Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Örn Bárður Jónsson

Aftenging skóla og jóla? Getur umburðarlyndi staðið eitt og sér?

Nú liggur fyrir alþingi frumvarp sem miðar að breytingum á grunnskólalögum. Í fjölmiðlum hefur orðið allnokkur umræða um frumvarpið. Í núverandi lögum segir eftir að forsendan er gefin um samstarf skóla og heimila: „Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi.“ Í stað fyrrgreindra orða eru þessi orð nú í frumvarpinu: „Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.“

Breytingin kann að líta sakleysislega út við fyrstu sýn. En ég spyr: Hvað verður um grunnskóla sem byggir á fögrum hugtökum sem aftengd hafa verið grunni sínum? Verða hugtökin kannski eins og innistæðulausar ávísanir sem vísa ekki á neitt, hafa enga undirstöðu? Hvað er umburðarlyndi ef það er ekki tengt kristinni trú, eða þá til að mynda búddisma eða einhverjum öðrum gildagrunni? Getur umburðarlyndi staðið eitt og sér? Verður umburðarlyndið þá ekki heimilislaust, utangarðs? Get ég þá ákveðið sjálfur fyrir mig hvað í orðinu felst þegar búið er að aftengja það? Er hér boðið upp á sjálfdæmishyggju í málefnum sem varða mótun íslenskrar æsku og þjóðfélags? Og hvað með hugtakið manngildi? Hvað er manngildi án tengsla við hefð, arf og tiltekin grunngildi? Hver er mannskilningurinn á bak við hugtakið manngildi? Er það hin kristna sýn á manninn sem kallar hann barn Guðs og segir alla menn jafna og gerir ráð fyrir þjónustu við alla aldurshópa, afstaða sem vill tryggja öllum heilbrigðisþjónustu svo dæmi sé nefnt án tillits til tekna eða þjóðfélagsstöðu? Hvað merkir orðið manngildi eitt og sér? Er það eins og ávísun án innistæðu, ónýtur gúmmítékki?

Við erum kristin þjóð og kristin trú hefur mótað samfélag okkar í þúsund ár. Ísland er líklega eina landið í veröldinni þar sem kristinn átrúnaður hefur verið til staðar frá upphafi. Fyrstu landnemarnir voru kristnir munkar og meðal hinna norrænu landnema voru einnig margir fylgjendur Krists. Íslendingar köstuðu svo fljótlega hinum heiðna átrúnaði og tóku upp kristinn sið. Almenningur hefur á liðnum vikum látið í sér heyra um þessi mál og mikill meirihluti fólks lýst yfir stuðningi sínum við kristna trú. Á sama tíma má greina að svonefnd veraldarhyggja sækir á. Trúleysi og afstæðishyggja sækja á hér á landi og í mörgum öðrum löndum Evrópu. Hvar endar sú þróun? Ég tel að hún endi í eintómri sjálfdæmishyggju. Við getum varla haft gildagrunn sem er eins og jólahlaðborð þar sem hver og einn velur sér bita eftir smekk. Við getum ekki byggt upp þjóðfélag þar sem hver og einn einstaklingur ákveður sinn eigin gildagrunn. Þá geta einstaklingar líklega alveg eins sett sjálfum sér lög eftir eigin geðþótta. Hvert leiðir taumlaus sjálfdæmishyggja?

Mikilvægt er að fræða um þátt kristni í menningu okkar í þúsund ár. Um leið er mikilvægt að fræða um önnur trúarbrögð og lífsviðhorf. Umburðarlyndi byggist ekki á því að ég loki augum og eyrum fyrir lífsviðhorfum annarra. Forsenda umburðarlyndis er að ég þekki siði og venjur annarra, að ég þekki eigin sjónarhól, viti hvaðan ég horfi og á hvað. Þess vegna verða allir Íslendingar að fræðast um kristna trú og læra um leið að þekkja helstu atriði í kenningum og siðum annarra trúarbragða. Það er skylda okkar sem kristin þjóð í samfélagi þjóðanna.

Jólin eru á næsta leyti. Þau eru sú hátíð sem við leggjum hvað mest upp úr á ári hverju. Á jólum rifjum við upp söguna af fæðingu Jesú Krists sem kenndi okkur hin fögru grunngildi sem mótað hafa íslenska þjóð í þúsund ár og einnig flestar þær þjóðir sem hæst skora á lífsgæðaprófum sem gerð eru reglulega og birt í fjölmiðlum. Er það viturleg hugmynd að aftengja skólastarf hinum kristnu gildum? Getum við lifað í lausu lofti? Hlutleysi er ekki til og tómarúm í trúarefnum verður aldrei til langframa. Fyrr eða síðar fyllist tómarúmið af einhverju öðru. Viljum við láta kylfu ráða kasti hvað varðar grunngildi þjóðarinnar og láta undirstöðu menningar okkar reka á reiðanum? Meirihluti þjóðarinnar veit alveg hvað hann vill. En þú? Veistu hvað þú vilt?

Ég hvet lesendur til að íhuga og ræða þetta mikilvæga mál á aðventu og jólum.

Gleðileg jól!

Umræður um þennan pistil fara fram á vefsvæði sr. Arnar Bárðar

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3861.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar