Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Bernharður Guðmundsson

Ég sakna föstunnar …

Ég sakna margs, vegna þess að ég hef fengið að lifa góðu og fjölbreyttu lífi. Mig langar þó ekki sérstaklega að lifa einhver ákveðin tímabil aftur, vegna þess að hvert tímabil hefur sinn þokka – og erfiðleika. En ég sakna margs og nýt þeirra minninga. Þetta er sumt smávægilegt, en felur kannske í sér dýpri og víðtækari reynslu en virðist í fljótu bragði.

Ég sakna til dæmis jólaeplanna, glampandi rauð og ilmandi voru þau boðberar jólanna, skópu tilhlökkun og eftirvæntingu sem bjó okkur undir komu hátíðarinnar.

Nú fást eplin alla daga og hafa misst sinn jólaþokka - og ég er snauðari en ella.

Ég sakna föstunnar, ég sakna þess tíma er hún setti sinn lit á dagana fram að páskum.

Á föstunni var lífstakturinn hægari, kirkjan skóp aðstæður til að hugleiða pínu Krists og dauða. Það voru föstumessur í miðri viku í flestum kirkjum þéttbýlisins og þeim var gjarnan útvarpað. Þá var aðeins ein útvarpsrás og þjóðin öll var vör við lestur Passíusálmanna. Það voru umræður um lesturinn, áherslur og andagift lesarans, eins og þegar Jón skáld Helgason eða systir Steins Steinars lásu. Og við vorum látin læra valin vers úr sálmunum í skólanum.

En nú hefur kirkjan mín fellt niður föstumesssur og gert pálmasunnudag og skírdag að fermingardögum, sem gerir það að verkum að menn minnast síðustu kvöldmáltiðar Krists og þjáningar hans í grasgarðinum með íburðarmiklum fermingarveislum

Ég sakna föstudagsins langa í æsku minni. Það var manni hollt að leiðast og verða ögn dapur, aðeins þessvegna náði gleði páskanna að hjartanu. Því hvað felst í því núna þegar fólki er óskað gleðilegra páska, ef það hefur ekki lifað hryggð föstunnar.

En ég þakka hinn almenna lestur Passíusálmanna í kirkjunum á föstudaginn langa. Þar skapast andrúm fyrir fólk til þess að opna sig fyrir boðskap og reynslu föstunnar. Og sérílagi vil ég þakka Grafarvogskirkju í Reykjavík að lesa einn sálm á dag alla föstuna.

RÚV heldur áfram að senda út lestur Passíusálmanna en kynning þess er of takmörkuð

Ég þakka líka það úrval af góðu lesefni til nota á föstunni sem Skálholtsútgáfan hefur gefið út til handa fólki í margskonar aðstæðum.

Og ég þakka nýja útgáfu Biblíunnar, hún er gullfalleg útlits og auðveld aflestrar. Þar er Píslarsagan sögð á góðu og skýru máli. Þar finnum við veruleika föstunnar, í einrúmi eða með öðrum. Þar opnar Guð okkur kærleika sinn sem birtist í hinum magnþrungnu atburðum dymbilvikunnar, í fórn Krists og þjáningu, í friðþægingu hans og dauða.

Og hann vísar okkur mót upprisunni – páskunum.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3640.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar