Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Magnús Magnússon

Sumarið er tíminn

,,Sumarið er tíminn, er mér líður vel / með stúlku minni …“ söng Bubbi Morthens um árið. Um hvers konar kynni Bubbi var að syngja verður hver og einn að meta. Alltént er það svo að sumarið er tíminn þegar, við sem lifum í hjónabandi, fáum færi til að njóta lífsins saman eftir annir og amstur vetrarins. Ýmist erlendis í sólríkri sólarlandaferð eða innanlands í íslenskri sumarveðráttu sem ber einkenni hjónabandsins, þ.e. skúrir og skin, skammt er minn vin, markanna á milli. Þegar við hjónafólkið náum þannig sameiginlegri slökun þá gefst oft tími til að ræða um hjónabandið og hjónavígsludaginn þarna um árið og hugsa með sér hvað við vorum að innsigla frammi fyrir Guði og mönnum á sínum tíma. Marga gula póstmiða mætti tína saman í þann hjónabandshatt en yfirskrift og utanáskrift þess hatts væri: Gagnkvæmur kærleikur. Þessi gagnkvæmi kærleikur er gjöf Guðs, sem sjálfur er kærleikur og er kærleikurinn sjálfur. Allt sem Guð er og gerir er sprottið af kærleika. Guð skapaði manninn til þess að elska. Hið fremsta og æðsta boðorð, svokallaða tvöfalda kærleiksboðorð er boðið um að elska. Hjónabandið veltur á því hversu vel hjónin ná að lifa í samhljóma við þetta boðorð.

Gagnkvæmur kærleikur verður að geta fyrirgefið og umborið það sem upp á kann koma í hversdagslífinu og ef hann gerir það ekki, þá er hann innantómur og innihaldslaus og nær aldrei að virka sem skyldi. Þá verður kærleikurinn:

Eins og eyland, eins og stormsker
eldspýta á kafi í snjó.
Eins og ósyndur fugl á flugi
yfir endalausum sjó.

Það er oft erfitt að lýsa þessu margslungna fyrirbæri og þessari margslungnu stofnun sem hjónabandið er án þess að grípa til líkingamáls. Stundum er talað um að hjónabandið geti annars vegar verið eins og höfn í stormi en hins vegar eins og stormur í höfn. Þegar talað er um að hjónabandið sé eins og höfn í stormi þá er átt við það, að þegar við göngum í hjónaband, þá erum við að sigla í var, leita okkur skjóls. Vegna þess að þegar við komum heim úr vinnunni, inn á heimili okkar og inn í hjónabandið þá hengjum við af okkur embættisfrakkann í forstofunni. Þetta táknar að þegar við komum heim þá skiljum við eftir okkar ytri grímu í forstofunni, grímu starfs, félagsstarfs eða hvers þess sem við sækjum út fyrir veggi heimilisins. Og þaðan í frá eru það við sjálf sem göngum inn á heimilið og inn í hjónabandið. Þangað sem við sækjum hlýju og gefum hlýju. Þangað sem við leitum vars og skjóls og erum var og skjól.

Hins vegar þegar talað er um að hjónabandið sé eins og stormur í höfn þá er átt við, að þó svo við teljum okkur vera örugg inn í þessu vari, skjóli og í þessari höfn sem hjónabandið er, þá erum við ekki þar með gulltryggð til æviloka fyrir hvassviðri í þessari höfn. Það getur alltaf hvesst, það getur alltaf komið upp á ósætti eða reiði, og þegar og ef það gerist þá má hafa hugfast gamalt heilræði úr Prédikaranum í Gamla testamentinu þar sem segir:„Látið aldrei sólina setjast yfir reiði ykkar.” En þessi orð merkja einfaldlega það að æskilegt er að hjón gangi aldrei ósátt til hvílu, leggist aldrei til svefns ósátt hvort við annað. Annars vegar er að reyna að leysa málin strax eða setja þau í þann samningafarveg sem báðir aðilar eru sáttir við. Túlkun á þessu 3000 ára gamla heilræði mætti setja saman í bundið mál til þess að koma í veg fyrir að túlkandinn fari út um víðan völl og segja:

Gömul ráð ég gef að nýju
gef í ykkar sálarskaut:
Ræktið frið og ræktið hlýju,
ræktið ást á ævibraut.

Það að rækta frið, hlýju og ást, það snýst um vilja, það þarf að vera ræktunar- og sáttavilji til staðar og frumkvæði. Útrétt hönd er tákn um frumkvæði og sáttavilja. Jesús Kristur holdgervingur kærleikans, var og er talandi dæmi um endalausan sáttavilja. Hann lagði og leggur í orði sínu ríka áherslu á að við forðumst ósætti og ef það kemur upp þá eigum við að leggja okkur fram um að eyða því sem allra fyrst. Þannig erum við að vinna í anda kærleika Krists. Þannig stuðlum við að betra hjónabandi. Leggjum okkur fram við það. Sumarið er tíminn.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3590.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar