Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Svavar A. Jónsson

Gistihús umburðarlyndisins

Jól eru margslungið fyrirbæri. Þau eru mikil neysluveisla. Landsmenn eyða stórum fjárfúlgum í fatnað, mat og gjafir fyrir jólin. Jólin eru efnhagslega mikilvæg. Góð jólaverslun skiptir sköpum fyrir marga kaupmenn.

Jól eru líka einfaldlega frí. Að vísu eru ekki allir í fríi á jólunum, til að mynda við prestarnir, en þá eru flest fyrirtæki lokuð. Skólarnir gefa frí á jólum. Flestar opinberar stofnanir loka sínum dyrum á jólunum.

Sannarlega eru jólin veraldleg. Þeim fylgja alls konar þessa heims siðir. Jól eru ekki bara kristileg og á það hefur verið bent að jól voru haldin löngu áður en Jesús fæddist.

Engu að síður er ekki hægt að horfa framhjá því að jól hafa trúarlega merkingu í hugum flestra landsmanna. Sú merking er ef til vill mismikil og ristir ekki alls staðar jafn djúpt, en óhætt er að fullyrða að stór hluti landsmanna fagni jólum sem fæðingarhátíð Jesú Krists.

Á mínu æskuheimili voru hvers konar veraldlegir jólasiðir viðhafðir en mér var innrætt að kjarni jólanna væri fæðing Jesúbarnsins í Betlehem. Það kenni ég líka mínum börnum og þannig held ég að það sé á meirihluta íslenskra heimila.

Nú hefur félagið Siðmennt áréttað hvernig það vill haga litlu jólunum í skólum landsins. Samkvæmt nýjasta bréfi félagsins til biskups Íslands verður ekki betur séð en að það telji mannréttindabrot að hafa litlu jólin með trúarlegum áherslum. Þar má t. d. hvorki syngja jólasálma og né sýna helgileiki. Í stuttu máli: Engar trúarlegar áherslur.

Auðvitað útilokar slíkt jólahald ekki einungis sálmana Heims um ból og Bjart er yfir Betlehem. Göngum við í kringum einiberjarunn hlýtur líka að bannast, því enda þótt þar sé um að ræða veraldlegan söng, lýkur honum með grímulausum áróðri fyrir heimsókn í kristna kirkju - seint á sunnudagsmorgni.

„Svona gerum við er við göngum kirkjugólf!“

Söngurinn hlýtur því að teljast til „trúboðs í skólum“.

Fram til þessa hefur jólahald í skólunum verið á sömu nótum og í samfélaginu, blanda af trúarlegum og veraldlegum siðum.

Nú á að úthýsa því trúarlega í nafni mannréttinda og umburðarlyndis.

Litlu jólin eiga að vera trúlaus. Þar er eigi rúm fyrir Jesúbarnið.

Áróður getur líka falist í þöggun. Þegar aðeins má fagna jólum í skólum landsins með því að minnast ekki á Jesú Krist eru í því fólgin skilaboð til barnanna.

Jesús er óæskilegur á sinni eigin fæðingarhátíð.

Geta foreldrar kristinna barna sætt sig við slíkt „hlutleysi“?

Í Fréttablaðinu í morgun skrifar Guðmundur Andri Thorsson að við Íslendingar búum „…umfram allt í sekúlaríseruðu samfélagi…“.

Í því samhengi er fróðlegt að íhuga þá staðreynd að yfir 90% landsmanna teljast til einhverra trúfélaga og samkvæmt nýrri rannsókn Erlendar Haraldssonar, prófessors við Háskóla Íslands, telja 78% Íslendinga sig hafa orðið fyrir dulrænni reynslu. Fyrir meira en þrjátíu árum var það hlutfall 64%.

Umræður um þennan pistil fara fram á bloggi Svavars Alfreðs.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3698.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar