Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Karl Sigurbjörnsson

Gleðilega hátíð heilags anda!

Hvítasunna er þriðja stórhátíð kirkjuársins, hátíð heilags anda. Hún á sér fornar rætur. Hvítasunnan var hátíð frumgróðans með Gyðingum, hátíð hinnar fyrstu uppskeru vorsins. Þá kom fólk saman í musterinu til að þakka Guði fyrir gjöf lífsins og jarðargróða. Hátíð, sem eins og okkar hátíðir og guðsdýrkun, eru tilraun til að setja sér fyrir sjónir og tjá undrið mikla, djúpa, stóra, að við þiggjum lífið úr Guðs hendi til að gefa það áfram.

Á hvítasunnu varð kirkjan til

Á hvítasunnuhátíðinni í Jerúsalem, fimmtíu dögum eftir upprisu hins krossfesta Jesú, varð kristin kirkja til fyrir kraft heilags anda. Kirkja Krists er frumgróði nýrrar sköpunar, fyrirheit um þann auð, þá ríkulegu uppskeru, þann fögnuð, sem í vændum er þegar vilji Krists og vald verður allt í öllu. Þegar allir múrar falla, allir fyrirvarar víkja, tortryggnin og trúleysið víkja fyrir kærleika og gleðiríkri von.

Heilagur andi er áhrifamáttur Guðs. Sköpunarmátturinn, sem í árdaga sveif yfir vötnunum og skóp ljós og líf. Heilagur andi er áhrifamáttur Guðs, sem var að verki þegar Kristur læknaði, mettaði, tendraði von og trú, bað fyrir mótstöðumönnum sínum og böðlum og sem vakti hinn krossfesta Krist af gröf. Þessi sami áhrifamáttur Guðs hreif nú fólk til trúar og eftirfylgdar við Krist, til að vitna um hann og upprisumáttinn hans í heiminum, í lífi og verkum og vitnisburði hversdagsins, vera áhrif hans, hendur, vottar og verkfæri. Nýtt mannkyn varð til, óháð mörkum tungumála, þjóðernis, kynþátta. Ný þjóð, nýtt mannkyn ætlað að vera súrdeig, salt og ljós í heiminum í fylgd frelsarans mót nýjum himni og nýrri jörð þar sem réttlætið býr, þar sem elska hans hefur ummyndað allt, og hann hefur gert alla hluti nýja.

Í tærum vorblæ heilags anda

fáum við að sjá kross og upprisu, líf og verk frelsarans, og líf og örlög okkar öll. Í þeim sama anda vorum við skírð, endurfædd fyrir vatn og heilagan anda, til að lifa í ríki hans, vaka og vinna og vitna. Í þeim anda komum biðjum við: „Tilkomi þitt ríki, verði þinn vilji.“ Og leitumst við að vera bænheyrsla þeirrar bænar, með því að fylgja honum, treysta og hlýða, færast honum nær, líkjast honum meir. Í einum anda skírð og kölluð og send út til trúar og fylgdar, nýsköpun hans, sem um síðir mun gera alla hluti nýja.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2831.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar