Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Hörður Áskelsson

Forspil eilífðarinnar?

Kirkjuklukkurnar á sunnudagsmorgnum kalla þig til veislu í helgidóminum, í veislusal sem minnir á veislusal eilífðarinnar, himnaríki. Þar er bjart og hlýtt, á borðum hið besta fæði, bæði fyrir líkama og sál. Þar er spilað og sungið eins og í öllum góðum veislum, þar er lofsöngur sunginn, bæn tónuð, sálmur kyrjaður og orgelið þanið. Tónlistin þjónar bæði hinu ytra og innra, hún setur veislunni ramma og hún dýpkar áhrif orðanna. „Tvöföld er sungin bæn“, sagði Lúther, þetta á líka við um lofsönginn. Kannski er það einmitt þessvegna sem tónlistin skipar svo háan sess í guðsþjónustunni allt frá upphafi.

Höfundur pistilsins spilar á orgel HallgrímskirkjuSöngur kristinna er jafn gamall og guðsþjónustan. Sú aðferð að syngja Guðs orð á sér rætur í sálmasöng synagógunnar, löngu fyrir tíma kristinnar kirkju. Frá upphafi þar sem kristnir komu saman í Jesú nafni hefur eflaust verið sungið, sbr. Kol 3, 16: „Fræðið og áminnið hver annan með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum og syngið Guði sætlega lof í hjörtum yðar“.

Litúrgía guðsþjónustunnar og helgidómsins hefur nýtt áhrifamátt tónlistarinnar til að fylgja eftir þessum fyrirmælum postulans, að gera lofsöng hjartans „sætlegan“ er verkfæri heilags anda til að opna hjörtun fyrir áhrifamætti Orðsins, í guðsþjónustinni er tónlistin yfir, undir og allt um kring.

Forspilið í messunni blandast hljómi kirkjuklukknanna, orgeltónarnir marka upphaf þjónustunnar, þeir gefa tóninn fyrir það sem koma skal, gefa til kynna hvaða stef dagurinn hefur, minna á að helgidómurinn er heilagur, frátekinn fyrir hina heilögu athöfn. Inngöngusálmurinn lyftir hjörtunum upp móti morgunsólinni, miskunnarbænin túlkar auðmýktina og dýrðarsöngurinn jólagleðina. Söfnuðurinn og kórinn svara lestrunum með lofsöng og guðspjallið er túlkað í söng guðspjallssálmsins, trúarjátninguna er hægt að „tvöfalda“ með því að syngja hana.

Eftir prédikun heldur tónlistin áfram. Hún er svar safnaðarins við útleggingu prestsins, stundum flutt af kirkjukór, börnum eða einsöngvara, hún getur líka gefið tóninn fyrir hina almennu kirkjubæn. Söfnuðurinn svarar bænunum, „Drottinn, heyr vora bæn“, þetta svar má líka syngja.

Máltíðin við borð Drottins er umvafin tónlist, englasöngurinn Heilagur er hápunkturinn. Hann hefur fengið mörg tónskáld til að skapa sín fegurstu verk. Undir útdeilingu má syngja sálm, leika á orgel, flytja viðeigandi kórsöngva eða njóta þagnar, sem líka er tónlist. Að lokum syngja allir „Amen“, lokasálmurinn bergmálar það, lofgjörð og þökk. Orgelið setur lokapunktinn og fylgir þér eftir út í lífið, með öllum sínum verkefnum.

Guð gefur fyrirheit um eilífð, þar sem lífið er ein samfelld guðsþjónustu. Þar er tónlistin í öndvegi, klukknahljómur, englasöngur, orgelspil, hörpuómar og bumbusláttur. Sunnudagsmessan er forspil fyrir eilífðina.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2886.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar