Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Bernharður Guðmundsson

Góðu fréttirnar frá BNA

Þrjár persónur úr þeim jaðarhópum bandarísks þjóðfélags , sem erfiðast eiga uppdráttar við að ná miklum valdastöðum, hafa verið nær daglega í fréttum um allan heim.

Þetta eru auðvitað konan Hillary Clinton, blökkumaðurinn Barach Obama og eftirlaunamaðurinn á áttræðisaldri John McCain sem hafa þreytt baráttu um stöður sem hingað til hafa einvörðungu verið skipaðar hvítum, miðaldra körlum.

Við vitum hvernig málin hafa skipast. Obama og McCain munu væntanlega berjast um valdamestu stöðu heimsbyggðarinnar, forseta BNA. Hillary Clinton hefur hinsvegar rutt brautina alla leið að forsetastólnum, þannig að leiðin er greið fyrir kynsystur hennar þegar tíminn er kominn.

Þetta eru góðar fréttir

Það er markvert nú á tímum mikillar æskudýrkunar að republikanar hafa valið mann á áttræðisaldri sem forsetaframbjóðanda. Þetta er umhugsunarvert hérlendis þar sem lög leyfa ekki að menn haldi opinberu embætti eftir sjötugt. En vestra treysta þeir manni á slíkum aldri til æðstu valdastöðu

Þetta eru góðar fréttir.

Ég sit í starfshópi á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um eldra fólk á vinnumarkaði.

Okkar er að fjalla um hvernig tryggja megi sem best að sá mannauður sem felst í reynslu og yfirsýn eldra fólks nýtist þjóðfélaginu og þeim sjálfum sem best. Margt fólk sem náð hefur eftirlaunaaldri vill gjarnan halda áfram að vinna, meðan aðrir vilja eignast sem fyrst það frelsi sem felst í eftirlaunum. Aðalatriðið er að einstaklingurinn hafi valfrelsið, geti valið hvort hann vinnur launað starf, hversu langan vinnudag og hverskonar vinnu.

Sumu eldra fólki líður ekki alltof vel á vinnustaðnum, þeim finnst gengið fram hjá sér, forræðishyggja þeirra yngri veður uppi og fremur er litið til vangetu þeirra heldur en aukinnar færni sem reynsla og þekking veitir þeim við valin verkefni. Það þarf að skapa vellíðan á vinnustað fyrir allt starfsliðið, sem gerist þegar menn njóta virðingar, fá eðlilega umbun og viðurkenningu og sjá árangur starfa sinna

Kirkjan á sér mikinn mannauð í því fólki sem komið er á eftirlaun, bæði til sjálfboðinna starfa sem og launaðra hlutastarfa. Það er kynslóðin sem getur miðlað reynsluarfinum til þeirra yngri og hefur af miklu að miðla. Samkvæmt nýju íslenskum könnunum býr um 80% fólks á aldrinum 60–80 ára við góða heilsu, hefur engar fjárhagsáhyggjur og tekur ríkan þátt í lífi samfélagsins.

Um 20% hefur hinsvegar einhverjar eða töluverðar fjárhagsáhyggjur og heilsufarið er ekki nógu gott. En slíkar tölur eiga líka við fólk um fertugt. Mýtan um aumingja gamla fólkið átti sannarlega við áður fyrr en tímarnir hafa breyst. Það þarf hinsvegar að hlynna vel að þeim sem búa við bág kjör en það þarf líka að skapa hinum flotta og farsæla hópi eldri borgara verkefni að hæfi þar sem mannauðurinn nýtur sín og verður til gagns og blessunar — rétt eins og republikanar vestra hafa hugsað sér!

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2878.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar