Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Hildur Inga Rúnarsdóttir

“Þar sem birkið og fjalldrapinn grær”

Í sumar tók ég það að mér að vera kirkjuvörður Þorgeirskirkju við Ljósavatn og prestur vegkirkjunnar, sem þar starfar á sumrin. Ég taldi að þetta yrði hið ágætasta sumarstarf og að ég myndi geta unnið nokkuð á listanum “Bækur sem ég ætla að lesa.” Þetta virtist ætla að rætast því í júní sat ég í makindum inni á skrifstofu með fæturna upp á borði og las misjafnlega góðar bækur milli þess sem ég þambaði kaffi.

Sumarið fór hægt af stað og hvað eftir annað snjóaði hér í fjöll og á Jónsmessnótt hefði sá sem ætlaði að velta sér upp úr dögginni velt sér upp úr krapa. En svo loksins kom sumarið og bílar með tjaldvagna-, kerru- og fellihýsahala tóku að streyma gegnum Ljósavatnsskarð. Margir æja í Þorgeirskirkju og eftir því sem straumurinn í gegnum skarðið þyngdist, þyngdist straumurinn inn um kirkjudyrnar. Hingað kemur fólk til að skoða og eiga kyrrðarstund í helgidómnum fjarri þunga umferðarinnar.

Þorgeirskirkja, sem getur státað af einni fallegustu altaristöflu landsins, tekur einstaklega vel á móti öllum sem hingað koma á sinn einfalda og látlausa hátt, björt og hlýleg. Margir hreinlega grípa andann á lofti þegar þeir ganga hér inn í fyrsta sinn. Einn erlendur ferðamaður orðaði það þannig að henni fannst hún ganga inn úr náttúrunni og inn/út í sköpun Guðs.

Vegkirkjan hefur mælst vel fyrir og nýtur vinsælda hjá þeim sem hafa kynnst henni á undanförnum árum. Þó nokkuð er um að fólk komi hér við á hverju ári í sumarleyfi sínu. Einnig hefur það færst í aukana í sumar að hópar innlendra ferðamanna geri boð á undan sér og óski eftir helgistund og fararblessun.

Reglulegt helgihald hefur verið í Þorgeirskirkju í sumar. Hádegisbænir alla daga kl 13:00 nema á sunnudögum þá er helgistund kl. 14:00 og bænastund í lok hvers dags rétt fyrir kl. 17:00. Helgihaldið hefur verið ágætlega sótt. Margir doka við eftir bænastundum, en aðrir eru á hraðferð eins og gerist og gengur. Auðvitað er, að gömlum og góðum íslenskum sveitasið, boðinn molasopi öllum þeim sem kirkjuna sækja heim.

Þá vekur það óskipta athygli fólks að í kirkjunni eru til sýnis 15 höklar gamlir og nýir. “Höklar úr héraði” nefnist sú sýning og saman stendur af völdum höklum, sem enn eru í notkun, úr öllum prestaköllum Þingeyjarprófastsdæmis. Sumir hverjir koma almenningi sjaldan fyrir sjónir.

Þó eitthvað lítið hafi orðið af lestri hefur það verið alveg einstaklega ánægjulegt að þjóna vegkirkjunni í sumar og hér myndi ég vilja vera fengi ég nokkru um það ráðið. Vegkirkjunni sem þjónar ferðamönnum og kemur þannig til móts við þá sem leggjast í flæking á þessum árstíma. Það er yndislegt að skynja að fólk er ánægt með þetta fyrirkomulag. Ánægt því það veit að kirkjan er hér fyrir það opin og til þjónustu reiðubúin. Yndislegt hversu margir nýta sér þjónustu hennar og taka frá stund fyrir Guð í sumarfríinu og mæta honum í Þorgeirskirkju sem rís upp úr hrauninu, látlaus og tignarleg, þar sem fjalldrapinn grær.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3895.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar