Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Elín Elísabet Jóhannsdóttir

Ætlum við að setja Guð á Þjóðminjasafnið?

Einu sinni var maður sem átti 100 sauði. Hann týndi einum þeirra og skyldi hina 99 eftir og fór að leita að þessum týnda.

Þetta er ein af þekktustu dæmisögunum Biblíunnar þar sem sagt er frá kærleika Guðs gagnvart okkur mannfólkinu sem hann elskar sem einstaklinga – en ekki eingöngu sem hóp.

Þessi saga hefur þó upp á síðkastið leitað á huga minn vegna breyttrar stöðu kristninnar á Íslandi. Getur verið að snúa megi tölunum í þessari sögu við og segja frá manni sem átti 100 sauði og týndi 99 þeirra og skyldi þennan eina eftir og fór að leita að hinum 99?

Um það bil 90% þjóðarinnar tilheyrir kristnum trúfélögum. Samt er eins og ákveðinnar feimni – eða ef til vill misskilinnar tillitssemi gæti þegar kemur að því að kenna kristinfræði í skólum, eða þegar rætt er um samstarf kirkju og skóla. Nauðsynlegt er að velta því fyrir sér hvort kristni eigi að fá meira vægi í trúarbragðakennslu hér en önnur trúarbrögð í ljósi menningarsögu.

Íslendingar eru sagðir annálaðir fyrir gestrisni og auðvitað viljum við taka vel á móti öllum. Við viljum vera umburðarlynd gangvart lífsskoðunum og menningu annarra. En verðum við ekki að huga að því sem við eigum sjálf - um leið og við tökum vel á móti öðrum?

Til þess að geta tekið á móti fólki með annan bakgrunn í sátt og með fullu umburðarlyndi, þurfum við sjálf að vita af hvaða rótum við erum sprottin. Við megum gæta þess að Guð og kristni sé ekki eitthvað sem við komum haganlega fyrir í geymslu á Þjóðminjasafninu.

Við þurfum ekki að þurrka út okkar menningu og skoðanir til þess að vera umburðarlynd. Umburðarlyndi er ekki það sama og afstöðuleysi. Það að skilja ekki eigin rætur, stuðlar eflaust frekar að því að okkur verði ómögulegt að setja okkur í spor annarra og skilja rætur þeirra.

Hvað ætlum við að gera til þess að vernda trúarlegan menningararf okkar, t.d. ef kristinfræðikennsla er á undanhaldi í skólunum og þekking þjóðarinnar á eigin trúarlegum menningararfi er að verða hverfandi lítil? Hvernig er rétt að mæta þessu vandamáli?

Er möguleiki að menningarlegur mismunur verði vandamál 21. aldarinnar með blöndun menningarheima? Hvað er þá til ráða til þess að vernda það sem fyrir er og auka hæfni manna til þess að takast á við það flókna verkefni að búa í sátt og samlyndi við fólk af ólíkum uppruna.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3531.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar