Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Ragnheiður Karítas Pétursdóttir

Ég á mér draum

Ég man litlar hendur sem flettu bók með svarthvítum myndum. Þessi bók var til á bernskuheimili mínu og ég sem barn, sótti í vita sem mest um þessa sögu, þetta fólk sem birtist svo ljóslifandi fyrir augum barnsins á myndunum á síðum bókarinnar. Þetta fólk sem átti sér drauma og hugrekki til að berjast fyrir þeim. Fólk sem bjó yfir einurð og þolgæði til að ganga veginn til réttlætis og foreldrar mínir sögðu mér frá og útskýrðu.
Bókin hét Ég á mér draum og fjallaði í máli og myndum um mannréttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum.

Mér finnst sem með þessari bók hafi ég fyrst orðið vör við að heimurinn er ekki fullkominn, en einnig skynjaði ég fegurð í þeirri samstöðu og mannréttindahugsjón sem birtist í baráttu blökkumanna.

Um þessar mundir eru liðin 40 ár frá dauða Marteins Lúhers King Jr., en titill bókarinnar er tilvísun í ræðu sem hann flutti árið 1963 í Washington. Honum var mikilvægt að frelsis og jafnréttisbarátta blökkumanna væri án ofbeldis. Formerki baráttunnar og helsta tæki hennar var því hugtakið án ofbeldis.

Því eins og King benti á er ekki hægt að hrekja á brott myrkur með myrkri, heldur einungis með ljósi og ekki er hægt að hrekja á brott hatur með hatri, heldur einungis með kærleika.
Okkur mönnum hefur hlotnast mesta kærleiksverk allra tíma því Jesús Kristur hefur sigrað dauðann og gefið okkur fyrirheit um eilíft líf. Líf hans og starf var vissulega ekki án glímu og átaka, en í boðskapi hans er ekkert rúm fyrir ofbeldi. Frekar en myrkur í ljósi. Boðskapur Jesú Krists er og ætlaður öllum mönnum. Þar er enginn undanskilinn
Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Segir Páll postuli (Gal 3:28)

Aldrei hefur verið mikilvægara en nú fyrir okkur mannfólk að leggja okkar að mörkum að byggja þessa jörð í jöfnuði, friði, samstöðu og kærleika.

Friður á jörð hlýtur að vera sameiginleg ósk okkar allra. Von og bæn. Þó heyrum við daglega ógnarfréttir af ofbeldi og óöld. Mannréttindasamtökin Amnesty international, hafa gefið út yfirlýsingu um að ofbeldi fari vaxandi í heiminum og verði sífellt grófara, grimmara og ljótara.

Að mínu mati á ofbeldi á sér oftast uppsprettu í ótta og þrífst í aðgerðaleysi. Það er velþekkt hvernig ótti og ofbeldi getur farið úr böndunum.

Það er almennt ekki svo, ákveðinn hópur eða einstaklingur búi yfir illsku í eðli sínu. Heldur höfum við öll val um að breyta rétt eða rangt.

Óttinn er þó eðlilegur hluti af manninum og lífi hans. Ef við hins vegar látum óttann ná tökum á okkur, munum við stjórnast af honum. Við getum séð hvernig valdabrölt og óhæfuverk eru oft hvött af ótta og örvæntingu. Þjóðir óttast aðrar þjóðir, trúarbrögð önnur trúarbrögð, menn óttast að missa það sem þeir eiga og að eignast ekki það sem þeir girnast.

Óttaefnin eru mörg. Og sennilega verðum við seint sammála um hvað ber að óttast, en óttinn fangar okkur í eigin höft. Innikróuð í vanlíðan reynum við svo að brjótast út og skeytum ekki um hvað fyrir verður. Við erum ekki svo ólík dýrunum að þessu leiti innikróað og óttaslegið dýr hvæsir, bítur og klórar.

Jesús Kristur hefur boðað okkur að það er ekkert að óttast. Við getum óhrædd treyst því að hann leiðir okkur, reisir og styrkir. Hjálpar okkur að glíma við óttann, sigrast á honum.

Þess vegna trúi ég að draumur okkar um jöfnuð allra manna verði að veruleika. Draumur Marteins Lúthers King um að dag einn muni hver dalur hækka, hver hæð og hvert fjall lækkað, hinir hrjúfu staðir gerðir sléttir, dýrð Drottins opinberuð og að allir menn muni sjá það í sameiningu.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3459.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar