Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldóra J. Þorvarðardóttir

Lífssýn

Það er svo sannarlega sumar í sveitum þessa dagana. Og þeir verða vart fegurri dagarnir, en þeir sem nú þegar hafa liðið af júnímánuði. Á kvöldin hefur söngur fuglanna leitt mig inn í draumalandið og vakið mig síðan á nýjan leik að morgni. Náttúran öll skýrðist sínu fegursta skrúði. Í sveitum er sauðburði lokið fyrir nokkru og bændur og fjölskyldur þeirra keppast við að undirbúa heyvinnutækin undir stórátök sumarsins, en slátttur er nú þegar víða hafinn. Þvílík dýrð sem umlykur okkur sem njótum þess láns að búa þetta fagra land.

Já, góður Guð hefur séð okkur fyrir fagurri umgjörð um líf okkar og hann hefur einnig gefið okkur, hverju og einu, vilja og vit til að lifa og haga lífi okkar samkvæmt þeirri lífssýn sem hann hefur sett kirkjunni sinni, fólkinu sínu. Sú lífssýn endurspeglast í virðingu fyrir sérhverju mannsbarni, umburðarlyndi og kærleika til annarra og setur hvert mannsbarn og heill þess í fyrirrúm. Orð okkar algóða föðurs eru þeim sem á hann hlusta sá viti sem sendir leiðbeinandi ljósleiftur til þeirra sem vilja gefa þeim gaum og vísar leiðina í gegnum brotsjó og hafvillur mannlífsins.

Hann lýsir leiðina okkur, - lýsir okkur í gegnum allt það sem lífið leggur okkur hverju og einu á herðar. Hann er með okkur, gleymir engum og hann biður okkur að fara að sínu fordæmi. Hann sagði: - ef þið viljið gera eitthvað fyrir mig, eitthvað sem mér þykir vænt um, þá munið eftir þessum minnstu systkinum mínum. Það viðvik sem þið gerið þeim sem líður illa, af hvaða ástæðum sem er, það er mér sjálfum gert.

Sem sé, - láttu vilja hans móta allt dagfar þitt, hverning þú kemur fram við aðra sem verða á vegi þínum, hvað þú gerir, segir og hugsar. Leyfðu orðunum hans og vilja hans sem kristallast af manngæsku, umburðarlyndi og virðingu, að stýra tungu þinni í umræðu dagsins um strauma og stefnur, menn og málefni.

Líttu á það sem jafn sjálfsagðan hlut að líkna hrjáðu fólki í fjarlægum löndum og vini þínum sem lífið hefur farið um ómjúkum höndum. Vertu jafnfús að líkna svarta barninu með sorgmæddu augun og veita eftirtekt uppivöðslusömum krakkagríslingum sem verða daglega á vegi þínum og hungrar eftir athygli þinni, kærleika og hlýju.

Þetta er það líf og lífsviðhorf sem hann býður upp á ef við viljum njóta leiðsagnar hans. Sláumst með í för. Njótum leiðsagnar hans, ekki aðeins í sumar heldur líka í haust og vetur og alla tíma, - og verðum við bón hans.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3998.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar