Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldór Elías Guðmundsson

Fólk á ferð

Í fermingarfræðslunni þá segjum við unglingunum frá því að kirkjan sé ekki hús heldur fólk. Reyndar látum við stundum liggja á milli hluta hvaða fólk eða hvað það merkir að kirkjan sé fólk. Til að hjálpa unglingunum þá notum við líkingu Páls postula sem segir kirkjuna líkama, þannig sé ein manneskja eins og augun, önnur eins og hönd, sú þriðja eins og munnur.

Þessi líking Páls er hins vegar ekki aðeins gagnleg vegna þess að hún bendir á mismunandi hlutverk okkar, heldur ekki síður vegna þess að líkaminn er lífrænn. Þannig hjálpar líkamalíking Páls okkur að skilja að kirkjan er síbreytileg og gengur í gegnum margskonar þroskaferli. Guðfræðingurinn Douglas John Hall talar um að í frumkristni hafi kirkjan verið skilin sem hreyfing en ekki stofnun eða félag. Douglas talar um kristna sem „fólk á ferð“ og það að vera kirkja er að slást í för með fólki á ferð.

Einhver kann að spyrja hvert ferðinni sé heitið, hvað gerist þegar líkaminn er orðinn fullvaxta. Svarið er Guðs. Ferðin sem kirkjan er í, er ferð Guðs, viðbrögð við kalli Skaparans.

Ferðalag fólksins er ekki hættulaust. Það er hættulegt að hlaupa af stað við minnsta áreiti og leitast við að gera öllum til geðs alltaf, alls staðar. Þegar við reynum að vera öllum allt, verðum við engum neitt, eða endum í versta falli með að þjóna þeim stærstu og háværustu á kostnað þeirra sem eru mjóróma og lágværir.

Það er hins vegar auðveldara að falla í þá gryfju að gleðjast yfir góðri tónlist, vönduðu helgihaldi, glæsilegum byggingum og áhyggjulausu fjármálasambandi við ríkisvaldið og ákveða að sitja sem fastast og fara ekki neitt. Þannig brást Pétur lærisveinn Jesús við þegar hann stóð frammi fyrir Elía, Móses og Jesús (Mk 9.5).

Ferðalag okkar er þroskaferli. Að setjast niður og hvílast hefur sinn tíma, að rísa á fætur og ganga hnakkreistur veg réttlætis og friðar hefur sína stund.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3307.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar