Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Gunnlaugur Stefánsson

Er útförin einkamál aðstandenda?

Íslendingar hafa þann sið í heiðri að fjölmenna til útfarar og kveðja látinn ástvin og fjölgar kirkjugestum við útfarir fremur en að fækka eins og gerst hefur í mörgum nagrannalöndum. Þá hefur athöfnin frekar verið að vaxa að umfangi m.a. með meiri fjölbreytni í tónlistarflutningi. Og það heyrir til undantekninga, ef útför fer fram utan kirkju þrátt fyrir að skipulega hafi verið reynt að grafa undan kirkjunni með makalausum áróðri undanfarin misseri. Þegar á reynir, þá er Þjóðkirkjan hið trausta griðarskjól, sem engum bregst. Útförin á Íslandi er guðsþjónusta samkvæmt lútherskum sið og byggir á reynslu aldanna sem fólkið kannast við og líkar vel.

En allt er samt breytingum undirorpið og gildir einnig um útförina. Það hefur verið sagt um Þjóðkirkjuna, að hún sé opin og frjálslynd og vilji öllum þóknast. Flestir vilja samt ganga að fastmótaðri umgjörð í helgihaldinu og að þar gildi ákveðnar reglur. Þá vaknar sú spurning: Eiga aðstandendur öllu að ráða varðandi útför látins ástvinar í kirkjunni ef svo ber undir? Velja ritningarorð eða aðra texta til lestrar í athöfninni, sálma eða dægurlög, semja ræðuna og jafnvel bænir? Auðvitað byggir hefðin á nánu samráði aðstandenda og prests sem útförina annast. En hvar liggja mörkin og hvaða ábyrgð bera aðstandendur á innihaldi athafnarinnar? Er allt leyfilegt við útför innan Þjóðkirkjunnar ef það þóknast nánustu aðstandendum? Ég hef mætt aðstandendum sem hafa talið það heilaga skyldu sínu við hinn látna að velja sálma fyrir útfararathöfn sem honum gætu verið þóknanlegir, þó þeir hefðu ekkert vit né nokkra reynslu af skipulagi helgihalds í kirkjunni. Hvernig á maður sem aldrei kemur í kirkju að skipuleggja guðsþjónustu og segja presti fyrir verkum? Það er mikill munur á því að undirbúa útför og árshátíð.

Það er presturinn sem ber ábyrgð á athöfninni og að inntak hennar samræmist tilefninu og helgi kirkjunnar. Hann leitar eftir upplýsingum frá aðstandendum um hinn látna, hlustar á óskir þeirra ef einhverjar eru og verður við þeim ef aðstæður leyfa. Og um það gilda samræmd viðmið samkvæmt hefðinni í kirkjunni. Þetta er ekki hlutverk útfararstofunnar sem er verktaki til að vinna þau verk sem henni er falið. Því miður þá virðist þróunin á höfuðborgarsvæðinu stefna í þá átt, að presturinn sé að verða einskonar starfsmaður hjá útfararstofunni sem mestu ræður um athöfnina með aðstandendum. Þá er hætt við, að athöfnin hverfi með tímanum úr helgri umgjörð sinni þar sem allt verður leyfilegt. Slíkar kveðjustundir eiga ekki að fara fram í kirkju með presti til skrauts heldur í samkomuhúsum eða á skemmtistöðum.

Það er brýnt að kirkjan standi traustan vörð um helgihaldið og þau grundvallarviðmið sem þar eiga að gilda með Guðsorði í fyrirrúmi og allt fari fram af virðingu og menningarlegum metnaði. Það á einmitt við um útförina, umgjörð hennar, sálmaval, bænir, ritningarorð og ræðu. Útförin er þannig ekki einkamál aðstandenda heldur viðfangsefni kirkjunnar. Þóknunarhyggjan má ekki rugla kirkjuna í ríminu eins og á vinsældartorgi markaðarins. Hér gegnir presturinn svo mikilvægu hlutverki og ábyrgð hans er mikil. Kirkjufólk treystir því að presturinn standi í fæturna einmitt þegar mest á reynir og láti ekki glepjast af vinsældahyggju staða og stunda.

Gunnlaugur Stefánsson, sóknarprestur í Heydölum

Um höfundinn3 viðbrögð við “Er útförin einkamál aðstandenda?”

 1. Svanur Sigurbjörnsson skrifar:

  Sæll Gunnlaugur
  Ég er ekki trúaður maður en er samt forvitinn að vita hvar þú vilt draga þessi mörk samráðs við kristilega útför. Móðir mín er kristin og ég gæti því þurft að eiga samskipti við prest um útför hennar þegar sú sorglega stund rennur upp. Þú vilt greinilega skýr mörk en nefnir þau samt ekki í grein þinni, þ.e. skýrt hvar þau eigi að liggja. Ég spyr því nú án þess að dæma um orð þín hér að ofan: Vilt þú algerlega stýra því sjálfur sem prestur hvaða sálmar eru sungnir og hvaða ritningarorð eru flutt? Hverju mega aðstandendur ráða að þínu mati fyrst að þú nefnir samráð sem möguleika í annars í því ástandi sem þú kallar “þóknunarhyggju” og “vinsældarhyggju”? Það er alltaf gott að vita hvar maður hefur fólk og ekki síst hvar maður hefur prest því það þarf e.t.v. að leita til hans með viðkvæm mál. Takk fyrir.

 2. Gunnlaugur Stefánsson skrifar:

  Sæll Svanur,
  Bestu þakkir fyrir viðbrögð þín og afsakaðu síðbúið svar.
  Það er einmitt kjarni málsins eins og þú segir sjálfur:”Það er alltaf gott að vita hvar maður hefur fólk” og ekki síst prestinn. Það er einmitt þetta sem gildir um útförina, að fólkið geti treyst kirkjunni og þeim siðum sem um helgihald hennar gilda. Og þar ber presturinn ábyrgðina byggða á Guðsorði og hefðinni. Við undirbúning útfarar þá gegnir samráð á milli aðstandenda og prests lykilhlutverki, enda samofið inn í sálgæslu prestsins og faglega leiðsögn hans, sem stendur vörð um að útförin fari fram samkvæmt góðum kirkjusið. Þegar óskir koma fram frá aðstandendum sem samræmast ekki slíkum gildum, þá getur reynt á prest að leiða fólk frá slíkum óskum og segja nei ef til þess þarf að koma, en láta ekki glepjast af vinsældar-og þóknunarhyggju. Á slíku grundvallast traustið og fólk geti treyst á samræmda leiðsögn kirkjunnar. Útför er nefninlega málefni kirkjunnar, safnaðarins, þar sem prestur er hirðir og aðstandendur hluti safnaðarins í kirkjunni. Þar leiðir prestur helgihaldið og hefur með höndum stjórn og forystu. Hann getur aldrei orðið að leiguliða, sem á sjálfgefið að þóknast öllum óskum aðstandenda og/eða útfararstofu í einkaathöfn þeirra. Fólkið sækir til prests eftir þjónustu á forsendum kirkjunnar.
  Með kærri kveðju
  Gunnlaugur Stefánsson
  Heydölum

 3. Svanur Sigurbjörnsson skrifar:

  Sæll Gunnlaugur og takk fyrir svarið.
  Ég get vel skilið að þú viljir gæta hins guðlega í athöfninni því þú ert menntaður til þess og hefur greinilega ákveðna sannfæringu fyrir því hvernig tryggja eigi útför sem fari vel með guðsorðið og sé samkvæmt kristinni trú.
  Sumt fólk sem biður um athafnir hjá þjóðkirkjuprestum vill ekki trúarlega hlutann eða er ekki að hugsa um hann sérstaklega. Þetta er það sem ég kalla hið “menningarlega kristna” fólk, sem í raun hefur ekki trúarsannfæringu, en flýtur með straumnum (skráð í Þjóðkirkjuna frá fæðingu) og vill nýta sér aðstöðu og starf prestins við að halda góða athöfn fyrir sig. Nú er ég að tala um athafnir almennt, ekki einungis útfarir. Þetta fólk er líklegra til að vilja eitthvað vinsælt og þá ekki endilega þá sálma eða ritningu sem þú, presturinn, vilt koma á framfæri.
  Mér sýnist að margir kollegar þínir sætti sig ágætlega við þetta og taki við öllum sem vilja fá kirkjulega athöfn og fari eftir flestum óskum þeirra. Kannski er í lagi að gera það en fyrst skyldi a.m.k. gera fólkinu grein fyrir því að trúarlegar athafnir eru sniðnar fyrir trúaða og þá sem virkilega trúa því sem segir í Faðir vorinu og Trúarjátningunni. Þeir sem ekki trúa á það hafa nú þann valkost að fá veraldlega/siðræna/húmaníska athöfn hjá Siðmennt. Það hlýtur að vera réttlætanlegt að grufla pínulítið undir yfirborðið og vita hvort fólk vilji ekki ákveða sig hvar það í raun stendur. Þetta er ekki vinsældakeppni eins og þú segir.
  Bestu kveðjur
  Svanur Sigurbjörnsson - Mosfellsbæ

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5902.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar