Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Karl Sigurbjörnsson

Fjölskyldum skal ekki sundrað

Í Biblíunni erum við enn og aftur hvött til þess að taka vel á móti útlendingnum. Við Íslendingar höfum ekki staðið okkur vel að því leyti, sérstaklega skerum við okkur úr hvað varðar hælisleitendur. Þeim er nær án undantekninga umsvifalaust snúið til baka. Í fyrra var 24 hælisleitendum snúið við.

Aldrei hafa fleiri hælisleitendur leitað á okkar náðir en nú og þeim mun áreiðanlega fjölga. Mér finnst Rauði krossinn vinna aðdáunarlegt starf að málefnum þeirra. En við gætum gert miklu betur í að sinna þessu fólki og létta því biðina, umfram allt þar sem um börn er að ræða.

Erlendis heyrir maður enn og aftur gagnrýni á það hve harða stefnu Íslendingar hafa í þessum málum. Vafalaust erum við í viðkvæmri aðstöðu vegna fámennis okkar, og sem útverðir þess sem kallað hefur verið „evrópska virkið” sem verður fyrir æ þyngri straumi flóttamanna og hælisleitenda. Og þar virðist sem skýrum ákvæðum Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna um rétt manna til griðlands erlendis gegn ofsóknum, og eins flóttamannasamningi SÞ sé þröngt stakkur skorinn.

Þær stofnanir og embættismenn sem falið er að bera ábyrgð á þessum málum hér eru sett í mikinn vanda. Ég tel þó að við hljótum að verða að skoða einstök mál og leyfa mannúðarsjónarmiðum að komast að.

Í þessu tilviki er um að ræða fjölskyldu með ungt barn. Samúð mín í þessu máli er umfram allt með barninu. Það, eins og börn hælisleitenda yfirleitt, ber þyngstu byrðarnar. Við erum skuldbundin því að sjá til þess að fjölskyldum sé ekki sundrað. Því miður var það ekki virt hér.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2448.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar