Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Elín Elísabet Jóhannsdóttir

Svörtu sólgleraugun hennar Mörtu

Stundum er ég„Marta”. Þá mæðist ég í mörgu. Þá hef ég áhyggjur af öllu sem úrskeiðis fer, gengur ekki nógu hratt eða ekki eftir mínu höfði. Hugmyndaflugið hleypur með mig í gönur og ég set á mig svörtu sólgleraugun og horfi dökkum augum á allt í kringum mig og velti því fyrir mér hve allt sé nú erfitt og miklar hættur í hverju horni. Krónan á hraðri niðurleið, bensínverðið á hraðri uppleið svo almenn dæmi séu tekin.

Ég held að ég sé ekki„Marta” þegar ég geri húsverkin, tek á móti gestum eða sinni mínum daglegu störfum. Þau eru öll eðlilegur þáttur í lífi mínu- eitthvað sem ég jafnvel get notið að gera. Ég held að stundum sé ég hreinlega „María” þegar ég tek á móti gestum- því mér finnst gaman að taka á móti gestum og gera vel við þá. Þá finnst mér ég hafa valið góða hlutann. Meira að segja hef ég staðið mig að því að vera„María” þegar ég hengi þvottinn upp á snúrur niðri í þvottahúsi.

Það er hægt að horfa á söguna um Mörtu og Maríu frá fleiru en einu sjónarhorni, rétt eins og hægt er að gera með svo margar aðrar frásagnir Biblíunnar.

Okkur hættir dálítið til að dæma Maríu í sögunni um þær systur. María var ekkert að hjálpa til! Við getum vel tekið undir óánægju systur hennar sem stóð í ströngu á meðan Jesús og lærisveinar hans voru gestkomandi hjá þeim. En er það í rauninni boðskapur sögunnar að þeir- eða öllu heldur kannski oftast þær sem standa í heimilisstörfum og striti séu ekki að gera rétt – hafi hreinlega ekki valið rétt starf eða stöðu? Boðskapur sögunnar er miklu frekar sá að við eigum að„setjast niður og hlusta á Jesú” þ.e.a.s. njóta nærveru hans og leggja allt í hans hendur.

Að vera„María” er að kunna að njóta, er að kunna að leggja sjálfa sig, alla aðra og allt annað í hendur Guðs. Að vera„María” er að kunna að slaka á í erli dagsins, jafnvel þegar mikið er að gera. Jafnvel í miðju atinu og án þess að okkur falli verk úr hendi.

,,María” þarf kannski að hengja upp úr þvottavélinni, láta börnin sín læra heima eða sinna þeim þegar þau eru veik en hún gerir það bara svolítið öðruvísi en„Marta”.

,,Marta” mæðist í mörgu og hefur áhyggjur. Hún hengir mædd upp úr þvottavélinni. Henni vex í augum uppeldi barnanna, er með stöðugt samviskubit og fer nánst yfir um af áhyggjum ef eitthvað bjátar á.„Marta” hefur nefnilega ekki lært að leggja alla hluti í hendur Guðs og treysta því að Guð muni vel fyrir sjá. Að Guð muni veita hjarta hennar og sálu hvíld í amstri dagsins.
Ég vil heldur velja góða hlutann og vera„María” sem þarf að stússast í ýmsu og hleypir Jesú inn í þann hluta lífs síns, en vera„Marta” sem mæðist í mörgu og þarf að hafa öll bönd í sínum höndum af tómum kvíða yfir því að eitthvað fari nú úrskeiðis.

Tökum nú af okkur„svörtu sólgleraugun hennar Mörtu” og horfum björtum augum á allt það sem lífið býður okkur upp á.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3525.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar