Trúin og lífið
Lífið og tilveran


Leita

Sigurður Jónsson

Kærleikurinn breiðir yfir allt

Vorkoman hefur ekki farið sér hægt undanfarna daga. Eins og hendi sé veifað hefur sinugulur vetrargráminn vikið fyrir fagurgrænum gróðurhjúpi vorsins, sem leggst yfir landið. En hann gerir meira en að höfða til sjónarinnar, því þessari litríku sýningu fylgir angan úr jörðu, fuglasöngur í lofti og svo hin góða tilfinning vorkomunnar, þetta innra andvarp eftir langan vetur og dimman: Loksins er komið vor, og skilningarvitin öll fara á stjá og hrífast með. „Aftur vorar í sálinni á mér“ söng Pálmi Gunnarsson af andríki og þrótti fyrir nokkrum áratugum. Þeirri reynslu deila margir, að hafa fundið birta upp innra með sér, og fyllst nýjum þrótti, áræði og dug til að takast á við hverja þá hindrun sem á veginum varð, þegar vorið kom með endurnýjandi lífhjúp sinn og lagði smyrsl á sár hins liðna.

Kærleikurinn breiðir yfir allt, segir Páll postuli. Kærleikurinn er í líkingu hans værðarvoðin sem hlífir manneskjunni, hlúir að henni, hylur mein hennar, leggst yfir áhyggjur hennar. Þannig er vorkoman ein fjölmargra birtingarmynda kærleika Guðs, sem gefur sköpun sinni fæðu hennar á réttum tíma, lyftir upp hendi sinni og seður allt sem lifir með blessun.

Á hinn bóginn eigum við mannfólkið það til að breiða yfir hlutina í öðrum skilningi og í öðrum tilgangi. Það gerum við til að fela það sem er óþægilegt og ekki þolir dagsljósið, hyljum það eða sópum því undir teppið. Þá skal allt líta vel út hið ytra, þannig að allir sem sjá það sem við blasir á yfirborðinu telji að allt hljóti að vera í stakasta lagi. Íburður yfirbreiðslunnar verður í öfugu hlutfalli við ástand og gildi þess sem hún hylur. Við berumst á til að leyna innri fátækt, sækjum fastar og lengra inn á gróðurvana lendur neyslunnar til að draga athyglina frá strönduðu fleyi lífshamingjunnar, nemum hvergi staðar, finnum sálum okkar enga hvíld.

Jafnvel spegilgljáandi krómið á hjólkoppum líkbílsins veitir þráða svölun á þessari för, í þessum kappakstri, meðan það nær að fegra og bregða birtu yfir mína eigin mynd og hylja um leið verk mín og vafamál lífs míns, allar mínar grómteknu, illa hertu felgurær og óþéttu legur, mettaðar sandblandinni koppafeiti minna óuppgerðu saka við Guð og náungann.

Kærleikurinn breiðir yfir allt. Hann mun að síðustu breiða voð sína yfir jarðneskar leifar mínar, hylja syndir mínar og bresti, rétta af allt sem fór á skjön í lífi mínu, og grænt grasið mun einn indælan vordag ræta sig og taka að spretta á leiðisþúfunni minni. Áður en sá dagur rennur vona ég að Guð gefi mér enn fleiri möguleika og tækifæri þessa heims til að líta elsku hans augum allt í kring um mig, skilja og finna að allt það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Kærleikurinn breiðir yfir allt”

  1. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

    Takk fyrir þennan pistil, hann vekur upp áhugaveðrar spurningar og það er gott.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2537.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar