Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Elín Elísabet Jóhannsdóttir

Gullfiskurinn og stóru spurningarnar.

Gulli gullfiskur flaut steindauður uppi við yfirborðið í fiskabúrinu. Fallega appelsínugula slörið hans vaggaði rólega í vatninu. Diddi litli stóð við búrið og starði á fiskinn.„Kannski er hann bara sofandi,” sagði hann vongóður. Ég hafði ekki brjóst í mér til þess að draga orð hans í efa upphátt svo ég ákvað að láta fiskinn að liggja í búrinu yfir nóttina og leyfa drengnum að halda í vonina. Þetta var fyrsta reynslan hans af dauðanum.

Morguninn eftir vaknaði snáðinn og flýtti sér að fiskabúrinu. Þarna lá Gulli gullfiskur, jafndauður og daginn áður. Diddi horfði lengi.„Mér sýnist hann hreyfa sig! Sjáðu það hreyfist á honum sporðurinn!” Við ákváðum að bíða ögn lengur.

Beðist fyrirÍ huga mínum vöknuðu ótal spurningar: Hvað veit hann um dauðann? Skilur hann það að fiskurinn vaknar ekki aftur? Hvernig á ég að bregðast við sorginni hans? Hversu mikið veður á ég að gera út úr dauðsfalli lítils gullfisks? Á ég að slá á dramatíkina- eða á ég að leyfa honum að fara í gegnum allan tilfinningaskalann- jafnvel þótt mér finnist tilefnið ekki mjög stórbrotið?

Það stóð ekki á spurningunum, þegar drengurinn var loksins búinn að kveða upp dánarúrskurðinn: „Mamma, ég held að Gulli sé dáinn“ og nú komu tárin og viðbrögðin. Varnarleysi mitt var algjört. Hvað gat ég sagt? Átti ég að lofa að kaupa handa honum nýjan Gulla gullfisk? Var hægt að bæta missinn á þann hátt? Ég ákvað að leyfa mér að vera varnarlausri og leyfa honum að kynnast sjálfum sér í sorginni. Guði sé lof að þetta var ekki meiri missir, flaug í gegnum huga minn.

Við fundum lítinn kassa til að grafa hann í, lögðum hann í kassann og lokuðum honum. Svo fórum við út í garð. Augun á Didda urðu risastór þegar hann áttaði sig á því að nú ætluðum við að jarða Gulla gullfisk. Ég sá á svipnum hans að honum fannst þetta ekki geta staðist. Átti Gulli ekki að fara upp til Guðs og verða lítill fiskaengill? En Diddi er alltaf bjartsýnn og jákvæður og hefur fulla trú á því að mamma viti alltaf best.„Er styttri leið til Guðs ef maður fer fyrst ofan í jörðina?” Ég reyndi að útskýra fyrir honum að líkami Gulla yrði að mold, en sálin færi upp til Guðs. Eftir að hafa jarðað Gulla, sungið Ó, Jesús bróðir besti og beðið litla bæn, sagði Diddi alvarlegur og hugsi:„Ég er hættur við að verða skógarhöggsmaður þegar ég verð stór! Ég ætla að verða Guð! Þá verð ég ódauðlegur. Ég vil aldrei deyja!

Ég reyndi að útskýra fyrir honum að þegar við deyjum fáum við að lifa alltaf hjá Guði. Ég veit ekki hvort hann skildi svarið, né hvort hann heyrði yfirleitt það sem ég sagði og nú greip um sig ákveðin örvænting:„Þegar ég dey, mamma, viltu þá grafa holu fyrir mig og setja mig í hana?”

Þetta var óvænt bón. Hvernig getur maður skilið huga lítils barns? Var hann að biðja um þetta- eða óttaðist hann að þetta yrðu örlög hans? Ég flýtti mér að segja honum að hann myndi örugglega ekki deyja á undan mér en þá snerust vopnin í höndunum á mér:„Hvað verður um mig ef þú deyrð á undan mér?” spurði hann og angistin skein úr augunum. Ég horfði á þennan litla kút og hugsaði með mér hvers konar svör barn þurfi að fá. Dauðinn er félagsleg ógn og það skynjaði barnið allt í einu svo réttilega.„Þá passar pabbi þig” svaraði ég hikandi og í vafa um það hvort ég hefði kannski átt að slá á þessa spurningu með hinu óheiðarlega svari„ég dey ekkert!” En heiðarlega svarið nægði honum og nú gerðist það undarlega, sem ég hafði alls ekki átt von á – og stríddi gegn öllu sem ég hafði áður heyrt um sorg og sorgarviðbrögð: „Get ég þá núna fengið hund?“

Um höfundinn2 viðbrögð við “Gullfiskurinn og stóru spurningarnar.”

  1. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

    >Ég reyndi að útskýra fyrir honum að líkami Gulla yrði að mold, en sálin færi upp til Guðs.

    Ég hélt nú að Þjóðkirkjan játaði upprisu holdsins/mannsins.

  2. Elín Elísabet Jóhannsdóttir skrifar:

    Það getur verið snúið þegar fimm ára barn stendur fyrir framan mann og reynir að skilja dauðann - finnur fyrir óttanum, öryggisleysinu og vonleysinu sem tilhugsuninni um hann fylgir. Hvað vill maður gera annað en hugga barnið og skýra málið á einhvern þann hátt sem það getur skilið? Hvernig mundir þú fara í gegnum svona hluti með litlu barni, þannig að barnið standi eftir sátt við svarið?

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3325.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar