Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigurður Ægisson

Hvílík bók!

Það er ákaflega lærdómsríkt og gaman að fletta blöðum hins liðna tíma, og sjá hvernig á málum var þar tekið og haldið. Fyrir skemmstu rakst ég á eftirfarandi texta úr Frækorninu, og eru þeir báðir frá árinu 1900. Finnst mér við hæfi á Biblíudeginum að gefa lesendum örlitla innsýn í, hvaða álit fyrri tíðar einstaklingar höfðu á Heilagri ritningu, og nota til þess 108 ára gömul orð, sem jafnframt eiga að minna okkur á, hvað allar breytingar eru nú örar, málfars- og aðrar, að hratt flýgur stund, en að ritverkið mikla stendur óhaggað, þrátt fyrir allt, í miðri straumþungri elfunni, eins og rammgerður klettur, sem ekkert fær hnikað eða grandað.

Fyrri klausan er úr 5. tölublaði, og er á þessa leið:

Fyrir hér um bil 100 árum síðan hélt hinn mikli guðsafneitari Voltaire á Frakklandi, að endir biblíunnar væri kominn. „Á minna en 100 árum,“ sagði hann, „mun biblían vera horfin á burtu, og ekki vera annars staðar að finna en í forngripasöfnum og bókasöfnum til endurminningar þess tíma, þegar ungir menn voru svo grunnhyggnir, að þeir trúðu henni.“ -

Undarlega hefir saga þessarar aldar svarað þessum orðum hans. Níu tíundu hlutar af íbúum jarðarinnar geta lesið og skilið biblíuna á þeim málum, sem hún er gefin út á. Ameríska biblíufélagið hefir gefið út biblíuna á 30 tungumálum. Á síðustu 45 árum hefir þetta félag gefið út 14.468 bækur fyrir blinda, og eru þær partar af heilagri ritningu. Þær eru prentaðar með upphækkuðum bókstöfum, og verða lesnar með þreifingu. Á 71 ári hefir það alls breitt út 48.324.916 eintök af biblíunni, nýjatestamentinu og pörtum af biblíunni.

Árið 1887 sendu bæði félögin (brezka biblíu félagið og ameríska biblíufélagið) alls út meira en 5.000.000 eintök. Síðan þessi biblíufélög voru stofnuð hafa alls verið gefin út yfir 12.000.000 eintök. Þannig eru þá meira en 103.000.000 eintök að heilagri ritningu send út um heiminn. Á seinni hluta síðustu aldar voru um 4.000.000 einstök af biblíunni til í heiminum. Þetta er sannarlega undraverð breyting og framför á tæpri öld.

Og í 13. tölublaði, sama ár, er verið að fjalla um umsagnir annarra þekktra manna varðandi heilaga ritningu. Þar er þetta:

Hinn þýzki fríhyggjumaður Heinrich Heine segir með aðdáun: „Hvílík bók! Umfangsmikil og að víðáttu eins og alheimurinn, með rætur sínar í regindjúpi sköpunarinnar, og tinda sína í hinum leyndardómsfulla himinbláma. Sólarupprás, sólarlag, fæðing og dauði, fyrirheit og fylling fyrirheita, allan hinn mikla sjónleik mannkynsins hefir þessi bók inni að halda.“

Ernest Renan, franskur vantrúarmaður, segir: „Hinar gyðinglegu og kristilegu frásögur hafa verið átján alda gleði, og þær hafa undrunarvert afl til þess að bæta siðina. Biblían er hinn mikli huggari mannkynsins, hvað svo sem sagt er.“

John Milton segir: „Það eru engir söngvar til, er jafnist á við Zíons söngva, engar prédikanir til líkar spámannanna, og engin stjórnfræði á við þá, er vér fáum lært af heilagri ritningu.“ Og um ritninguna í heild sinni segir hann: „Ég vildi óska að ég verðskuldaði að vera talinn með þeim, er dást að ritningunni og lesa hana kostgæfilega.“

Isaac Newton: „Vér álítum biblíuna vera hina háleitustu heimspeki.“

Walter Scott: „Fáðu mér bókina!“ sagði hann á banabeð sínum. „Hvaða bók?“ spurði Lochard, tengdasonur hans. „Bókina“, svaraði Water Scott, „biblíuna. Það er að eins ein bók til.“

Charles Dickens skrifar syni sínum á þessa leið: „Ég bæti nýju testamenti við bækurnar þínar, því það er hin bezta bók, er nokkuru sinni hefir verið og mun vera þekt í heiminum.“

Thomas Carlyle: „Í biblíunni hefir mannsandinn um þúsundir ára fundið ljós og líf og svör viðvíkjandi instu spurningum hjartans.“

Ruskin: „Alt það er ég hefi lært á verksviði íþróttarinnar, alt það, er ég hefi ritað, allar mínar háfleygustu hugsanir og það er ég hefi unnið í lífi mínu, á blátt áfram rót sína að rekja til þess, að þegar ég var barn, þá las hún móðir mín daglega kafla úr ritningunni fyrir mig, og lét mig læra utan bókar kafla úr henni á hverjum degi.“

Napoleon I.: „Ég læt aldrei hjá líða að lesa ritninguna, og daglega les ég hana með sömu ánægju. Hvergi finnast aðrar eins hugsanir, háleitar og miklar, hvergi aðrar eins aðdáanlegar siðferðislegar lífsreglur.“

William E. Gladstone: „Hver efast um, að vissir hlutar ritningarinnar ótal sinnum ryðja sér braut til mannssálarinnar, alveg eins og væru þeir himneskir boðberar, er hefðu það að marki og miði að hugga, leiða og verma?“

John Wesley: „Eitt þarf ég að þekkja - leiðina til himins. Á hvern hátt fæ ég óhultur stigið fæti mínum á hina himnesku strönd? Guð hefir sjálfur birt mér leiðina, hann hefir sýnt mér hana í bók einni. Ó, gefðu mér þá bók! Um fram alla muni veraldar, gefðu mér þá bók drottins! Ég á hana: Hún hefir inni að halda nægan vísdóm fyrir mig.“

Orðin, sem höfð eru eftir Voltaire, eru því frekar neyðarleg.

Nýjustu upplýsingar um Biblíuna eru þær, að hún er mest selda og lesna bók allra tíma. Búið er að þýða hana á u.þ.b. 2.500 tungumál og mállýskur. Vefsetur Guinness World Records áætlar að um 2.500.000.000 (2,5 milljarðar) eintaka hafi verið seld í heiminum síðan 1815!

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3763.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar