Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldór Gunnarsson

„Verið ekki áhyggjufull …“

Aldrei í sögu okkar lýðveldis hefur orðið eins snögg breyting á efnahag og atvinnuhorfum eins og við stöndum frammi fyrir í dag. Það reynir á allar stoðir samfélags okkar, raunverulegt sjálfstæði þjóðarinnar, alla atvinnuvegi, fyrirtækin og heimilin.

Þegar einstaklingur mætir skyndilegu áfalli, alvarlegum veikindum, slysi, tjóni eða efnahagsskaða, þá kemur doði og uppgjöf fyrst, síðan ásökunin og reiðin út í aðra, jafnvel út í Guð eða afneitun um að hann sé til og síðast í áfallinu samviskubitið: Hvers vegna hafði ég ekki undirbúið mig betur eða gert eitthvað öðruvísi?

Við þessar aðstæður eiga orð Drottins Jesú Krists að ná til okkar í Fjallræðunni: Verið ekki áhyggjufull um líf ykkar,.. er ekki lífið meira en fæðan og líkaminn meira en klæðnaðurinn? Við erum spurð um tilgang lífsins, skólans sem við erum í, undirbúningssins og prófsins sem við verðum að mæta í, oft án viðvörunar. Mikilvægasta spurning prófsins er: Hvað er líf þitt með andardrætti, hjartslætti, hugsun og tilfinningum? Ef við skilgreinum þessa spurningu þá stöndum við frammi fyrir spurningunni um trú okkar. Er líf okkar tilviljun og án tilgangs eða er líf okkar í almáttugri hendi Guðs, sem við eigum að geta skilið með fæðingu Jesú Krists, lífi hans, boðskap, kraftaverkum og sigri á þjáningu?

Hvernig nær boðskapur hans til okkar í dag um að við eigum ekki að vera áhyggjufull um morgundaginn, því að morgundagurinn muni hafa sínar áhyggjur og hverjum degi nægi sín þjáning? Við hvert um sig tengjumst fæðingu Jesú Krists í kraftaverki Guðs sköpunar og lifum með því verðmæti, sem aldrei verður metið í peningum, sjóðum eða hlutabréfum, sem eru tilfinningar okkar, væntumþykja og umhyggja, ást, virðing og kærleikur. Þegar hlutabréf falla, sjóður hverfur og vextir ásamt verðfalli krónunnar gleypa áþreifanlegar eignir eða við mætum annars konar missi, þá erum við neydd til að ganga í gegnum áfallið og reyna að standast prófið, byrja upp á nýtt og eignast nýjan dag með fjölskyldu sinni, ættingjum og vinum.

Þá koma þau til okkar þessi ósýnilegu verðmæti að geta hjálpað eða þegið hjálp, að sýna vináttu, skilning og samúð eða geta tekið á móti þessu vinarþeli og hvort sem við erum aflögufær eða þiggjum, þá streyma til okkar tilfinningar, sem breyta deginum og gefa okkur nýtt gildismat gagnvart því verðmæta í lífi okkar. Og hvað er þá verðmætast af öllu? Fjölskyldan og heimilið. Að við myndum þar samkennd, þar sem sé talað saman og hlegið, skipulögð sé samvera og horft til þess sem næst er, þannig að hver dagur sé þakkaður gagnvart þeim degi sem við eigum hverju sinni.

Að hafa ekki áhyggjur gagnvart því sem kemur í framtíðinni, því það getur svo margt breyst og sagan segir okkur að erfiðleikar hafa svo oft leitt til góðs, þroskað og gefið ný tækifæri. Og alls ekki að hugsa til fortíðar. Þar verður engu breytt. Látum hverjum degi nægja sína þjáningu, gleði eða von. Eiga trúna og bænina, eiga annan að, sýna fórnfýsi, lifa í samfélagi og finna bænheyrslu.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2634.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar