Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Toshiki Toma

Nágrannar og kynþáttafordómar

Flest þekkjum við dæmisöguna um miskunnsama Samverjann nokkuð vel. Þetta er dæmisaga sem Jesús notaði til þess að kenna okkur hver sé náungi okkar, en stundum sýnist mér að sagan sé misskilin þannig að við höldum að Jesús sé að segja að við skulum veita fólki í erfiðleikum hjálparhönd. Sönn áminning dæmisögunnar er hins vegar þessi:„Þegar við skilgreinum nágranna okkar á einhvern hátt t.d. eftir stéttaskiptingu í samfélaginu, þjóðerni eða siðvenju, þá föllum við í fordóma og mismunun, þar sem skilgreining um nágranna okkar er sjálfkrafa skilgreining um það hverjir séu ekki nágrannar okkar. Því við eigum að vera nágrannar sjálf fremur en að velja okkur nágranna“.

Fordómar og mismunun, hvort sem um er að ræða kynþáttamisrétti eða annars konar mismunun, fylgir röksemd sem stendur á rangri forsendu eða illum huga. Gallupkönnun á Íslandi fyrir nokkrum árum sýndi að töluverður hópur í þjóðfélaginu vill ekki hafa múslima og geðsjúklinga í nágrenni sínum og einnig sjást fjölmörg dæmi um neikvæða umfjöllun um múslima eða útlendinga í fjölmiðlum og í netheimi. Hver sem ástæðan er sem liggur að baki þess viðhorfs, má segja að slíkt er einmitt tilraun til þess að skilgreina það„hverjir eru nágrannar okkar og hverjir ekki“ eða hitt að menn vilja „velja nágranna sína“.

Ég ætla ekki að neita því að það gerist stundum í lífi okkar að við mætum einstaklingi með sérstök vandamál, eins og neyslu eiturlyfja eða ofbeldisfulla framkomu, og við viljum því ekki eiga í miklum samskiptum við hann. En það er stór munur milli þessa tveggja, annars vegar að bregðast við áþreifanlegum vandamálum sem eru til staðar í raun og hins vegar að alhæfa svo um hóp manna í þjóðfélaginu að við afþökkum öll samskipti við einstaklinga úr þeim hópi. Síðar nefnda eru bókstaflegir fordómar sem ekki er hægt að fela undir forsendum forvarna. Forvarnarstarf leiðir okkur í meira öryggi og uppbyggingu betra samfélags, en fordómar skapa aðeins hatur meðal manna og aukið misrétti.

Fordómar og mismunun eru oftast hugsuð frá sjónarhorni þolenda þeirra. En í þessari smágrein langar mig líka að benda á hina hlið málsins, sem er það að ef haldið er fast í fordóma og mismunun þá skaðar það mannkosti þess sem ber slíkt með sér. Ef maður lætur fordóma sína vera, munu þeir stjórna manni algjörlega með tímanum og búa til sjálfsréttlæti og sjálfsánægju, eins og fræðimennirnir eða farísearnir sem Jesús gagnrýnir oft í Biblíunni. Að lifa í sjálfsréttlæti og sjálfsánægju er langt frá hinu eftirsóknarverða lífi kristinna manna og þeirra sem virða dýrmæti mannlífsins.

Fyrr í þessum mánuði var haldin Evrópuvika gegn kynþáttafordómum og misrétti. Henni lauk þann 23. mars, á páskadegi. Ég óska að sérhvert okkar hugsi um eigin fordóma og meti mikilvægi þess að verða nágranni þeirra sem búa í sama samfélagi.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Nágrannar og kynþáttafordómar”

 1. Steindór J. Erlingsson skrifar:

  Sæll Toshiki

  Takk fyrir áhugaverða hugvekju. Umræða um fordóma er alltaf mikilvæg, en eins og málum er nú háttað í íslensku samfélagi er þessi umræða mjög brýn. Rétt er hins vegar að ítreka að fordómar, hvort sem þeir beinast að útlendingum, glæpamönnum, trúarskoðunum eða geðsjúklingum, finnast ekki bara hjá “Jóni” því þeir finnast þeir einnig hjá “sr. Jóni”. Gott dæmi um þetta er að finna í grein eftir mig sem birtist í Morgunblaðinu síðastliðið haust (“Tíu litlir geðsjúklingar”, 30. 11. 2007) þar sem ég fjallaði um rannsóknir á fordómum geðheilbrigðisstarfsmanna gegn geðsjúklingum. Niðurstöður rannsóknanna eru sláandi því að í ljós kemur að fordómar þessara stétta eru ekki mjög frábrugðnar fordómum almennings í garð geðsjúkra. Það sem er enn meira sláandi er að geðlæknar reyndust fordómafyllsta geðheilbrigðisstéttin. Í niðurlagi greinarinnar segi ég: “Í ljósi þess sem hér hefur komið fram virðist mega draga í efa að skarpar framfarir verði í réttindabaráttu notenda [geðsjúkra] ef þeir ætla alfarið að treysta á geðheilbrigðisstarfsfólk og aðra velviljaða einstaklinga til þess að tala máli sínu. Því miður virðist menntun og reynsla þessara fagstétta ekki nægja til þess að bægja frá þeim fordómum sem prentaðir hafa verið í huga þeirra frá barnæsku” (hægt er að nálgast greinina hér, http://www.raunvis.hi.is/~steindor/10litlir.html ). Eins og dæmin sanna á þetta því miður einnig við um sumt samstarfsfólk þitt sem á erfitt með að leyna órökstuddum fordómum sínum gegn trúleysi og samkynhneigð.

  Eins og þú bendir á í greininni skaða fordómar ekki bara þolandann heldur einnig gerandann: “ef haldið er fast í fordóma og mismunun þá skaðar það mannkosti þess sem ber slíkt með sér. Ef maður lætur fordóma sína vera, munu þeir stjórna manni algjörlega með tímanum og búa til sjálfsréttlæti og sjálfsánægju” Við sem tökum þátt í opinberri umræðu um trúmál ættum öll að taka þessi orð til okkar því fordómar okkar eitra ekki bara þá sem verða fyrir þeim heldur einnig okkur sjálf. Í ljósi fyrri og fordómafullra ummæla biskups um trúleysi þá hljóta eftirfarandi orð í páskaprédikun hans að teljast til tíðinda: “Það er því miður alveg áreiðanlegt að trú er í sjálfu sér engin trygging fyrir siðgæði og sönnum dyggðum. Siðlausa og siðblinda menn er eins að finna meðal trúaðra og guðlausra”. Ég er hins ekki sammála setningunni sem fylgdi strax í kjölfarið: “Allt mannlegt eðli hneigist til sjálfshyggju og eigingirni”. Burt séð frá því gengdarlausa bruðli sem ríkt hefur í fjármálaheiminum undanfarin ár er hér um að ræða órökstudda og fordómafulla fullyrðingu sem gengur m.a. í berhögg við rannsóknir svissneska hagfræðingsins Ernst Fehr og félaga sem leitt hafa í ljós að auk eigingirni sé óeigingirni manninum eðlislæg. En augljóslega er vægi þessara eiginleika mismikið í hverjum einstaklingi.

  Við sem fjöllum opinberlega um trúmál verðum að passa okkur á að festast ekki í ritum sem einungis gagnrýna þær lífsskoðanir sem við eru ekki sammála. Ef við “heilaþvoum” okkur með þessu móti litast allt sem við setjum frá okkur af fordómafullum alhæfingum eins og “religion poisons everything” eða “trúleysi ógnar mannlegu samfélagi”. Sjálfur reyni ég af veikum mætti að kynna mér “hina hliðina” og langar mig í því sambandi að benda þeim sem þetta lesa á mjög áhugaverða bók sem ég er að lesa um þessar mundir. Bókin heitir Divided By Faith: Religious Conflict and the Practice of Toleration in Early Modern Europe og er eftir sagnfræðiprófessorinn Benjamin J. Kaplan (Harvard, 2007). Þar kemur fram að umburðarlyndið sem við töku sem sjálfsagðan hlut í dag varð ekki til á einni nóttu við “byltingu” Upplýsingarinnar, þar sem “skynsemin” varð “trúnni” yfirsterkari:

  “The history of early modern Europe suggests a different view. It demonstrates that, even in communities that did not know our modern values, people of different faiths could live together peacefully. Even in profoundly religious communities where antagonisms were sharp, religion was not not a primitive, untameable force. In the centuries between Reformation and French Revolution, Europeans discovered that, in practice, they could often manage and contain confessional conflict. As limited, tension ridden, and discriminatory as their accomidations and arrangements were, they can open our eyes to the unique qualities of the toleration we practice today …”

  Kveðja,
  Steindór J. Erlingsson
  http://www.raunvis.hi.is/~steindor/

 2. Guðbjörg Jóhannesdóttir skrifar:

  Kærar þakkir sr. Toshiki fyrir þarfa áminningu sem ég tek til mín. Orð þín um ósk þess efnis að sérhvert okkar hugsi um eigin fordóma og meti mikilvægi þess að verða nágranni þeirra sem búa í sama samfélagi vekja !

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4153.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar