Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Ingþór Indriðason Ísfeld

Um mannlega skynsemi – hugsað upphátt

Íslendingar hafa löngum lagt mikið upp úr lærdómi, skynsemi og rökhyggju. En svo hafa þeir líka lagt mikið upp úr trú, trúrækni (ekki alltaf af kristnum uppruna), draumum, skáldskap, draugasögum, álfum, huldufóki o.s.fr. Allt þetta sýnist rúmast í þjóðarsálinni.

Við og við koma upp raddir sem halda því fram að trú og vísindi eigi enga samleið. Þegar dýpra er skyggnst kemur í ljós að í raun er litið á trú sem hugsanagang sem ekki samrýmist skynsemi og rökrænni hugsun. Í þessu sambandi er oft gengið út frá því að öll trú, eða öllu heldur öll trúarbrögð, séu eins. Í íslensku þjóðfélagi er þó oftast átt við kristna trú, þegar talað er um trú og trúmál.

Aðrar raddir heyrast sem leggja áherslu á gildi trúar og líta svo á að mannlegri skynsemi séu mikil takmörk sett. Þegar önnur þessara radda heyrist þá rís hin gjarnan upp til andmæla og af verður deila um trú og vísindi, um gildi kristinnar trúar annars vegar og skynsemi og rökhyggju hins vegar, um tilveru Guðs eða alheim án guðs.

Gagnlegt er að gefa gaum að þeim hugtökum sem hér eru til meðferðar, annars vegar skynsemi og rökhyggju og hins vegar trú og trúarbrögð.

Ég hygg að yfirleitt hafi fólk í huga hæfileika til bóknáms og rökrænnar hugsunar þegar talað er um skynsemi. Önnur hugtök koma þó hér til greina. Talað er um greind þegar átt er við skynsemi í víðari merkingu. Ég fletti til gamans upp á orðinu greind í ensk-íslensk-enskri veltiorðabók og þar leggst greind út sem intelligence eða cleverness. Orðið skynsemi er þýtt: sense, reason, intelligence. Loks fletti ég upp á sense sem þýtt er á íslensku með: skilningarvit, skyn, tilfinning, skilningur, skynsemi, vit.

En hvert leiðir þetta grufl? Það kemur mjög skírt fram þegar hugsað er á tveim tungu-málum hvernig orð hafa misbreiða merkingu og hversu mörkin milli orða og hugtaka eru oft loðin og orð á einu máli nær yfir hluta af tveim orðum á öðru máli. Orð eru oft ekki mjög nákvæm tákn til að túlka hugsun okkar og reynslu. Samanburður á orðum á tveimur eða fleiri tungumálum vekur okkur líka til frekari umhugsunar um dýpri merkingu orða á okkar eigin máli.

Tökum til dæmis orðið skynsemi. Skyn vísar til tilfinninga og við vitum að rökræn hugsun og tilfinningar vilja stundum stangast á. Mér virðist svo sem það felist í íslensku máli að hugtakið skynsemi feli í sé meira en rökræna hugsun. Skynsemi tekur tilfinningar, eða tilfinningu, með í reikningana. Skynsemi hyggur að staðreyndum og raðar saman hlutum og atburðum í rökræna heild, en hún takmarkar sig ekki við slíkt. Skynsemin teygir sig út fyrir mörk rökrænnar hugsunar inn í heim tilfinninganna til að ná tökum á nýju og stærra samhengi. Þannig hafa framfarir í vestrænni menningu gerst, þá er mannshugurinn leitar nýrra lausna, dreyminr um nýja heima. – Thinking outside of the box, eins og sagt er á ensku máli. - Hér kemur til innsýn eða það sem á ensku máli kallast intuition, hugdettur – dásamlegt orð – hugmyndir detta í hugan eins og þrumur úr heiðskíru lofti, en koma ekki eftir beinum leiðum rökrænnar hugsunar. Þannig er oft unnt að tjá í tónlist, myndlist, látbragði og dansi, svo eitthvað sé nefnt, það sem erfitt er að tjá með orðum.

Skynsemin safnar ekki einungis og raðar saman heldur greinir hún einnig á milli hluta og hugtaka. Þessi hlið skynseminar sýnist mér ekki síður mikilvæg heldur en samsetning kerfa. Lífið er flókið og ákaflega margbreytilegt. Greint fólk sýnir hæfileika til að gera mun á því sem varðar meira og því sem varðar minna, á því sem er til góðs og því sem er til skaða, á aðalatriðum og aukaatriðum. Sumir teljast skynsamir á þann máta að eiga auðvelt með að læra af bók og taka próf, en kunna lítt að fara með það sem þeir hafa lært. Þá skortir greiningarhæfileika, eða greind. Sumir hafa lítið lært af bókum, en eru mjög greindir, hafa mikinn hæfileika til að tileinka sér það sem best er í reynslu og samskiftum við fólk og kunna vel að fara með þá þekkingu sem þeir hafa aflað sér.

Á síðastliðinni öld var mjög í tísku að leggja fyrir fólk greindarpróf og var sá mælikvarði talinn sýna greind og var það gjarna útlagt á þann veg að það mældi skynsemi þeirra sem gengu undir prófið. Með reynslu og tíma fóru menn að sjá að þessi próf náðu ekki að gefa sanna mynd af skynsemi yfirleitt. Nú á seinni árum hafa verið gerðar tilraunir til að semja ný próf sem næðu til að mæla skynsemi á breiðara sviði. Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt og ritað um svonefnda tilfinningagreind. – Ha! Komin inn á svið tilfinninganna! – Skrifað hefur verið um þessi efni með talsverðum fjálgleik og er oft látið í ljós að hér sé um að ræða nýjar uppgötvanir. En mér sýnist að hér sé alls ekkert nýtt á ferðinni. Það má sjá á íslensku máli að forfeður okkar hafa lengi skilið þessa vídd skynseminnar. Það sést af stofni orðsins skynsemi.

Vandi margra í nútímanum er sá að það er svo mikill hraði á öllu og hávaðinn slíkur að lítill tími gefst til að hugsa. Nútíminn er svo yfirfylltur af efni að ekki gefst tími til að læra sögu og viðhalda forðabúri visku fotíðarinnar. Margur nútímaspekingurinn heldur að hann hafi uppgötvað eitthvað nýtt þegar hann nær með tánum að snerta hæla spekinga fortíðarinnar. Það er ekki nóg að vera takkafimur!

En hvað um trú og trúarbrögð?

Það er um þetta að segja að hér nálgumst við efni sem er ákaflega stórt og víðtækt. Þegar borin eru saman trú og vísindi þá verður að hafa í huga að orðið trú er mörgum sinnum víðtækara að merkingu heldur en orðið vísindi. Þegar vísindum er teflt gegn trú og trú gegn vísindum verður slík deila fljótt ófrjó sökum þess hve vísindi eru afmarkað svið en trú snertir nær allt sem nöfnum má nefna í mannlegri reynslu. Slík umræða verður lík því er tveir menn tala saman og annar talar ekki um neitt nema bíla, en hinn talar um reynslu sína af dvöl í framandi landi.

Rökræn hugsun setur sér takmörk. Vísindin vinna samkvæmt reglum rökrænnar hugsunar. Ef við takmörkum okkur stranglega við að hugsa aðeins innan takmarka rökrænnar hugsunar þá komumst við fljótt að því að við verðum að útiloka margt og mikið af mannlegri reynslu, þrengja og takmarka líf okkar. Í trú leitar hugurinn út fyrir sjóndeildarhring rökrænnar hugsunar.

Ég get með engu móti séð trú og skynsemi sem andstæður. Meðal þeirra sem ég þekki til eru mörg sem játa og iðka kristna trú sem eru framúrskarandi skynsöm og önnur sem eru miður gefin, jafnvel einföld. Sum eru vel menntuð, önnur lítt menntuð, sum hugsa af mikilli rökfestu, önnur reika meira og treysta á innblástur og tilfinningar, jafnvel drauma. Slíkt hið sama má segja um þau sem afneita allri trú (þótt guðleysi sé að vísu trúaratriði út af fyrir sig!).

Bandaríkjamaðurinn, Francis S. Collins, einn af merkustu erfðafræðingum nútímans, sem veitt hefur forustu Erfðagreiningarverkefni Bandaríkjanna (The Human Genome Project), hefði tæpast fengið þá stöðu ef hann væri ekki fær vísindamaður og skaraði framúr í sinni grein. Collins er einlægur trúmaður. Hann hefur skrifað læsilega bók um kristna trú og vísindi, sem nefnist The Language of God. Með þessum titli á hann við að hann sér í samspili erfðaeininganna tungumál Guðs (eða tjáningarmáta Guðs).

Einn merkasti eðlisfræðingur samtíðarinnar, Bretinn Stephen W. Hawking, er tæpast talinn aukvisi á skala rökhyggju og skynsemi. Hann skrifaði bókina A Brief History of Time, From the Big Bang to Black Holes. Þar segir (á bls. 122): „The whole history of science has been the gradual realization that events do not happen in an arbitrary manner, but that they reflect a certain underlying order, which may or may not be divinely inspired.“ (Öll saga vísindanna hefur smám saman leitt til skilnings á því að það sem gerist verður ekki af tilviljun, heldur endurspegla atburðirnir vissa undirstöðu reglu í tilverunni, sem ef til vill er guðlega innblásin, en ef til vill ekki.)

Ég skil Hawking þannig að hann sé að segja að hingað og ekki lengra sé unnt að ná með rökrænni hugsun. Semsagt að mannleg vísindaleg hugsun eigi sér takmörk. En skynsemi hans leyfir honum að segja sem svo að lengra megi halda í trú á Guð, eða í trú að að enginn guð sé til.

Nú eru eru ýmsir sem virðast segja sem svo að við eigum ekkert erindi að seilast út fyrir þau mörk sem rökræn hugsun setur okkur. Til eru guðleysingjar á okkar tímum sem segja sem svo að öll trúarbrögð séu rugl sem enginn heilvita maður geti lagt sig niður við. Nú heyrast reyndar háværar raddir um að öll trúarbrögð séu beinlínis hættuleg. Sú athugasemt sýnist mér byggjast á þeirri útbreiddu skoðun að öll trúarbrögð séu eins. Slíkar fullyrðingar sýna ótrúlega vanþekkingu og víst fer ekki mikið fyrir rökrænni hugsun og vandaðri upplýsingu á þeim bæjum. Sú hugmynd að öll trúarbrögð séu hættuleg hygg ég að renni undan rifjum þeirra sem notfæra sér þá ógn sem stafar af vissum hreyfingum innan Islam og vilja reyna að mála kristina með sömu litum.

En hvað um það, ýmislegt er gert í nafni kristinnnar sem ekki er til eftirbreytni og margt er sagt sem ekki er sérlega gáfulegt. (Merkilegt í þessu sambandi hvernig orðið gáfur gerir ráð fyri Guði sem skapar og gefur!). Hitt er eins víst að ekki er mjög gáfulegt að loka augunum fyrir takmörkum mannlegrar skynsemi. Ekki sýnist heldur gáfulegt að ætla sér að þröngva allri mannlegri hugsun inn í ramma vísindanna. Vísindaleg hugsun lýtur vissum afmörkuðum reglum. Vísindamenn vinna að því sem hægt er að sanna með endurteknum tilraunum. Margt verður betur skilið og hannað með slíkum aðferðum, en ennþá fleira er það í mannlífinu sem ekki lýtur slíkum reglum.

Þau sem neita tilveru Guðs og telja að enginn grundvöllur sé fyrir trú á Guð vilja takmarka umræðuna innan marka mannlegrar skynsemi í þrengri merkingu þess orðs, innan ramma rökrænnar hugsunar. Þetta kemur oft þannig út að þau vilja ekki viðurkenna neitt sem er utan þeirra eigin sjóndeildarhrings.

Sögð er saga af kristniboða sem fékkst við að þýða guðspjöllin á tungumál ættbálks nokkurs. Hann lenti í vandræðum með hugtakið von og fann ekkert orð yfir það í máli þessa ættbálks. Svo kom að því að hann embættaði við jarðaför konu nokkurrar. Hann reyndi sem best hann gat og með ýmsum orðum sem hann kunni í máli innfæddra að tjá hina kristnu von um upprisu til nýs lífs í himnesku ríki Guðs. Eftir útförina átti hann tal við syrgjendur og nú kom í ljós að fólkið hafði skilið hvað hann átti við. Á þeirra máli var von það sem var handan sjóndeildarhringsins.

Von, er eitt af þessum fyrirbærum sem ekki rúmast vel innan rökrænnar hugsunar. Þetta er gömul viska. Í Hebreabréfinu í Nýja testamentinu segir: Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá. (Hebr. 11:1).

Er þá öll von tálvon? Er allt tálvon sem ekki er rökræn vissa fyrir? Er ástin tálvon?

Jafnvel á sviði vísinda er útkoma ekki stöðug og óskeikul. Vísindi þróast og það sem í gær þótti vísindalega sannað sýnist fráleitt í nýju ljósi. Fjöldi framúrskarandi vísindamanna hafa trúað í einlægni á Guð. Niðurstöður og ávinningur vísindanna nást ekki altaf eftir beinum leiðum rökrænnar hugsunar. Visindamenn fá hugdettur og innblástur á stundum, hvatning þeirra er oft von og vilji til að verða bræðrum sínum og systrum til gagns með því að lina þjáningu sjúkra og létta byrðar þeirra sem erfiða.

Að mínu viti er ástæðan fyrir því hve mjög vísindi hafa þróast í löndum þar sem áhrifa gætir frá kristinni trú sú, að trúin opnar huga manna fyrir stærri og víðari sýn. Án Guðs er horft á þetta líf, hugsað innan takmarka mannlegrar rökrænnar hugsunar. Án Guðs smækkar tilveran og lífið endar í myrkri og dauða. Með trú á Guð skapara alheimsins færist sjóndeildarhringurinn út fyrir líf og dauða og um leið út fyrir takmörk mannlegrar hugsunar á hverjum tíma. Á meðal trúarbragða í Indlandi er tilveran hringrás og lítið breyttist um aldaraðir. Á meðal kristinna manna á tilveran sér upphaf og endi sem renna saman í eilífð Guðs. Kristnir menn líta fram og upp, yfir sjóndeildarhringinn. Alheimurinn er ekki í kyrrstöðu eða hringrás, heldur er öll tilveran á lífi og hreyfingu. Sköpun Guðs er dásamleg og leitin til Guðs leiðir til löngunar til að skilja betur, sjá lengra, lengra út í tilveruna, lengra fram í tíma og rúm og lengra inn í smæstu eindir lífsins.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3286.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar