Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Guðrún Eggertsdóttir

Gleðidagar

Gleðidagar eru þeir kallaðir dagarnir milli páska og hvítasunnu.

Ekki vegna þess að brosvísitalan hækkar eða sælugengið stígur. Ekki vegna þess að við erum útlærð í því að setja upp mismunandi bros eftir því hverjar aðstæðurnar eru.

Heldur vegna vegna þess að þá dveljum við áfram í skini páskaboðskaparins, gleðilegasta boðskapar sem hægt er að hugsa sér. “Hann lifir – hann er upp risinn.”

Og þetta tímabil, gleðidagana, er þess sérstaklega minnst í kirkju og trúarlífi hvernig lærisveinarnir nutu samverunnar við hinn upprisna Jesús.

Þær samverustundir glöddu og sú gleði var hvorki yfirborðsleg né skammvinn, heldur djúpstæð og ómælanleg. Svo öflug og mikil að hana var ekki hægt að hemja, hún varð að fá útrás. Hún gaf kraft og kjark til þess að standa upp, segja öðrum frá, jafnvel kalla á torgum.

Þá þurfti ekki að leita að brosinu, það lýsti upp andlit þeirra sem heyrt höfðu og meðtekið boðskapinn. Það smitaði útfrá sér. Í því var engin uppgerð, enginn hroki. Ekkert gat kæft það, jafvel ekki hótanir um refsingar og ofsóknir.

Þau sem hlýddu á boðskap lærisveinanna undruðust mælsku þeirra, öryggi og gleði. Þessara óbrotnu alþýðumanna (Post. 4.13) sem höfðu enga þjálfun í ræðumennsku, rökvísi eða því að vinna aðra á sitt band.

Það sem knúði þá áfram var gleðin. Gleðin og fullvissan um það að boðskapur Jesú átti erindi við alla. Ekki bara fáeina útvalda, eða ákveðinn hóp fólks. Heldur alla, allar þjóðir (Mt 28. 19), allt þetta venjulega fólk eins og þau sem Jesús hafið kallað til fylgdar við sig. Fólk eins og hirðana á Betlehemsvöllum og konurnar við gröfina sem höfðu fengið að heyra fagnaðarboðskap englanna. “Yður er í dag frelsari fæddur.” og “Hann er upp risinn.” Sem höfðu fengið það hlutverk að bera boðskapinn áfram. Allt þetta venjulega fólk eins og mig og þig.

Og nú er það okkar að bera boðskapinn áfram, hvort sem við stöndum og tölum á torgum eða samkomum, eða berum honum hljóðlátt vitni með framkomu okkar og dagfari.
Gleðiboðskapurinn á erindi til allra. Það hefur ekkert breyst. Hann er okkar allra, ekki bara þeirra sem eru betri, fallegri, duglegri, ríkari eða hressari en þú, heldur einmitt þinn.

Guð gefi að þú heyrir hann og meðtakir á þessum gleðidegi.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3188.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar