Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Úlfar Guðmundsson

Af jörðu ertu kominn - Athöfnin í kirkjugarðinum

Umræða fer nú fram um helgisiði Þjóðkirkjunnar og endurskoðun á handbók hennar.

Helgisiðir eru mikilvægir og þeir þurfa að hafa rök og tilgang. Oft er um að ræða táknmál sem stendur fyrir hugsun eða sannleika og mikilvægt að það sé rökrétt.

Ljóst ætti að vera að framkvæmd helgisiða er á starfsvettvangi prestanna en ekki leikmanna, sóknarbarna eða starfsfólks í kirkjugörðum.

Það var mikill áfangi í kirkjunni á minni starfsævi þegar út var gefin ný helgisiðabók árið 1981 eftir áratuga starf og samninga. Persónulega finnst mér mikilvægt að eining ríki innan þjóðkirkjunnar á sem flestum sviðum helgisiða. En einnig met ég það mikils að fólk sé næmt fyrir helgisiðum og vilji halda því í framkvæmd sem það hefur vanist og þykir vænt um og þegar fólk er tilbúið að rökstyða það þá er það verðmætt. Þess vegna er rétt að fara að öllu með gát og allra nauðsynlegast að fólkið skilji hvað er verið að gera og hvers vegna. Með öðrum hætti nýtur það ekki þess sem fram fer og hefur ekki fullt gagn af athöfninni. Það ætti því að liggja alveg ljóst fyrir að það er varhugavert að hringla með helgisiði að vanhugsuðu máli. Ég tala nú ekki um ef fólk er vanið á ósiði sem síðan getur kostað mikla vinnu að færa til betri vegar.

Mér hefur það því lengi verið áhyggjuefni að á sama tíma og þessi mikla samræming er að nást þá stefnir ein af okkar athöfnum til vaxandi sundurgerðar í kirkjunni og það meira að segja hröðum skrefum. Þarna á ég við þjónustuna við gröfina í kirkjugarðinum. Sumt er tiltölulega nýtilkomið eða yngra en 30 ára eins og þessi pallasmíð sem lögð er yfir grafirnar og hefur breiðst út á síðustu árum. Ég gleymi því ekki þegar ég fyrst kom í kirkjugarð út úr kirkjunni og sá þennan pall í fyrsta sinn. Það þótti mér verulega ónotalegt. Annað á sér lengri aðdraganda eins og að kasta rekum inni í kirkjuhúsunum. Ég minnist þess þegar ég varð prestur fyrir norðan fyrir 36 árum þá voru margir eldri borgarar sem tóku undir hönd mér og spurðu með nokkurri eftirvæntingu í svip. Jæja. Ætlar nú nýji presturinn að fara í garðinn. Þá var sú ævaforna athöfn komin á undanhald í nágrannabyggðunum. Ég svaraði því til að engin breyting yrði á því meðan ég væri þar prestur. Viðmælendum mínum létti við þetta svar. Satt að segja langaði mig að koma þessari athöfn óbrenglaðri til næstu kynslóðar en það virðist varla ætla að takast.

Umgengi við dauðann
Miklar breytingar hafa vissulega orðið á þjóðfélaginu. Dauðinn varð ekki eins sýnilegur og áður var. Hann færðist frá heimilunum inn á sjúkrahúsin. Aðstaða til kistulagninga er allt önnur en hún var. Hún var víða ömurleg þegar ég hóf störf. Svo er þessi dásamlega breyting að barnadauðinn er nánast horfinn frá því sem áður var. En þá er fólk frá sjónarhóli sálusorgarans ekki orðið eins vant umgengni við dauðann. Það er ótrúlegur munur á því að foreldrar skírðu fleiri en eitt barna sinna sama nafninu til þess að auka líkur á að nafnið kæmist upp og til þess að það sé nær algjör undantekning ef barn deyr, en þá kemur það líka frekar eins og reiðarslag. Það er ekkert svo langt síðan fólk stóð uppi í kistu sinni í heimahúsum í eina til tvær vikur og krakkarnir léku sér í kring um kistuna. Mér finnst rétt að vera ekki að bera lík í heimahús og var bara feginn því þegar svokallaðar húskveðjur lögðust af. Landslög standa ekki til þess nú að bera lík í heimahús. En það er alltaf spurning hvernig við eigum að hafa þetta og umgangast dauðann á eðlilegan hátt. Mér er engin launung á því að ég tel að hin gamla þjónusta við gröfina eigi að halda sér óbreytt eins og hún var um aldir, vegna þess að athöfnin mætir þörfum fólksins og markar þarna skil með eðlilegum og heilbrigðum hætti.

Nú var það þannig í helgisiðabókinni frá 1934 að þar var gert ráð fyrir að rekum væri kastað í garði nema í því tilfelli að um bálför væri að ræða eða grafreiturinn væri langt frá kirkjunni. Þá var leyfilegt að kasta rekum í kirkjunni. En aðalreglan þar er sú eins og stendur orðrétt: “Þegar líkkistan hefur verið látin síga niður í gröfina, gengur presturinn að gröfinni og segir:” Þar eru síðan gefnir tveir möguleikar á orðavali. Mér er engin launung á þvi að ég hef alltaf haft orðin úr Pétursbréfinu og síðan þau gömlu orð: Af jörðu ertu kominn. “Að jörðu skaltu aftur verða. Af jörðu skaltu aftur upp rísa” og allra síðast það gamla requiem: “Veit honum/henni, Drottinn, þína eilífu hvíld og lát þitt eilífa ljós lýsa honum/henni.” Önnur orð hef ég aldrei tekið mér í munn. Sérstaklega þykir mér vænt um orðin úr Pétursbréfinu vegna tengslanna við skírnina og hvernig kirkjan heilsar og kveður með sömu orðunum yfir skírnarsánum og yfir opinni gröf og svo sem barnið er þrisvar ausið vatni er og kistan þrisvar ausin moldu. Ég hef notað þessa samlíkingu til þess að hugga aðstandendur ungra látinna barna með góðum árangri. Helgisiðabókin frá 1981 gerir aftur á móti engan mun á því hvort moldað sé í kirkju eða yfir opinni gröf. En sagt er að ef moldað er í garði, fari sú athöfn fram eins og í kirkjunni. Hér er moldun í garði nánast eins og undantekning. Þetta fannst mér verða án nokkurrar umræðu.

Þægindasjónarmið
Ég hef hér talað um þjónustu við gröfina. Það er einmitt það sem þessi athöfn er. Hún er grafarþjónusta og til orðin vegna þeirrar þarfar sem er við gröfina, söfnuðinum til svölunar og uppbyggingar. Athöfnin er því í rauninni staðbundin. Ekki rökrétt að bera mold inn í kirkjuna. Moldin á heima úti í garðinum. Hver eru þá rökin fyrir því að flytja þessa þjónustu frá sínum eðlilega stað og inn í kirkjuna? Þau eru fyrst og fremst einhvers konar þægindasjónarmið.
1. Íslenskt veðurfar
2. Ónógir söngkraftar
3 Gamalt fólk.
4. Fólk geti dottið ofan í gröfina.
5. Mold geti fallið ofan í gröfina.

Varðandi veðurfarið þá er það mín skoðun að ekki þurfi fleiri að fara í garðinn þótt moldað sé þar. Þangað þurfa ekki að fara fleiri en hefðu farið þangað hvort sem var. Athöfnin er fyrir þá sem eru við gröfina en ekki fólk sem þangað kemur ekki. Rétt er að klæða sig eftir veðri og er þetta fyrsta kynslóðin sem á föt utan á sig til skiptanna og rúmlega það. Fína kuldagalla, pelsa og allt mögulegt. Engum þarf að vera kalt. Svo finnst mér rétt að aðstandendur gangi í burtu þegar þeir hafa signt yfir gröfina a.m.k. þegar erfidrykkja er og heilsi fólki þar en ekki í garðinum. Ef allir fara að heilsa nánustu aðstandendum þá stíflast röðin og allt tekur mikið lengri tíma. Mér finnst mikilvægt að þessi athöfn sé alltaf eins og fari ekki eftir veðri eða árstíðum.

Að því er varðar ónóga söngkrafta þá má sleppa sálmi eða lesa hann. Það er þó skaði vegna þess að sálmaversin eru góð. Þar kemur það fram að þeir gömlu vissu alveg hvað þeir voru að gera.

Helgisiðabókin 1981 hefur þessa ömurlegu klásúlu: “Þótt moldað sé í kirkju, getur presturinn fylgt líkinu til grafar. Biður hann þá bænar og flytur postulega kveðju, þegar kistan hefur verið látin síga í gröfina.“ Þarna er þó gert ráð fyrir því að ekki sé flutt postuleg kveðja fyrr en fyrr en kistan hefur verið látin síga í gröfina. Það er ekki alltaf farið eftir þessu.

Að kasta rekunum með hefðbundnum hætti tekur ekkert lengri tíma en einhver bænavers. Nauðsynlegt er að sjálfsögðu að presturinn fylgi líkinu til grafar. Heyrt hef ég prest segja að rökrétt sé að prestur fari ekkert í garð. Það er ömurlegt og mikill misskilningur að skilja fólk eftir eitt og ráðvillt við gröfina. Það hefur komið fyrir að fólk hefur ekki haft sig frá gröfinni hafi það verið eitt. Ekki á að gera neinar undantekningar þegar sérstaklega stendur á heldur á athöfnin að vera stutt og látlaus og alltaf eins. Mjög vel fer á því finnst mér að presturinn gangi síðastur frá gröfinni. Það er auðveldara að skiljast við gröfina þannig. Fólk hefur styrk af nærveru prestsins.

Eðlilegt að hafa beig af gröfinni
Það er eðlilegasti hlutur í heimi að við höfum beyg af gröfinni. Athöfnin er beinlínis til þess að vega það upp og gera okkur ljóst að gröfin er eðlileg. Athöfnin talar sjálf sínu máli ef hún er rétt framkvæmd og af samvizkusemi. Hvað segir athöfnin. Hún segir: Gröfin er ekki köld, djúp, ljót eða dimm, heldur er hún eðlilegur staður og Guði velþóknanlegur. Moldin er ekki óhreinindi eða eitthvað sem þarf að fela. Hún er gróðurmold og móðurmold með miklum lífsþrótti. Líkaminn verður ekki að akrýl dúk, plasti eða striga. Hann verður að mold. Því þarf ekki að klæða gröfina að innan með druslum. Öll þessi atriði eru undirstrikuð með því að færa athöfnina út úr kirkjunni hinu helga húsi og að gröfinni. Þangað fer athöfnin, þar er presturinn, söngfólkið og aðstandendur saman komnir í Jesú nafni og þar er Jesús því á meðal þeirra.

Þegar pallur hefur verið settur yfir gröfina og lokar henni þá hrópar hann á móti öllu því sem verið er að gera. Pallurinn segir með tilvist sinni. Hér undir mér er staður sem ekki er gott að horfa á. Það er öruggast að sniðganga þennan stað. Hugsum okkur nú að börn fylgi ömmu sinni eða afa til grafar. Hversu miklu eðlilegra er fyrir þau að sjá kistuna á sínum eðlilega stað á leiðarenda þar sem allt er gott og þar af leiðandi bjart, frekar en að skilja eftir í huga þeirra og ímyndun það sem verið er að reyna að fela með þessum palli. Dæmið er ekki gert upp og þar af leiðandi vinnur athöfnin ekki sitt sálusorgunarverk til hlítar. Sannleikurinn er sá að það er erfitt að breyta helgisiðum sem slípaðir hafa verið yfir aldirnar til að mæta þörfum kynslóðanna. Það er búið að sníða af þeim alla vankanta fyrir langa löngu. Ég er fús til að breyta ef fram eru færð þau rök sem bíta á mig en ég hef ekki heyrt þau enn. Þessi athöfn kemur til móts við djúpa þörf þar sem við skiljum í friði við okkar ástvini og gefur okkur þá tilfinningu að við höfum fylgt þeim allt til enda, eins langt og mögulegt var og sættum okkur við þennan stað, sættum okkur við þau örlög sem Guð hefur búið öllu holdi. Okkur líka og þannig göngum við heim í von og trú, því við erum ekki hrygg eins og hinir sem ekki eiga von.
Jafnan er hjá mér sungið yfir opinni gröf síðasta versið af sálmi Hallgríms. Ég lifi í Jesú nafni … Að loknum söng þess erindis syngjum við í beinu framhaldi sálminn nr. 275

Í friði látinn hvíli hér,
nú heim frá leiði göngum vér.
Ó búum einnig oss af stað,
því óðum líður stundin að.

Svo veri dauðinn velkominn,
vér vitum, Jesú, dauði þinn
frá dauðans valdi leysti lýð,
þér lof og dýrð sé fyrr og síð.

Úlfar Guðmundsson.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 6635.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar