Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Baldur Kristjánsson

Ramses, Rosemary og barnið út frá kristnu sjónarmiði

Hvað myndi hið kristna sjónarmið vera í máli Paul Ramses sem vísað var til Ítalíu án þess að mál hans yrði tekið fyrir hér og Rosemary konu hans sem vísað verður til Svíþjóðar ásamt barni þeirra? 
Samúðin með þeim sem er í vanda staddur ætti að vega ansi þungt. Samúðin og manngæskan eru hiklaust meðal helstu gilda kristninnar. Gamla testamenntið leggur margvíslega lykkju áleið sína til að brýna okkur að reynast vel ekkjum, munaðarlausum og útlendingum. Þarna eru þrír hópar settir undir sama hatt. Hópar sem eiga hvergi höfði sínu að halla, eiga erfitt uppdráttar,þurfa á okkur hinum að halda. Í máli Ramses má einnig leiða líkum að því að líf hans gæti verið í hættu. Ekki þarf að brýna helgi lífsins fyrir kristnum mönnum.

Heimurinn er fullur af flóttamönnum sem í örvæntingu sinni leita að dvalarstað fyrir sig og sín börn. Á flótta fara menn vegna stríðsátaka og náttúruhamfara. Þjóð sem tekur ekki sinn skerf af hörmungum heimsins með því að veita bágstöddu fólki skjól getur vart talist byggja á kristnum gildum, svo einfalt er það.

Þeir sem vilja vita vita líka að þúsundir flóttamanna knýja á ítalskar dyr. Þar er örtröð og meðhöndlun þeirra oft fyrir neðan allar hellur. Undirritaður hefur skoðað móttökusetur í Evrópulöndum þar sem fólk hírist oft mánuðum jafnvel árum saman og getur ekki óskað nokkrum manni slíks hlutskiptis.

Í þessu máli ætti hagur barnsins kannski að vega þyngst. Mér finnst of lítið tillit tekið til barna yfirleitt þegar fjallað er um hælisleitendur. Bæði samkvæmt íslenskum lögum og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á barn rétt til beggja foreldra sinna. Hann lét börnin hafa forgang. Leyfið börnunum að koma … Hið kristna sjónarmið væri hiklaust að reyna að bregðast ætti við með þeim hætti að fjölskyldan gæti haldið saman.

Þáttaka mannsins í hjálparstarfi í Kenya ætti að skipta máli. Þar vann hann að hjálparverkefnum með íslensku fólki. Þó að Guð verðlauni okkur ekki sérstaklega fyrir slíkt telst slíkt starf til þess sem kristnir menn hafa í hávegum.

Nauðsynlegt er þó einnig hafa í huga að kristnir menn hafa löngum lagt blessum sína yfir það að reglur og lög væru nauðsynleg í einu samfélagi og ekki mætti láta hjartagæskuna hlaupa með sig í gönur. Viðurkennt er að furstinn, keisarinn (eða dómsmálaráðherrann) verði að halda uppi aga, festu og skikki í einu samfélagi til þess að mannlíf þar geti gengið bærilega fyrir sig og kærleikur sá sem Kristur boðaði fái notið sín. Kristnir menn hafa einnig lagt blessun sína yfir og barist fyrir að allir séu jafnir gagnvart lögum og reglum. Tala má um nauðsyn þess að koma í veg fyrir óreiðu(kaos) með því að tryggja heildarreglu(kosmos).

Síðan verður hver að meta fyrir sig hvað vegur þyngst í þessum efnum. Sjálfum finnst mér að hagur og réttur barnsins vega þyngst. Ég met málið þannig að það sé kjörið tækifæri til að sýna mannúð í verki. Ég sé ekki hvernig það getur komið í bakið á íslensku þjóðinni. Þá er greinilegt að hér er á ferð fólk sem leitar eftir því einu að komast í skjól og fá að lifa sínu lífi saman. Að tala um fordæmi á ekki við. Þetta mál er svo sérstakt á marga lund að það verður aldrei að beinu fordæmi fyrir önnur mál og hvað gerði það svo sem til þó að þeim fjölgaði sem fengju hér hæli?

Í guðspjalli síðasta sunnudags lætur Jesú samúðina ráða gerðum sínum þegar hann mettar fjögur þúsund karlmenn (Mark. 8-1-9) og auk þeirra konur og börn, sennilega um átta þúsund manns. Hann velti ekkert fyrir sér að þetta kynni að skapa fordæmi. Að yfir hann kynnu síðar að hellast enn fleirri hungraðir þegar það fréttist út hvað hann væri góður. Samúð hans með góðu fólki sem gekk gott eitt til en aðstæður höfðu leitt í háska réði gerðum hans. Ef við ætlum að standa undir nafni sem kristin þjóð verðum við að gera slíkt hið sama.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2926.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar