Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigurður Ægisson

Gutenbergsbiblían

Einhver glæsilegasta og frægasta prentbók allra tíma er Gutenbergsbiblían, sem þrykkt var upp úr miðri 15. öld í borginni Mainz í Þýskalandi.

Biblían, trúarrit kristinna manna, er upphaflega rituð á hebresku (Gt.) og grísku (Nt.); örlítið brot er á arameisku (Gt.), móðurmáli Jesú. En menn tóku snemma að þýða hana úr frummálunum. Á 3. öld f. Kr. er Gamla testamentið til á grísku og á 2. öld e. Kr. Nýja testamentið á sýrlensku. Um miðja 3. öld hefur Biblíunni allri verið snúið á latínu, að því er menn telja, á 4. öld á gotnesku og koptísku, og á 5. öld á armenísku. Önnur tungumál fylgdu svo í kjölfarið.

Á einhverjum tímapunkti ákvað Híerónýmus kirkjufaðir, lærdómsmaðurinn mikli, sem uppi var á 4. og 5. öld, að þýða Heilaga ritningu upp á nýtt á latínu, og dvaldi m.a. í 30 ár niðri í helli þeim nærri Betlehem, sem Jústínus píslarvottur hafði fundið á 2. öld og talið vera nákvæman fæðingarstað Jesú, við að þýða Gamla testamentið úr hebresku, en ásamt Nýja testamentinu, sem hann lauk við áður en hann kom til Palestínu, er það texti Vúlgötu, sem í tæpar sex aldir var eina Biblía Íslendinga, þ.e.a.s. frá kristnitöku og til siðbreytingar, 1551, og enn er höfuðbiblía rómversk-kaþólskra manna um heim allan.

Víkur nú sögunni til ársins 1400. Þá fæddist í borginni Mainz í Þýskalandi Johannes Gensfleisch zur Laden zum Gutenberg, er síðar gerðist málmsmiður og uppfinningamaður og varð frumkvöðull prentlistarinnar, eins og við þekkjum hana. Fyrstu bækurnar voru þrykktar á árunum 1444–1445, ýmis smárit, en á árunum 1455–1456 sýndi hann fram á yfirburðagetu þessarar nýju, lausstafa tækni með því að prenta sjálfa Biblíuna – en það hafði aldrei verið gert áður – og selja á 300 flórínur eintakið. Þetta var umtalsvert lægra verð en handskrifuð Ritning kostaði.

Blaðsíður, alls 1.282, voru tvídálka. Og textinn var einmitt áðurnefnd þýðing Híerónýmusar, er svo vel og lengi hafði nært kristinn lýð um víða jörð.
Flestir álíta að upplag Gutenbergsbiblíunnar hafi verið eitthvað um 180 eintök, þar af 135 sett á pappír (en hann komst í notkun í Evrópu seint á miðöldum, hafði borist þaðan frá Asíuþjóðum með Aröbum) og 45 á skinn, en einnig sjást tölurnar 150 og 30. Biblíurnar voru hver um sig lýstar (handskreyttar) eftir á, sem gerir það að verkum að engar tvær eru eins. Einnig munu þær til í ólíkum gerðum af öðrum sökum.

Áður hafði það tekið 1–2 ár að rita eina slíka bók. Því er ljóst, að hér var bylting á ferðinni, þótt vissulega hafi undirbúningur prentunarinnar tekið langan tíma. Átti þetta líka eftir að hafa gífurleg áhrif á alla framþróun og skipa Jóhanni Gutenberg á bekk með almestu hugvitsmönnum mannkynsins.

Svo liðu aldirnar.

Upp úr 1920 keypti bóksali í New York, Gabriel Wells, skemmt pappírseintak Gutenbergsbiblíunnar, leysti það í sundur og bauð áhugasömum til kaups. Slík blöð fara nú á tímum einstök á 1,5 og upp í 7 milljónir íslenskra króna, eftir ástandi þeirra og vinsældum ritningargreinanna.

Árið 1978 var Gutenbergsbiblía í heilu líki seld á uppboði fyrir 154 milljónir króna. Níu árum síðar, hinn 22. október 1987, keypti japanskur maður, Eiichi Kobayashi, Gamla testamentið eitt og sér og borgaði fyrir það tæpar 380 milljónir króna.

Árið 1995 seldust Boðorðin tíu (2. Mósebók 20:1–7) á rúmar 5 milljónir króna. Árið 1998 fjögur blöð á 6 milljónir króna. Árið 1999 eitt blað á um 2 milljónir króna.

Í byrjun 21. aldar munu einungis 48 eintök vera til af þessari einhverri fegurstu prentbók allra tíma. Og löndin sem eiga þau eru: Austurríki (1), Belgía (1), Japan (1), Portúgal (1), Pólland (1), Sviss (1), Danmörk (2), Rússland (2), Spánn (2), Vatíkanið (2), Frakkland (3), Bretland (9), Bandaríkin (10) og Þýskaland (12). En af þeim eru bara 16 heil, þ.e.a.s. 12 pappírs og fjögur bókfells; hin mismikið sködduð.

Er mælt, að ef Gutenbergsbiblía kæmi á markað einhvers staðar í náinni framtíð myndi hún ugglaust seljast á 7 milljarða króna.

Annars er hún nú aðgengileg á stafrænu formi á Netinu, m.a. á slóðinni www.gutenbergdigital.de.

Til eru margar styttur af Jóhanni Gutenberg, en ein hin kunnasta, í Mainz í Þýskalandi, er gerð af öðrum snillingi, myndhöggvaranum góðkunna Bertel Thorvaldsen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4055.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar