Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Jón Aðalsteinn Baldvinsson

Syng Guði dýrð, syng Drottni þökk, vor þjóð…

Syng Guði dýrð, syng Drottni þökk vor þjóð,
að það var hann sem leiddi þig…

Á þjóðhátíðardegi sameinumst við Íslendingar undir hvatningu Tómasar skálds. Við lofum Drottin fyrir þjóð okkar og fósturjörð og þökkum handleiðslu hans um aldir.

Löngum þurfti þjóð okkar að ganga nokkuð grýttan stíg og þeir tímar komu eins og skáldið bendir réttilega á að hún virtist hafa orðið gleymskunni að bráð. Þá var það styrkur hennar að eiga trú og vissu fyrir því, að hvernig sem veltur um veraldarhag, þá mun Guð vors lands aldrei gleyma henni. Þess vegna hefur hún gengið fram í þeirri vissu að Guð geymir tárin hennar í hjarta sér, eins og segir í ljóðinu, og vinnur úr harmi hennar himnesk ljóð. Það var fyrir þá eilífðarsýn sem þjóðin þreyði þorra og góu hinna dimmu alda íslenskrar sögu. Fyrir það kraftaverk hljótum við að vera eilíflega þakklát og þess ber að minnast á þjóðhátíð.

Gæfa okkar Íslendinga er sú að hafa átt Krist að leiðtoga frá fyrstu tíð. Það var í nafni hans sem fyrstu landnemarnir, írskir munkar, stigu á íslenska grund. Í kjölfarið kom fleira kristið fólk sem hafði slík áhrif að trúlega hefur stór hluti þjóðarinnar þegar verið kristinn í hjarta sínu þegar trúin var lögtekin á Alþingi árið 1000. Síðan hafa þjóðin og kirkjan verið eitt.

Á þeim merku tímamótum flutti Þorgeir Ljósvetningagoði ræðu sem var nánast útlegging á því orði Drottins sem seinna var valið til íhugunar á þjóðhátíðardegi: „Þá skulu þeir vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð, og ég skal gefa þeim eitt hjarta og eina breytni”. (Jer. 32.38) Þorgeir vissi mæta vel hvers virði þjóðinni var að eiga eitt hjarta og eina breytni, - einn Guð. Og allar götur síðan hafa okkar bestu menn brýnt það fyrir samtíð sinni.

Ekkert hefur breyst í þeim efnum og því ber að leggja á það áherslu nú sem fyrr. Enginn vafi leikur á því að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill vera kristinn og viðhalda því einingarbandi sem trúin hefur verið og er. Siðferðisvitund þjóðarinnar, lífsmáti fólks, er grundvölluð á kristinni trú. Þá undirstöðu þarf að styrkja eins og kostur er. Framtíðarheill þjóðarinnar er undir því komin að kjarnaatriði trúarinnar séu öllum töm.

Einingarband trúarinnar kemur þó ekki í veg fyrir það að á Íslandi geti búið fólk af ólíkum uppruna og unað hag sínum vel. Þvert á móti eigum við að nota það band til að styrkja þá sem með okkur vilja búa. Æðsta boðorð kristninnar er kærleiksboðið, sem er afdráttarlaust. Þú skalt elska náunga þinn, hver sem hann er. Kristið fólk hlýtur því að ganga á undan öðrum í því að umvefja nýbyggja þessa lands kærleiksörmum og skapa þeim svigrúm til að iðka trú sína og siði.

Gleðilega þjóðhátíð.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2544.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar