Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Ása Björk Ólafsdóttir

Með jákvæðu gleraugunum

Hver er grunnurinn að hamingjunni?

Það dynur mikinn á fámennri þjóð í Norður Atlantshafi þessa dagana. Á sama tíma og hver fréttaþátturinn eftir annan setur fram fréttir af morðum, fjármálaerfiðleikum banka og annarra stofnana ásamt hverjum þeim skelfingum sem á dynja í samfélaginu og öllum hinum byggða heimi, situr prestur í Vesturbænum og tekur ákvörðun um að hagræða jákvæðu gleraugunum betur á nefinu.

Ég ber ákveðna ábyrgð gagnvart samfélaginu og ekki síst börnum þessa lands. Ég get ekki horft á það aðgerðarlaus að börn beri þungar byrðar hinna fullorðnu í fjárhagsáhyggjum heimilanna. Okkur ber öllum að vernda börnin án þess að firra þau þeirri staðreynd að samfélagið er á vegi hraðra breytinga. Mín ábyrgð er sú að glæða von meðal fólks. Sú leið sem ég sé færa í því er að setja upp jákvæðu gleraugun og einmitt að hvetja til þess sem ég er sjálf alin upp við, að njóta þess smáa í lífinu.

Á þessum árstíma er upplagt að fara í haustlitaferð. Það þarf ekki að fara langt til að gleyma sér í haustlitunum og oft þarf ekki einu sinni að stíga upp í bíl. Úr mínu hverfi er tilvalið að ganga út í Hljómskálagarð eða jafnvel í Hólavallagarð, sem mörg okkar þekkja sem gamla kirkjugarðinn. Það eru tré við flestar götur sem farin eru að fella laufin í rólegheitunum. Þessi laufblöð er auðvelt að þurrka undir hlassi dagblaða eða bóka. Nánast hvar sem er á landinu, sjást nú í náttúrunni ummerki þess að senn kemur næturfrost eða er jafnvel þegar komið. Sumir runnar skarta öllum haustlitunum og það er einmitt svo dásamlegt hvað liturinn helst vel þegar við þurrkum blöðin. Það er merkilegt að allt það fegursta í lífinu skuli vera sköpun Guðs.

Svona laufblöð ásamt ýmsum öðrum gróðri, er auðvelt og ódýrt að vinna með eftir að búið er að þurrka þau. Það er hægt að líma þau á karton, eða jafnvel hylja þau bókaplasti. Þannig má gera merkispjöld eða jólakort komandi jóla. Það er auðvelt að skrifa á plastið með geisladiskapenna. Slíkt kort er bæði nothæft sem merkispjald og er einnig hið fegursta pakkaskraut. Helst vinnum við með hráefni sem til er í skúffum eða jafnvel kössum í geymslunni. Tilgangurinn er tvíþættur, því á sama tíma og við spörum, eigum við ómetanlega stund með börnunum okkar. Við eigum að vera stolt af því að endurvinna í stað þess að henda öllu jafnóðum og þurfa síðan að kaupa nýtt.

Fjölmiðlar eru stór áhrifavaldur í lífi okkar. Ég hef heyrt að sérfræðingar um streituvalda staðhæfi að fréttamiðlar valdi einna mestri streitu í daglegu lífi fólks. Ég ákvað að gera tilraun á sjálfri mér. Ég skoðaði öll íslensku dagblöðin með jákvæðu gleraugunum mínum. Og viti menn, það er alveg hellingur af jákvæðum og uppbyggilegum fréttum í blöðunum. Ég las frétt um ómetanlega reynslu Atla Þórs Fannarssonar þegar hann hlaut„nýsköpunarverðlaun” árið 1995, þá aðeins 12 ára gamall. Hann segir frá því góða undirbúningsnámi sem hann hlaut í því að„hugsa sjálfstætt”. Aha! Ég held að það sé grunnurinn að hamingjunni. Hugsum sjálfstætt og verum jákvæð einn dag í einu eins og Kristur kennir okkur. En umfram allt, kennum börnunum okkar það líka með því að vera góðar fyrirmyndir.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2499.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar