Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslur



Leita

Gunnar Kristjánsson

Kreppa á kínversku

Það eru tímamót þegar að sverfur í efnahagsmálum þjóðarinnar. Stjórnmálamenn bregða upp myndmáli stórviðris og stjórsjóa og engin furða að ástandið hafi skotið mörgum skelk í bringu að ekki sé dýpra í árinni tekið.

Efnahagskreppan veldur almennri óvissu í þjóðfélaginu. Óvissa, ótti og örvænting eru orð sem heyrast og lýsa ástandinu vel. Forsætisráðherra hefur hvatt þjóðina til að sýna stillingu og standa saman meðan stormurinn gengur yfir, þá muni vel fara. Ég tek undir orð hans og beini þeim til okkar allra á þessari stundu.

Þegar lengra er litið og horft fram á veginn verðum við öll að draga lærdóm af því sem orðið er, einnig kirkjan, og leggja grunn að nýrri framtíð. Í því efni eru mér í huga umræður á erlendri sjónvarpsstöð fyrir um það bil hálfum mánuði þegar einn sérfræðinganna, heimsþekktur hagfræðingur, sagði að orðið kreppa á kínversku væri nákvæmlega sama orðið og nýtt tækifæri. Og það er áreiðanlega rétt.

Kreppa skírskotar ekki aðeins til tímamóta og henni verður ekki aðeins lýst sem mótvindi. Hún felur einnig í sér tækifæri. Hún lokar dyrum en sagan sýnir að nýjar opnast. Hún knýr alla til að horfa til nýrra átta. Hún kallar fram sterkasta aflið innra með hverjum manni, vonina, og eflir hann til nýrra verka með nýju hugarfari og nýju hugrekki. Vonin bíður dýpst í huga mannsins eins og tígrisdýr tilbúið til að stökkva þegar stundin er komin.

Þegar ég var að blaða í gömlum ritgerðum og greinum eftir sjálfan mig af sérstöku tilefni fyrr í vikunni rakst ég á erindi sem ég flutti í útvarp í tilefni af prestastefnu fyrir nærri þremur áratugum, árið 1979. Erindið heitir “Í leit að nýjum lífsstíl”. Þar var bent á tilraunir kirkna heimsins og alþjóðlegra kirkjusamtaka til að vekja kirkjurnar um víða veröld, leika sem lærða, til umhugsunar um lífsstíl sem gæti verið framlag kristninnar til menningar heimsins. Þess var brýn þörf þá en síðan hefur dofnað yfir umræðum af því tagi og hugsjónir hafa víða sofið værum blundi.

Á alþjóðlegum vettvangi horfðust kirkjusamfélög heimsins á degi hverjum í augu við óbærilegt misræmi í kjörum jarðarbúa. Og spurt hvar: hvert er framlag okkar, kristinna manna um víða veröld, til nýs lífsstíls – einnig á vesturlöndum. Hvar er sá lífsstíll sem á sér rætur í frásögnum af Jesú og lærisveinum hans, í sögu frumkirkjunnar, í hefð kirkjunnar, í klaustrahefðinni, en ekki aðeins þar heldur í hefð sem kristnir menn hafa viðhaldið allar götur síðan með margvíslegum hætti?

Hvar er lífsstíll hófstillingarinnar, lífsstíll hins einfalda og fábrotna hið ytra en hins auðuga og skapandi hið innra? Það er lífsstíll mannúðar og mennsku, samfélags sem leitar þeirra gilda sem allir geta átt aðgang að og kostar ekkert ef út í það er farið – nema eindreginn vilja mannsins. Það er lífsstíll sem hefur höfuðdyggð allra dyggða fyrir augum: hófstillinguna. Það er lífsstíll sem hefur trúna á Jesúm Krist og fordæmi hans í miðpunkti, traustið til þess málstaðar sem gefur manninum hugrekki og skapandi huga til að finna nýjar leiðir og vekja nýtt hugarfar með nýju hugrekki til að lifa.

Kirkjan hefur um allmörg ár lagt þunga áherslu á sálgæslu. Enda hefur sálgæsla verið á verkefnaskrá hennar frá upphafi og er sterkur þáttur í öllu starfi hennar. Og þessa dagana er vissulega mikil og brýn þörf á sálgæslu kirkjunnar, á hana og gildi hennar mun reyna. En sálgæslan miðar – þegar nánar er horft – við fórnarlömb lífsins, hún beinist til þeirra sem hafa orðið fyrir áfalli og gerir sér far um að koma þeim til hjálpar – og fórnarlömb skortir sjaldnast.

Í fyrrnefndu erindi er bent á annað hefðbundið hlutverk kirkjunnar: að kirkjan sinni ekki aðeins fórnarlömbunum heldur hafi hún og eigi samkvæmt sjálfskilningi sínum og eðli trúarinnar að vera mótandi og skapandi í samfélaginu á hverjum tíma. Hún gæti einbeitt sér að umræðu um lífsstíl mannúðar og réttlætis sem allir eiga aðgang að, með öðrum orðum að lífsstíl sem fækkar fórnarlömbunum og kemur í veg fyrir að menn leggi allt undir í hinum áþreifanlegu gæðum á kostnað dýrmætra lífsgæða sem eiga sér rætur í þeirri trú sem hefur aldrei brugðist.

Við erum að tala um hinn einfalda lífsstíl umhyggjunnar, í samfélagi eindreginnar mannúðar, í samfélagi þar sem umhyggja hvers fyrir öðrum skiptir meira máli en flest annað. Við erum að tala um lífsstíl sem kann að upplifa fegurð, góðvild og sannleika sem ómetanleg lífsgildi.
Við Íslendingar þekkjum þennan lífsstíl eldhúsborðsins, einnig í fátækt og fábreytni, eða kaffistofunnar á vinnustað þar sem allir sitja við sama borð. Ég minnist lúkarsins í bát föður míns þar sem lífsgleðin skein úr andlitum sjómannanna, þeir voru ekki auðugir menn en þeir áttu frið í hjarta, þannig er það mér í barnsminni.

Við þekkjum þann lífsstil sem hefur mannúð og mennsku að leiðarljósi, lífsgildi hins einfalda sem hefur hófstillinguna ávallt í huga í öllum efnum. Það er ekki fátækt þar sem fólk býr við einfaldan kost, fátæktin er iðulega meiri þar sem menn hafa bundið sig á klafa skulda og fjárhagsskuldbindinga um ófyrirsjáanlega framtíð, þar sem margt hefur gleymst sem átti ekki að gleymast. Fátæktin er mest þar sem mannlegt samfélag skortir, þar sem samhyggja hefur vikið fyrir samkeppni, örbirgðin er þar sem enginn annar auður er fyrir hendi en sá hverfuli.
Ég held að það líði okkur Karli biskupi seint úr huga þegar við vorum starfsmenn á tímamótaþingi alkirkjuráðsins í Uppsölum 1968, og sáum einn helsta ræðumann þingsins, heimsþekktan hagfræðing frá Indlandi, draga rakvél sína upp úr kolryðgaðri blikkdós; annað sem hann hafði með sér var í sama dúr – en úr augum hans skein eldmóður trúarinnar, þar var hugrekki og von, þar var löngun til að koma hinum varanlegu gildum mannnúðar, mennslu og réttlætis til skila í viðskiptum þjóða í milli, það leyndi sér ekki og það gleymist ekki. Þetta var lexía í einföldum lífsstíl en þrungnum skapandi hugsun og smitandi gleði.

Ég nefni þetta bæði í gamni og alvöru því að hér var maður sem hafði stillt sig inn á gildismat sem fólst ekki í hinu þarflausa, sem snerist ekki um að ganga á auðlindir hinna snauðu, fyrir honum voru réttlæti og mannúð baráttuefni sem vert var að leggja allt í sölurnar fyrir. Fyrir honum var málstaður Krists baráttuefni til að gera heiminn mannlegan.

Leitum því að nýjum lífsstíl þar sem við höfum fyrir augum lífsgildi hins varanlega, þar sem málstaður Jesú og lærisveinanna eru okkur fyrir augum, þar sem dyggðir aldanna, með hófstillinguna efst á blaði, varða veginn.

Með því móti verður kreppan að nýju tækifæri, nýtt keppikefli fyrir þá sem þar leggja lóð sitt á vogarskálarnar í kirkjulegu starfi, hvort sem það eru leikir eða lærðir, hvort sem það eru prestar eða djáknar, sóknarnefndafólk eða starfsfólk safnaðanna.

Ég ætla að ljúka þessum pistli með lexíu næsta sunnudags úr riti Jesaja spámanns, vel að merkja þeim kafla ritsins sem talinn er vera eftir spámann sem nefna mætti “Jesaja vonarinnar”. Það er spámaðurinn sem talar til Ísraelsmanna eftir heimkomuna úr útlegðinni í Babýlon, til fólksins sem snýr heim til landsins í rústum, þar sem akrar eru í órækt og þar sem endurreisn landsins og samfélagsins bíður þeirra. Þetta var fólk kreppunnar, en þetta var einnig fólk hinna nýju tækifæra, og hins nýja hugrekkis sem það öðlast í trúnni sem býr í hjarta þess.

Hinir endurkeyptu Drottins snúa aftur
og koma fagnandi til Síonar.
Eilíf gleði fer fyrir þeim,
fögnuður og gleði fylgir þeim,
en sorg og sút leggja á flótta.
Ég hugga yður, ég sjálfur.
Hver ert þú þá sem óttast dauðlega menn
og mannanna börn sem falla sem grasið
en gleymir Drottni, skapara þínum,
sem þandi út himininn og lagði grunn að jörðinni?
Þú óttast heift kúgarans sérhvern dag,
að hann ákveði að eyða þér.
En hvar er þá heift kúgarans?
Brátt verður bandinginn leystur,
hann mun ekki deyja í dýflissu
og ekki skorta brauð.
Ég er Drottinn, Guð þinn,
sá sem æsir hafið svo að brimið gnýr.
Drottinn allsherjar er nafn hans.
Ég lagði þér orð mín í munn,
skýldi þér í skugga handar minnar,
þegar ég þandi út himininn,
grundvallaði jörðina
og sagði við Síon: Þú ert lýður minn. Jes 51.11-16

Ávarp á leiðarþingi Kjalarnessprófastsdæmis 9. okt. 2008

Um höfundinn



Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3830.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar