Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Irma Sjöfn Óskarsdóttir

Gengi viskunnar

“Gef oss ei gáfur og snilli,
Af gjöfum þeim var áður nóg,”

Ljóðrænan í lífinu er svo skemmtileg, í henni felst það sem allir skilja en öðrum tekst svo stórkostlega að koma í orð. Í ljóði Jóns úr Vör sem vitnað var hér í er þessu þannig farið og þau hafa komið æ oftar í hugann síðustu vikur og mánuði þar sem maður og markaður hafa bundist í darraðardansi.

Í þessum krappa dansi hefur samkeppni daganna hamast. Hvar dagur kallar á ný svör, nýtt tilfinningarót og alltaf myndar maður sér skoðanir, ræðir málin og dregur ekki af sér þegar kemur að því að leggja fram gagnrýnina, lóðin á vogarskálar umræðunnar. Að morgni dags eru samin og snyrt harmkvæli fyrir nýjan dag, sum koma úr eigin hugskoti en önnur verða til á samleið með blöðum og miðlum ýmiskonar .
Já og svo bætir Jón úr Vör við ljóðrænu lífsins í ljóðinu sem áður var vitnað í:

…heimur vor og hjörtu eru í rústum.”

Við heyrum spádóma um gengisfellingu allra gilda, markmiða og lífsskoðanna. En er þetta virkilega svona ? Eru rústirnar einar eftir og lokaðar leiðir ? Þegar ágjöfin verður öflugri í samtíma svikinna loforða sem enginn breyskur maður man eftir að hafa gefið um eilífa hagsæld og endalausa framför greinist undursamlegt samspil getu og vanmáttar. Þá felst styrkurinn í að geta séð sundin lokast en um leið greint glufurnar sem hægt er að smjúga út um og greint framundan nýjan dag. Horfa frá rústunum, sem allar gáfurnar og snillin komu okkur í og leita hvar visku og lífskraft er að finna…muna eftir orðunum úr 90. Davíðssálmi þar sem segir:

“Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta “

Þegar allt gengur vel þá hættum við að telja dagana af því við sitjum við stjórnvölinn og enginn annar telur enda verða dagarnir eins margir og við óskum og fyrirhyggjan hverfur, viskan þrýtur og þá er hjartað innantómt og Guð hverfur úr huga okkar . Það er gott að telja daga sína, treysta Guði og eignast viturt hjarta því þá veit maður hvað bíður en meðan mynd nútímamannsins af öryggi er sjónhverfing, án Guðs, þá er viska hjartans lítils metin og dagarnir óteljandi. Svo koma dagar þegar við reynum og gerum okkur grein fyrir að gáfur og snilli…allt það undraflóð af mætti mannsins er nóg…svo nóg að við höfum misst sjónar af raunverulegum markmiðum lífsins. Viturt hjart kallar á auðmýkt og vit til þess að ganga í sig, endurmeta, fyrirgefa, horfa út til lífsins.

• • •

Stundum er eins og og dagarnir séu í samkeppni um gleði eða sorg og þegar sorgin vinnur verður allt hljótt og angurværðin ríkir, dagar eru taldir og það sem skiptir máli er ljóst. Lífið er góð gjöf en vandmeðfarin, gott líf er ekki sjálfgefið og enn síður langt líf, margir dagar. Í óvissu tímans er gott að nauðsynlegt að eiga góða að og best er að eiga Guð að, höfund lífsins, gjafarann.

Það er gott að eiga viturt hjarta, það er gott að eiga daginn í dag því þá er alltaf hægt að gera betur, vera betri við þá sem næstir manni standa, betri við þá sem þurfa á umhyggju okkar að halda og samstöðu.  Gott að sjá hvað lífið er okkur dýrmætt og hversu gott er að geta vænst þess að telja nýjan dag í safn áranna.  Það er þetta sem gerir dagana raunveruleg verðmæti, ómetanlega, og telur þá ekki í tugum eða miljörðum heldur í mikilvægi augnablikanna sem mynda daginn. Þetta er tíminn sem við fáum til að spreyta okkur, bæta og vera til,  með minna af gáfum og snilli en meira af samfylgd Guðs, visku og bæn…..

“Gef oss trú hins einfalda manns,
sem ennþá væntir sér góðs.” (Jón úr Vör)

Um höfundinnEin viðbrögð við “Gengi viskunnar”

  1. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

    Takk fyrir þennan pistil Irma. Hér er gott nesti inn í dagsins önn og hvatning – eða kannski áminningin – sem felst í þessum orðum svo holl:

    Viturt hjart kallar á auðmýkt og vit til þess að ganga í sig, endurmeta, fyrirgefa, horfa út til lífsins.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3134.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar