páls Vídalín ef ég man rétt:

Sá sem aldrei elskar vín
óð né dýran svanna
verður alla ævi sín
andstyggð góðra manna.

Rétt er þó að geta þess að frumtextinn gengur ekki svo langt að segja “andstyggð góðra manna” heldur notar Lúther orðið narr sem mun einfaldlega þýða fífl.

Ég tók saman stuttan pistil um dauðasyndirnar sjö, (þar sem m.a. kom fram að ég teldi þær eiginlega ekki nema fimm) og afhenti sóknarbarninu við fyrsta tækifæri. Sóknarbarnið las pistilinn vandlega, leit svo á mig: “Mjög athyglisvert” sagði sóknarbarnið.

Um höfundinn4 viðbrögð við “Dauðasyndirnar sjö (fimm?)”

 1. Stefnir Páll Sigurðsson skrifar:

  Sæll Þorgrímur. þetta er skemmtileg og atyglisleg
  grein.
  Takk fyrir Stefnir Páll Sigurðsson

 2. Adda Steina skrifar:

  Ég gærkvöldi sá ég leiksýninguna um Dauðasyndirnar sjö í Borgarleikhúsinu og á eftir ræddum við við leikara/höfunda sýningarinnar. Hún er stórkostleg sýning, bæði mjög fyndin en líka djúp og tengir syndirnar við það í okkur öllum sem við ættum að varast, líka synd 1 og 2. Mæli eindregið með henni.

 3. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Ég tek undir þetta, magnað leikrit!

  Takk fyrir pistilinn Þorgrímur.

 4. Guðbjörg Jóhannesdóttir skrifar:

  Takk fyrir pistilinn, viðeigandi efni ; )
  Mæli með : Syndirnar sjö, e. Jakko Heinimaki sem Bjartur gaf út fyrir nokkrum árum sem innlegg í þessar spekúlasjónir.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 11405.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar