Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Jóhanna Ingibjörg Sigmarsdóttir

Krossinn

Yfir kirkjudyrum Eiðakirkju er ævaforn róðukross. Enginn veit með vissu um aldur hans eða tilurð, en útlit allt og form bendir til að hann sé frá kaþólskri tíð.

Í árlegri kirkjuheimsókn grunnskólabarnanna á Eiðum fyrir jól fékk ég eitt sinn áleitna spurningu. Eftir að hafa hlýtt á jólasöguna, sungið og spjallað saman var gengið úr kirkju. Þegar við vorum að kveðjast við kirkjudyrnar varð einum drengjanna litið upp á krossinn og hann spurði:„Hver er þetta?” Þetta er Jesús, svaraði ég en fékk um leið aðra spurningu:„Hver lét hann þarna?” Eftir nokkra umhugsun sagði ég:„Mennirnir.” Það svar lét hann sér nægja.

Já, mennirnir afneituðu Jesú og reistu honum kross. Þess minnumst við á föstudaginn langa sem er dagur sorgar og kyrrðar. Krossinn er miðlægur í kristinni trú.

Föstudagurinn langi tjáir ekki aðeins það sem er liðið heldur einnig það sem er. Boðskapur föstudagsins langa fjallar um fyrirgefningu Guðs.

Réttlæti Guðs felst í því að Jesús tekur á sig brot okkar og synd. Í okkar hlut kemur fyrirgefningin. Vegna krossdauða Jesú Krists er fyrirgefning Guðs skilyrðislaus. Fyrirgefningin er einu sinni fyrir alla, þar sem að Jesús dó einu sinni fyrir alla menn. Krossinn líkist því eldingavara sem leiðir hið illa út úr heiminum. Þess vegna er krossinn miðlægur í kristinni trú.

Að fyrirgefa er að falla frá kröfum um að hinn brotlegi bæti fyrir brotið. Það að fyrirgefa felur í sér að stöðva útbreiðsluáhrif hins illa, þar sem það er látið vera að flytja það áfram sem hefnd.

Fyrirgefning Guðs er hvatning til okkar að fyrirgefa öðrum. Að fyrirgefa er eitt hið erfiðasta í þroskaferli mannsins. Ef við getum ekki fyrirgefið, festumst í erfiðum tilfinningum eins og biturð og hatri sem eru andstæða kærleikans.

Krossinn er líka tákn um vonina. Þegar við notum tákn krossins, berum hann sem skart eða hengjum á vegg, merkir það að við játum trú á hinn krossfesta og upprisna og viljum eignast eilíft líf með Guði, láta hann móta líf okkar og samskifti við aðra menn.

Á föstudaginn langa birtist okkur óendanlegur kærleikur Guðs. Kærleikur sem er svo sterkur að hann er tilbúinn að ganga í dauðann og svo sterkur að hann sigrar dauðann því að á eftir föstudeginum langa koma gleðilegir páskar.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2908.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar