Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Arna Grétarsdóttir

Hvort viltu vera týnd eða fundin?

Þessari spurningu varpaði ég til fermingarbarna minna um síðustu helgi. Fermingarfræðsla vetrarins hófst með helgarferð til Svíþjóðar. Þar hittust íslensk ungmenni sem búsett eru í Noregi og Svíþjóð ásamt prestum sínum. Mikið óskaplega var gaman að fylgjast með því þegar krakkarnir sem aldrei höfðu hist áður kynntust, fyrst í feimni í þögninni, fóru svo að tala smávegis á norsku sem síðan varð að einhverju skemmtilegu „norskislensku“ tungumáli. Þegar feimnin var farin voru allir farnir að tala gömlu góðu íslenskuna. Þessu var gaman að verða vitni að.

„Hvað meinarðu eiginlega?“ spurði ein stúlknanna. Ég spurði þau að því hvort þau hafi einhvern tíma týnst. Jú, þau áttu öll sína eigin sögu af því að hafa týnst sem börn. Í búðinni, á flugvellinum, í „mollinu“, úti í skógi eða bara í ókunnugu húsi. Öll voru þau sammála um það að þetta hafi verið hrikaleg lífsreynsla, reynsla sem þau mundu öll mjög vel eftir þó nokkur ár væru liðin. Örvænting og hræðsla, grátur, en þó aðallega hræðsla um að finnast ekki. Og hvernig voru viðbrögð foreldranna? Jú, þau sömu og barnanna og við bættist kannski reiði og skammir. Öll voru þau sammála um það að þetta vildu þau ekki reyna aftur.

„Þannig að ef þið mættuð velja, þá mynduð þið ekki vilja vera týnd?“ Spurði ég. „Glætan, aldrei, og eins og það sé eitthvað hægt að velja það! Það velur það enginn að vera týndur, nema hann sé eitthvað skrítinn“. Í þessa átt voru flest viðbrögð fermingarbarnanna og kannski ekkert undarlegt við það, því ég var auðvitað að snúa svolítið út úr fyrir þeim, eða hvað?

Við getum valið það að vera týnd eða fundin í þeim skilningi að taka á móti Jesú sem leiðtoga lífs okkar. Við getum ákveðið að vera týnd og falið okkur fyrir Jesú, látið eins og hann hafi ekkert að bjóða. Eða við getum valið það að vera fundin og leyft Jesú að hafa áhrif á líf okkar. Leyft honum að leiðbeina okkur í gegnum lífið, hjálpa okkur við erfiðar ákvarðanir, styrkja okkur á erfiðum tímamótum lífsins, kenna okkur réttlæti hjartans og gefa okkur frið hið innra.

Allt þetta býðst okkur og miklu meira ef við bara leyfum Jesú Kristi að finna okkur og ef svo leiðinlega vill til að við týnumst aftur þá getum við treyst því að hann fer af stað og leitar að okkur og gefst ekki upp fyrr en hann finnur okkur. Nákvæmlega eins og hann sagði okkur í dæmisögunni um týnda sauðinn.

Hefur þú gert það upp við þig hvort þú vilt vera týnd/ur eða fundin/nn?

Og vissirðu, að ef þú velur að vera fundin/nn þá geturðu verið með í leitarliði Jesú Krists. Hvernig? Það er líklega efni í annan pistil!

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2489.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar