Trúin og lífið
Lífið og tilveran


Leita

Jón Ármann Gíslason

Að staldra við um stund

Sumarleyfi eru almennt að hefjast og margur borgarbúinn mun án efa halda á vit sveitasælunnar um helgina. Það er dýrmætt að geta breytt lífstaktinum um stund, fara í annað umhverfi, eiga góðar stundir með ástvinum sínum, halda á vit náttúrunnar, endurnýja kraftana og snúa heim aftur eins og nýr og betri maður.

Kirkjan kallar okkur til samfélags og endurnýjunar sérhvern sunnudag, í guðsþjónustuhaldi sínu. Kirkjan boðar þar orð hins upprisna Drottins okkur til styrktar og uppbyggingar á lífsgöngunni. Og margar fallegar kirkjur er að finna hringinn í kringum landið, þar sem vert er að staldra við og skoða. Ganga á vit sögunnar og genginna kynslóða sem átt hafa þar skjól og athvarf. Kirkjuhúsinu sjálfu er vissulega ætlað að minna á þá náð Guðs sem ný er á hverjum morgni, helgidómurinn þar sem orðið er boðað og sakramentunum útdeilt. En umfram allt vísar orðið kirkja til samfélags þess fólks sem vill fylgja og treysta Kristi.

Og enn þá sem betur fer, leitar fólk til kirkjunnar á gleði- og sorgarstundunum, enn finnur flest fólk hjá sér þörf til að helga hina dýpstu gleði innan veggja kirkna landsins, bera börnin sín til skírnar, ganga í hjónaband frammi fyrir augliti Guðs og sækja þangað styrk á erfiðustu stundunum. Enginn félagsskapur á viðlíka ítök í þjóðarsálinni. Sumir segja að þessu ráði hefðin ein og þess vegna sé það ekki mikils virði. Hugarfarið sé ekki með. Því er ég ósammála. Orð Guðs er aldrei boðað til einskis, það snýr ekki til baka fyrr en það hefur unnið sitt verk. Margur maðurinn trúir á Guð án þess að hafa svo mjög hátt um það, trúarþörf manna er sterkari en margan grunar.

Og samkenndin sem fólk finnur fyrir á stóru stundunum er ósegjanlega dýrmæt, þar getur helgihald kirkjunnar haft svo mikið að segja. Þegar við finnum að hagur eins er bundinn hag náungans og að við öll skiptum máli og að eitthvað það er til sem er svo dýrmætt. Hin hljóða djúpa helgi, sem er undir, yfir og allt um kring. Þetta finnum við ekki síst í hinum minni samfélögum landsins, og í litlum sveitakirkjunum hringinn í kringum landið. Og margur maðurinn sem flust hefur á brott úr sinni heimabyggð og síðan vitjað heimahaganna, hefur um það vitnað, bæði fyrr og síðar, að þá fyrst var hann kominn heim, - þegar hann var kominn í gömlu kirkjuna sína, þar sem hann var skírður og fermdur.

Ein af nýrri kirkjum landsins er Þorgeirskirkja við Ljósavatn. Sú kirkja er fallegur helgidómur og umhverfið ekki síðra. Hún mun í sumar verða opin að deginum til yfir háferðamannatímann (15. júní – 15. ágúst), þar sem fólk getur komið, staldrað við um stund, skoðað kirkjuna undir leiðsögn starfsmanns og fræðst um sögu Þorgeirs Ljósvetningagoða. Eigir þú, ágæti lesandi, leið um Ljósavatnsskarðið í sumar, hvet ég þig til þess að koma þar við og eiga þar góða stund, endurnýja kraftana – og halda síðan á ný á vit sumarsins.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1640.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar