Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Guðný Hallgrímsdóttir

Náttúran og ég

Ég veit fátt skemmtilegra en að ganga um landið mitt á góðum sumardegi. Finna ilminn af sköpun Guðs í hverju spori, anda í takt við tré, blóm og fossa landsins. Það skiptir ekki máli hvort sólargeislar ráða degi eða milda sumarregnið. Allt er þetta hluti af hinni góðu sköpun Guðs. Ég er hluti af henni sjálf, geng áfram leið mína, hluti af þessu öllu saman, hluti af hópnum sem með mér gengur og hluti af lífinu sjálfu sem andar allt í kring. Það er svo merkilegt hversu saman við erum í raun tengd, maðurinn og náttúran, náttúran og maðurinn. Tengingin er augljós þegar við náum því að hlusta með hjartanu og anda í takt, við og náttúran. Sami taktur, sami andardráttur. Hlustum eftir djúpinu í okkur sjálfum og finnum þar uppsprettu alls lífs, höfund þessa alls, föður lífsins.

StígurNáttúra landsins er helgidómur því hún ber glöggt vitni um þann föður sem gaf henni liti og líf, þess sama föður og blés manninum lífsanda í brjóst. Náttúran með öll sín litbrigði landslags og mynda. Hún er í raun Guðs góða sköpun.

Á göngum mínum um landið, fyllist ég lotningu og auðmýkt yfir gæsku Guðs. Hversu lánsöm ég er að fá að alast upp í þessu fallega landi. Landi elds og ísa. Að vera sprottin upp úr þessum margbreytilega jarðvegi landsins. En um leið og ég geng um þennan helgidóm elsku Guðs, sem gaf mér lífið og landið, finn ég í sömu andrá til þeirrar ábyrgðar að fara vel með þessar góðu gjafir skaparans og bið þess í hjarta mínu að við Íslendingar berum gæfu til að fara vel með þann helgidóm sem landið okkar er.

Eftir góða göngu er gott að leggjast í djúpa lautu. Hlusta á hjal lækjar undir grænum björkum og finna blágresið kitla háls og kinn. Ég ríf mig úr skónum og læt lækinn leika um bera fætur mína. Finn hvernig kraftur vatnsins, leikur og líf fylla sál mína af þessum sama krafti. Anda að mér ilmi berjalyngs og hlakka til haustins þegar lyngið ber ávöxt sumarsins. Ummmm, ber, skyr og rjómi. Finna hversu Guðs góða sköpun er í alvöru góð! Koma að síðustu heim á ný, endurnærð á sálu og lífi og hlakka strax til næstu ferðar.

Þessar göngur eru hluti af forðabúri, sem ég kem mér upp smátt og smátt meðan sumarið varir. Forðabúri sem ég sæki glöð í næsta vetur, þegar myrkrið og kuldinn ráða ríkjum. Þá er gott að eiga í handraðanum sólargeisla og sumarregn sem lýsa upp skammdegið og ylja í kulda. Þá hverf ég í huganum til lautar og lyngs og sæki góðar minningar um sæla sumardaga.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2946.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar